Hér grípum við niður í ævisögu Enrico Carusos (1873-1921), sem skrifuð er af Dorothy, eiginkonu hans.
La Donna è mobile
ORÐ OG TEXTI – HÁLSINN EKKI MEÐ
Enrico kenndi engum að syngja nema Ricardo Martin og hann vildi helst ekki kenna, hélt líka að hann gerði það ekki vel. Hann hlustaði af kurteisi á menn sem vildu útskýra fyrir honum hans eigin söngtækni en lagði ekki orð í belg.
Enrico vildi helst ekki tala um söng sinn. Hann ræddi sjaldan um söng nema á skrifstofu óperunnar eða í æfingaherberginu sínu. Aftur á móti gat hann oft um æfingar og óperusöng í bréfum sínum til mín. Hann var laus við allan hégómaskap í sambandi við rödd sína og skoðaði hana af algjöru hlutleysi. Stundum talaði hann um sjálfan sig í þriðju persónu í sambandi við söng til að forðast það að miklast. Svo djúp var auðmýkt hans að hún hafði miklu meiri áhrif á mig en hin glæsta rödd hans.
Hann sagði mér að þegar hann syngi hugsaði hann síst af öllu um hálsinn eða stellingu tungunnar. Hann hugsaði fyrst og fremst um orð og texta. “Ég hugsa um orðin í aríunni, ekki um músíkina, því fyrst eru orðin skrifuð og síðan músíkin. Þau eru undirstaðan, en músíkin yfirbygging. En þegar fólki finnst ég eðlilegur og óþvingaður á leiksviðinu, þá veit það ekki að ég vinn eins og hestur. En ég má ekki láta það sjást hversu erfitt mér er um að syngja – það er listin”.
STÓR BEINABYGGING OG ANDRÝMD
Beinabyggingin í höfði hans var einstök í sinni röð. Munnholið var óvenjulega stórt, gómurinn hár og hvelfdur, kinnbeinin breið og tennur flatar og jafnar, langt á milli augna og ennið hátt og mikið – allt stuðlaði þetta að því að stækka röddina, eins og vel byggt hljóðfæri. Hann gat látið heilt egg upp í sig og lokað munninum án þess að hægt væri að sjá að hann hefði nokkuð uppi í sér. Brjósthol hans var afar mikið og hann gat þanið það út um 23 sentímetra. “Andar hann aldrei?” spurði fólk steinhissa þegar hann söng langar línur og endaði á háum og sterkum tónum án þess að anda. En sjálf raddböndin voru ekki óvenjulegri en gengur og gerist.
HVAÐ ÞARF GÓÐUR SÖNGVARI AÐ HAFA?
Þegar hann var spurður um hvað góður söngvari þyrfti að hafa til brunns að bera, svaraði hann: “Stórt brjósthol, stóran munn, 90% minni, 10% greind, mikið starfsþrek og eitthvað í hjartanu”.
ALDUR
Einu sinni var hann spurður í blaðaviðtali á hvaða aldrei söngröddin væri best. “Hvað konur snertir veit ég ekki”, svaraði hann. “En hvað tenóra snertir þá held ég að röddin sé best á aldrinum frá þrítugu til 45 ára. Innan við þrítugt vantar annað hvort list eða hjarta. En eftir það ætti hvort tveggja að vera til. Þegar ég var tíu ára strákur á Ítalíu þá söng ég og söng vel. Um tvítugt söng ég betur og um þrítugt enn betur, því þá hafði ég röddina, reynsluna og vald á listinni”.
UPPHITUN FYRIR SÝNINGU OG KVÍÐI
Þegar Enrico átti að syngja að kvöldinu var ekkert sungið hjá okkur að deginum og hann sagði varla neitt. Hann lagði kapal, teiknaði, límdi inn úrklippur eða sýslaði við gullpeningasafn sitt sem hann hafði byrjað á þegar hann söng í Sarah Bernhardt leikhúsinu í París 1907.
Hálftíma áður en Enrico færi að heiman í óperuna kom Fucito og þá var lokið þögn dagsins, því að farið var að æfa. Enrico söng aldrei skala nema rétt fyrir sýningar eða konserta. Ég var vön að sitja í söngstofunni og hlusta á Enrico, sem gekk um gólf með bolla fullan af sjóðandi heitu kaffi í hendinni og söng erfiðar æfingar fullum hálsi. Klukkan sjö fór hann í leikhúsið með Mario og Zirato, en ég kom þangað svo aftur hálftíma seinna.
Það var oft sagt að Caruso væri alls ekki óstyrkur á taugum þegar hann syngi. Þetta er hrein vitleysa. Hann var jafnan ákaflega kvíðinn og reyndi ekki að leyna því. Sjálfur lýsti hann þessu svo: “Auðvitað er ég taugaóstyrkur. Mér finnst alltaf sem einhver meðal áheyrenda ætli að eyðileggja mig og ég verði að berjast eins og víkingur til að halda velli. Sá söngvari sem heldur því fram að hann sé ókvíðinn, hann er ekki söngvari – heldur lygari og fífl”.
SMINKIÐ
Enrico var ákaflega nákvæmur með útlit sitt á leiksviðinu. Hann sminkaði sig af ítrustu nákvæmni og gætti þess vandlega að búningar hans væru sögulega réttir.
Sminkið fyrir Eleazar í La Juive var honum erfiðast. Það var ekki nóg að augabrúnirnar væru miklar og skeggið sítt, heldur þurfti hann að setja upp mikilsháttar kíttisnef. Það olli honum miklum kvíða. “Hvernig á ég að geta sungið með þetta framan á mér? Mér líður illa og mig klæjar undan skegginu. Komið þið með skæri. Ég klippi það af mér”. Mario og Zirato sögðu ekkert og aumingja hárkollumaðurinn og dresserinn sem orðið höfðu að þola reiðiköst hans, urðu þeirri stundu fegnastir þegar ég birtist. Ég lagði hendurnar um hálsinn á honum og brosti til hans í speglinum. “Jæja, ert það þú, Dóra mín. Það er gott”. Hann varð strax rólegur og bað um sígarettu, reykti hana í löngu munnstykki og brosti til mín í speglinum.
SEREMÓNÍURNAR
Þegar hann hafði lokið við sígarettuna fór hann að vaskinum, fyllti munninn af söltu vatni og virtist anda því að sér – ofan í lungun. Síðan spýtti hann því út, áður en hann kafnaði. Mario rétti honum sænskt neftóbak í dós og fékk Enrico sér prís af því til að hreinsa nefið. Síðan fékk hann viský úr vínglasi, svo sódavatn og loks fjórðung úr epli. Í vasana á búningi hans voru sett tvö glös með saltvatni til að grípa til ef hann þyrfti að skola hálsinn á leiksviðinu. Þegar þessu var öllu lokið fékk Mario honum verndargripina, bogið kóralhorn, vígðar medalíur og gamla peninga, sem allt var sett upp á litla, digra gullkeðju. Þá var barið að dyrum og Viviani aðstoðarsviðstjóri spurði, “Megum við byrja, Mr. Caruso?” En rétt áður en hann færi úr búningsherberginu bað hann móður sína sálugu að hjálpa sér, því að honum óx kjarkur við að hugsa til hennar. Enginn óskaði honum lukku, því að hann trúði því að það vissi á illt.
UPPÁHALDSHLUTVERK
Oft var Enrico spurður hvert væri uppáhaldshlutverkið hans. Hann svaraði því jafnan til að sér þætti ekki fremur vænt um eitt hlutverk en annað. “Öll eru hlutverkin erfið. Auðvitað þykir mér vænt um allt sem ég syng, annars gæti ég ekki sungið”. Honum þótti vænt um að leika í La Juive því að þar gafst honum færi á að sýna að hann var líka mikill leikari. Það er enginn vafi á því að vinsælasta hlutverkið hans var Canio í I Pagliacci. Ég gat aldrei dæmt um með hve mikilli tilfinningu hann söng hina frægu aríu Vesti la giubba nema ég stæði til hliðar á leiksviðinu. Ég vissi til að hann gat snökt í fimm mínútur í búningsherberginu eftir fyrsta þátt. Ég hef séð hann falla niður á leiksviðinu af því að yfir hann þyrmdi. En stundum hef ég vitað hann koma kátan og blístrandi frá leiksviðinu og gera að gamni sínu við hina söngvarana.
TJÁNING – ÞJÁNING
Það var sama hvað hans eigin tilfinningum leið, alltaf voru áheyrendur jafnhrifnir. Einu sinni bað ég hann að útskýra fyrir mér í hverju þetta vald lægi sem hann hefði á áheyrendum. Hann svaraði: “Ég hef þjáðst svo mikið, Dóra mín. Þetta finna þeir þegar ég syng, og þess vegna gráta þeir. Fólk sem aldrei hefur þjáðst getur ekki heldur sungið. Einu sinni leið mér afar illa og þá fékk ég nýja rödd. Þetta gerðist í London. Það var enginn hjá mér nema Martino, þjónninn minn. Kvöldið sem ég þjáðist mest átti ég að syngja I Pagliacci. Ég hafði sungið það hlutverk í mörg ár, en þetta kvöld var allt öðruvísi – þá varð ég meira en góður söngvari”.
Tíu árum áður en þetta hafði gerst var Enrico 24 ára gamall og söng hlutverk Rodolfos í fyrsta sinn í Livorno. Sópransöngkonan Ada Giachetti kom einnig fram í fyrsta sinn í þeirri óperu. Hún var líka ung og mjög fögur. Enrico varð afar ástfanginn af henni og hún af honum. Þau gátu ekki gifst af ýmsum ástæðum, en þau fóru að búa saman. Svo fæddist þeim sonur, Rodolfo (Fofo) og nokkrum árum síðar annar sonur, Enrico (Mimmi). Enrico líkaði ekki sambúðin; en þó að tíu ár væru liðin unni hann henni mjög, þrátt fyrir ýmisleg vonbrigði. Hann hafði oft sungið í London og átti þar hús með garði handa sonum sínum og móður þeirra.
Hann gat ekki alltaf verið um kyrrt hjá þeim. Eitt árið fór hann í söngferðalag til Suður-Ameríku áður en leikárið hófst í London. Svo sem venja var til stjórnaði hinn trausti Martino heimilinu. En þegar Enrico kom heim, var þar enginn fyrir nema Martino. Giachetti var farin og hafði tekið drengina með sér. Hún skildi eftir miða þar sem hún skýrði frá því að hún elskaði Enrico ekki lengur og að hún mundi aldrei koma aftur, og hún sagði ekki einu sinni hvert hún hefði farið.
Enrico varð sem óður maður. Hann sendi skeyti til allra staða, þar sem hugsanlegt var að hún gæti verið en ekkert svar kom. Hann var ekki mönnum sinnandi. En hann varð að syngja og nöpur örlögin réðu því að I Pagliacci var fyrsta óperan. Það kvöld þurfti hann ekki að látast vera Canio – hann var vonsvikinn elskhugi sem söng um eigið ólán….
Vesti la giubba
REPERTOIRE – ít/fr/sp/en/
Minni hans var ofboðslegt. Hann kunni 67 óperuhlutverk og yfir 500 lög og hélt jafnan áfram að bæta við sig.
Eftir því sem hann eltist varð rödd hans breiðari, þyngri og dekkri og stuðluðu þessir eiginleikar að því hversu vel honum tókst með dramatísk hlutverk eins og Samson (Samson og Dalila – Saint-Säens), Eleazar (La Juive – Halévy) og Jean de Leyden (Le Prophète – Meyerbeer), enda þótt hann héldi áfram að syngja létt lýrísk hlutverk eins og Lionel í Mörthu – M’appari – og Nemorino í Ástardrykknum.
Hann söng á frönsku, ítölsku, spænsku og ensku, en fékkst aldrei til að syngja á þýsku, enda þótt sjálfur keisarinn bæði hann um það. Við það tækifæri sagði hann þetta við blaðamenn í Berlín: “Ítalska er auðveldasta mál sem hægt er að syngja á. Í því eru fimm sérhljóðar og mjög fáir samhljóðar. Það er ófært fyrir mig að syngja á þýsku, því að samhljóðarnir eru endurteknir of oft og hinar skörpu áherslur gera það að verkum að ég get ekki fraserað nægilega vel og það veldur því að röddin missir glansinn. Útlendir söngvarar sem geta sungið á þýsku hljóta að hafa betri tækni en ég. Það er allt og sumt”.
UMTAL
Enrico hafði afar gaman af að segja frá, en hann talaði aldrei illa um fólk eða lævíslega og hlustaði ekki heldur á þess háttar skraf. “Hvað á það að þýða að eyða tímanum í slíkt?” sagði hann kvöld eitt eftir heimboð. “Ef hægt er að segja eitthvað gott, þá er rétt að tala – annars að þegja”.
Hann gagnrýndi aldrei kollega sína fyrir söng. Einu sinni hafði hann sungið dúett með frægri sópransöngkonu, sem raunar var frægari fyrir fegurð en söng. Ég spurði hvernig honum finndist hún syngja. “Ég veit ekki. Ég hef aldrei heyrt í henni”, svaraði hann.
Margt sem hann sagði af þessu tagi var um hreinlæti, en sjálfur var hann ákaflega hreinlátur. Hann gat tæplega verið í sömu skyrtunni lengur en klukkutíma í einu. Í leikhúsinu skipti hann um föt milli þátta og lét úða sig með ilmvatni um leið. Í óperu nokkurri þurfti hann að halda stórri og feitri óperusöngkonu í faðmi sér meðan hann söng ástarsöng til hennar. Eitt kvöld þegar hann var að fara í leikhúsið sagði hann: “Aimè, það er ægilegt að þurfa að syngja með manneskju sem ekki fer í bað, en þó er verra að komast í stemmningu gagnvart konu sem angar af hvítlauk. Ég vona að fólk taki ekki eftir því að ég get ekki sungið þetta af tilfinningu. Ég verð að leika betur en ég syng”.
Á TÓNLEIKA HJÁ TITO SCHIPA
Enrico var tónlistarmaður sem ekki hafði tíma til að njóta tónlistar. Við fórum aldrei saman á óperusýningu. Ég held að hann hafi ekki heyrt óperu nema hann væri að syngja sjálfur, í ein tuttugu ár. Jafnvel á óperusýningum kom það ekki fyrir að hann hlustaði á aðra söngvara á sviðinu. Við fórum ekki heldur á tónleika. Einu sinni fórum við þó, þegar Tito Schipa söng í fyrsta sinn opinberlega – Napólílög. Við komum seint og sátum aftarlega þar sem enginn sá til okkar og fórum eftir korter. “Af hverju vorum við eiginlega að fara þetta?” spurði ég. “Af því hann er tenór. En þetta er allt í lagi”, bætti hann við og ekki skildi ég hvað hann meinti.
ALDREI SUNGIÐ UPP Á GRÍN
Það kom aldrei fyrir að viðvaningur spilaði undir hjá honum og ekki heldur að hann syngi “upp á grín” í samkvæmum. Það var ákvæði í samningi hans við Metropolitan óperuna sem bannaði honum að syngja nokkurs staðar nema að fengnu leyfi óperustjórnarinnar. Ég veit ekki til að hann hafi brotið þá reglu nema einu sinni. Við höfðum farið á kvöldskemmtun sem haldin var fyrir hermenn og sjóliða í Manhattan óperunni. Við héldum að enginn hefði tekið eftir okkur, en allt í einu kallaði piltur á fremsta bekk: “Þarna er Caruso!”. Sýningin strandaði, því að allir tóku að æpa og stappa og forstjórinn kom í stúkuna til okkar og bað Enrico að syngja Over there. Hann vatt sér hiklaust upp á svið og að söngnum loknum ætlaði látunum ekki að linna að biðja um meira. Hann veifaði hendinni og kallaði: “Ekki meir!”. Svo flýtti hann sér til mín og hvíslaði: “Við verðum að flýta okkur. Ég verð að segja Gatti að ég hafi rofið samninginn”. Ég beið meðan hann hafði tal af Gatti og von bráðar kom hann himinlifandi út aftur og sagði: “Hann afsakar mig”.
GAGNRÝNENDUR
Enrico las alla gagnrýni með mikilli athygli og geymdi í möppum svo að hann gæti jafnan flett þeim upp sér til minnis. Í einni af þessum gömlu möppum rakst ég á þessa setningu úr grein sem dagsett var 25. des. 1914: “Hvorki Geraldine Farrar né Enrico Caruso voru upp á sitt besta raddlega. Caruso söng af miklum krafti og tilfinningu þó hann ætti í erfiðleikum á miðsviðinu”. Yfir þetta hafði Enrico skrifað orðið LYGARI stórum stöfum og með upphrópunarmerkjum.
Einu sinni hafði Enrico reiðst óréttmætri gagnrýni svo mjög að hann tók til sinna ráða. Hann hafði sungið í Ástardrykknum og fundið að hann “átti salinn”. Þetta var óvenjulegt því að eftir fyrsta þátt var hann vanur að spyrja mig: “Heldurðu að allt sé í lagi? Heldurðu að ég eigi salinn?” En í þetta skipti var hann ekki í neinum vafa. Hann var himinlifandi, lét klappa sig tugum sinnum fram og fór ánægður að hátta.
En daginn eftir fékk hann vonda krítík. Hann fór þegjandi að skrifborðinu, skrifaði bréf og fékk Zirato það. “Farðu með þetta til hr. Gatti-Casazza”. Það var uppsögn hans frá Metropolitan óperunni. Það var ekki liðinn nema hálftími þegar Gatti var kominn til okkar utan við sig af skelfingu. Hann gekk fram og aftur, nuddaði á sér nefið og baðaði út höndunum.
Enrico var að reykja og hlustaði rólegur á mótmæli hans. Svo tók hann til máls og sagði: “Nei. Krítikin segir að ég syngi illa, en ég hef aldrei sungið betur. Það vita þeir líka. Þeir eru þess vegna að segja mér að fólki líki ekki lengur við mig og að klappið hafi ekkert haft að segja. Þess vegna fer ég. Það er allt og sumt”. Hr. Ziegler kom líka til að biðja um frið og það gerði Otto Kahn einnig, en hann var stjórnarformaður óperunnar.
Loks voru allir orðnir aðframkomnir og Gatti farinn að gráta. Þá lét Enrico undan. “Jæja. Allt búið. Ég syng”. Þeir hlógu og grétu af gleði, klöppuðu honum á bakið og þökkuðu honum aftur og aftur. Þegar þeir voru farnir yppti hann öxlum. “Svona. Nú geta þessir kritikerar látið sér þetta að kenningu verða. En ég er svangur. Við skulum koma til Pane að borða”.
Che gelida manina
Samantekt -bp
Leave a Reply