Raddheilsa= tækni og sjálfsþekking

Sólrún Bragadóttir heldur námskeið í sumar þar sem m.a. verður farið í saumana á sambandi tækni og raddheilsu. Sólrún er með netfangið solabragad@privat.dk og heimasíðu www.solabraga.com
Í augum margra tónlistarmanna erum við söngvarar alveg spes fígúrur. Sérstaklega hvað varðar okkar alkunnu hysteríu út af röddinni. Öll höfum við sjálfsagt einhvern tíma gengið í gegnum þessa hryllilegu tilfinningu þegar röddin bregst og góð ráð verða dýr. Kvölina yfir því hvort eigi að aflýsa uppákomum eða ekki og hvar eigi að setja mörkin þar að lútandi. Endalausar pælingar um hvað sé gott fyrir hljóðfærið svo samferðafólki finnist það nógu gott. En hversu langt þarf að ganga?
Það getur tekið langa söngævi að komast að því hvernig best sé að meðhöndla hljóðfærið sitt. Margir sérfræðingar keppast við að gefa ráð og eru með langa lista yfir það sem ber að varast. Um það hef ég þetta að segja:
– Lærðu að þekkja sjálfan þig bæði líkamlega og andlega. Það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum.
– Vertu meðvitaður um eigin þarfir, tilfinningar og almenna líðan í alla staði.
Að sjálfsögðu geta ýmsar aðstæður verið söngvurum sérlega óhollar, svo sem eins og loftræsting í sölum, flugvélum og bílum. Blásturshiti eða ofhituð húsakynni. Reykingar og kertaljós í miklu magni í sölum og heimkynnum. En þó bregst hver og einn misjafnlega illa við þessum aðstæðum. Stundum virðist sem allt þetta rústi slímhúðinni hjá manni og á öðrum tímabilum gerir það minna til. En þó er sjálfsagt að varast eða milda áhrif þessara aðstæðna eins og mögulegt er.
Allt sem lýtur að líkamlegu heilbrigði skiptir miklu máli – en ekki síður það andlega. Allt speglast í röddinni! Þó má ekki gleyma aðalatriðinu í þessu sambandi sem er söngtæknin. Hún verður að vera nokkuð pottþétt, þannig að söngvarinn sé alltaf meðvitaður um hvernig hann beitir röddinni. Aldrei að ráðast að henni né þreyta hana og að verkefnin séu sniðin að hljóðfærinu.
Þegar allt er eins og það á að vera vaknar maður á morgnana og þarf ekki að syngja sig upp. Röddin er bara til staðar í öllu sínu veldi!
-Sólrún Bragadóttir


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *