Ethelwyn “Muff” Worden f. 17. jan. 1943, d. 25. ágúst 2006

Fallin er frá kær vinkona, tónlistarkennari, söngkona, lífskúnstner og mannvinur mikill, Ethelwyn “Muff” Worden. Muff var stofnfélagi Félags íslenskra söngkennara og var oft gott að leita til hennar um ýmis málefni sem viðkomu starfi félagsins.
Hún kom til Seyðisfjarðar árið 1997 til afleysinga við Tónlistarskólann þar til eins árs, en henni var greinilega ætlað að vera lengur því hún tók ástfóstri við bæinn og bæjarbúa og sáði þar sínum tónlistarfræjum sem hún hlúði að af mikilli natni. Hún kom á fót sumartónleikaröðinni “Bláa kirkjan”, þar sem fjöldinn allur af íslenskum og erlendum listamönnum hefur komið að tónleikahaldi. Hún hafði þegar lagt drög að tíu ára afmælistónleikaröð Bláu kirkjunnar næsta sumar. Muff starfaði einnig sem organisti við margar kirkjur á Austurlandi, ásamt því að kenna söng og hljóðfæraleik í tónlistarskólum þar.
Muff, eins og hún var ávallt nefnd, var einstök manneskja, hjartahlý og bar sterka persónu. Hún hafði skemmtilegan húmor, var hamhleypa til verka, ósérhlífin og fylgin sér. Hún átti auðvelt með að kynnast fólki, bar virðingu fyrir öllum og lét aldrei óþægileg orð falla um aðra, enda var hún vinmörg og átti vini víða um heim. Hún hafði mikinn áhuga á ættfræði og gat rakið ættir fólks langt aftur í ættir. Mér er minnisstætt þegar hún ók mér á flugvöllinn á Egilsstöðum einu sinni sem oftar. Við mættum þó nokkrum bílum á leiðinni og hún þekkti auðvitað hverja einustu manneskju sem í þeim var, veifaði þeim glaðlega og gat rakið ættir viðkomandi og bætt ýmsum öðrum fróðleik við.
Muff lést í Færeyjum 25. ágúst sl. og var útför hennar gerð frá Seyðisfjarðarkirkju þann 7. september. Við vottum fjölskyldu hennar og ástvinum dýpstu samúð. Minning um einstaka samferðamanneskju lifir.
F.h. FÍS
Signý Sæmundsdóttir


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *