1. okt. / bp Ég lofaði að spjalla betur við hann Finn. Eftir að hann hafði farið í sturtu og skolað af sér frumsýningarrykið fékk hann því spurningadembu yfir sig, m.a. um hlutverkin, skiptin yfir í tenór, fjölskyldulíf og karríer og hann svaraði auðvitað ljúfmannlega eins og við mátti búast.
– Er Belmonte draumarulla fyrir þig?
Bæði og. Aríurnar eru flestar vel skrifaðar og skemmtilegar að syngja þær en hlutverkið er ekki mjög þakklátt dramatískt. Accompagnato kaflinn í dúettinum í lokin er hápunktur hlutverskins fyrir mig.
– Hver er munurinn á nálgun við hlutverkið með umdeildum leikstjóra
eins og Calixto Bieito í Komische Oper og “hefðbundnari” leikstjóra
eins og Jamie Hayes í ÍÓ?
Bieito dró fram allt það ljótasta og svartasta sem finna mætti í verkinu og
setti það í forgrunninn. Fyrir vikið voru innanum atriði þar sem maður
hætti algerlega að heyra tónlistina vegna þess hve atburðirnir á sviðinu
voru yfirgengilegir. Þess vegna er eg ekki viss um að Bieito þjóni verkinu
eins mikið og hann þjónar því sem hann vill persónulega koma til skila.
Jamie leggur á hinn bóginn mikla áherslu á að segja söguna og setur verkið
upp sem ævintýri. Söngvararnir hafa talsvert frelsi og húmorinn í verkinu
fær að njóta sín miklu betur.
– Nú hefurðu sungið Tamino, Don Ottavio og Belmonte, tekurðu einn fram
yfir annan?
Þetta eru allt fremur erfið og svolítið vanþakklát hlutverk, en þar sem
tónlistin er svo falleg eru forréttindi að fá að syngja þau.
Tamino byrjar vel en dettur síðan hálfpartinn út úr sögunni eftir að hann
gerist vammlaus og gengur í Frímúrarana, og eftirlætur þar með Pamínu og
Papageno dramað.
Don Ottavio syngur mikið og lengi en af því að karakterinn er svo mikill
skynsemismaður við hliðina á öllum brjálæðingunum í stykkinu kemur hann
alltaf út eins og rola.
Belmonte er yfir sig ástfanginn af Konstönzu og syngur um það fagrar aríur
en á það á hættu að verða grunn persóna.
– Þú skiptir yfir í tenór sem frægt varð, hver var galdurinn við að ná
svo góðum tökum á hæðinni, léttirðu t.d. miðsviðið? Fannst þér strax
að þú værir kominn á rétta hillu eða var það langt ferli?
Eg hef alltaf haft fremur “langa” rödd og þess vegna var hæðin aldrei neitt
sérstakt vandamál. Þegar eg fór að læra hjá Joy Mammen fór eg að teygja
röddina enn meira og þjálfa falsettuna sérstaklega og það hjálpar líka mikið
til. Það sem frekar hefur háð mér er einmitt að hafa ekki fundist erfitt að
syngja og þess vegna ekki haft fyrir því að gera það rétt. Eg held eg sé
frekar seinn söngnemi og það er búið að taka mig langan tíma að uppgötva og
tileinka mér undirstöðuatriðin.
Sem baritón fannst mér eg vera kominn í öngstræti. Síðasta hlutverkið sem
eg söng í Guildhall var Figaró í Rakara Rossinis og eg fann að eg gat ekki
komist neitt áfram og leið ekki vel. Siðan eg skipti hefur mér alltaf fundist
eg eiga leið fyrir höndum og úr miklu meira efni að moða. Stærsta
breytingin var hugarfarsleg en þó eg sé löngu hættur að hugsa um þessa
baritón/tenór skiptingu er ferlið ennþá í fullum gangi að því leyti að eg er
enn að læra að syngja.
– Þú ert þekktur fyrir óhemju góða stjórn á öndun og löngum frösum,
hvað hugsarðu áður en þú syngur langan frasa?
Stundum hugsa eg bara “mundu að anda djúpt” en oftast þarf eg að passa upp á
að hleypa loftinu út frekar en að halda því inni ef frasinn er langur.
Annars stífna eg og fæ köfnunartilfinningu.
– Hvar sérðu sjálfan þig eftir tíu ár? Er röddin í þróun, sérðu e.t.v.
fyrir þér þyngra fag?
Það er auðvitað eðlileg þróun hjá flestum söngvurum að þegar þeir eldast
færa þeir sig yfir í þyngra fag. Eg hef aftur á móti ekki fest sjónar á
neinu sérstöku fagi og verð bara feginn ef eg get sungið eitthvað vel. Eg
ætla að prófa svolítið franska fagið og syng mína fyrstu Perlukafara næsta
ágúst.
– Hvernig nálgastu mismunandi stíl, hugsarðu fyrst og fremst um
fraseringar eða beitirðu röddinni e.t.v. á annan hátt við eldri
stykki, t.d. Orfeo, Krýningu Poppeu og Ritorno d’Ulisse heldur en
Lenskí og Albert Herring?
Eg er frekar mikill “fúndamentalisti” hvað söngtækni varðar og dáist mest að
söngvurum eins og Fritz Wunderlich sem syngja allt “eins”. Eg held að allar
raddir eigi að geta sungið hátt og lágt, veikt og sterkt, hratt eða hægt og
mismunandi verkefni gera mismunandi kröfur að þessu leyti. Það verður hins
vegar allt að vera byggt á sama grunninum.
Þegar eg hef sungið Montiverdi hef eg þurft að vinna vikum og mánuðum saman
í kólóratúrnum þar sem hann er ekki meðal þess sem mér var gefið.
– Hvað tekur við þegar sýningum lýkur á Brottnáminu?
Svolítið frí, þá fyrsti Elíasinn og svo hlutverk Peter Quint í Tökin hert í
Leipzig.
– Hvernig tekst ykkur Emmu að samræma heimilislíf stórum karríer ykkar
beggja, París, London, Berlín….? Er þetta meira púsluspil en þið
áttuð von á? Hvernig leysið þið það?
Það er ekki alltaf alveg einfalt en verður vonandi betra núna þegar við erum
bæði lausráðin. Við höfum hingað til tekið 3ja ára son okkar með okkur og
reynt að láta aldrei meira en 2 vikur líða án þess að hittast. Þetta verður
flóknara þegar hann byrjar í skóla og þá er líklegt að við reynum þá að
skiptast á að vinna. Við erum heppin að því leyti að umboðsmennirnir okkar
þekkjast vel og við erum saman í tveimur verkefnum á þessum komandi
leikhúsári.
Leave a Reply