Þuríður Pálsdóttir áttræð – eftir Garðar Cortes
Þuríður kenndi söng, tónfræði og tónlistarsögu við Söngskólann, að ógleymdri kennaradeildinni en þar menntaði hún söngkennara sem eru nú við kennslu úti um allt land. Hún var yfirkennari í tæp 30 ár, enda gagnmenntaður tónlistarmaður, tónmenntakennari og söngvari.
Raddsviðið var gífurlegt, allt frá sindrandi hæð lýrísks sóprans, niður í volduga rödd messósópransins ef á þurfti að halda. Hún söng á sínum ferli allar helstu perlur tónbókmenntanna, hvort sem var um söngdrápur/óratóríur að ræða, óperuhlutverk sem hún söng mýmörg eða ljóðatónlist þýsku meistaranna, að ógleymdum lögum íslensku tónskáldanna svo sem Páls Ísólfssonar, föður síns og frænku sinnar og bestu vinkonu Jórunnar Viðar. Aldrei varð Þuríður of stór fyrir íslensku þjóðlögin sem hún hélt á lofti alla tíð.
Einu sinni fyrir langalöngu var keisari í Kína, sem vildi bæta samgöngur í sínu víðlenda ríki og í því skyni hugðist hann útnefna sérstakan samgöngumálaráðherra. En áður en hann gerði það, ráðfærði hann sig við spekinginn Konfúsíus. Honum leist ágætlega á hugmyndina og spurði hvern hann hygðist útnefna sem samgöngumálaráðherra. Keisarinn nefndi nafn valinkunns manns. “Nei, hann getur ekki gegnt þessu embætti,” var svar Konfúsíusar. Keisarinn varð forviða, “hvers vegna?” og Konfúsíus svaraði “hann er ekki músíkalskur”. Keisarinn spurði í forundran “hvers vegna þarf samgöngumálaráðherra að vera músíkalskur”? Svar Konfúsíusar var; það verður að vera “samhljómur í umferðinni!”.
Þuríður Pálsdóttir var fyrsti kennarinn sem ég réð til starfa við stofnun Söngskólans í Reykjavík árið 1973. Hún tók m.a. að sér það vandasama verk að sameina hóp listamanna, sem ég réði til kennslu, í eina heild. Kennarahópurinn var sundurleitur fyrstu misserin. Allt voru þetta listamenn; óperusöngvarar, hljóðfæraleikarar, tónskáld, með sjálfstæðar skoðanir um hvernig ætti að gera hlutina og fór gjarnan hver sína leið. En Þuríður, svo músíkölsk sem hún er, tókst að ná “samhljómi í umferðina”, sameina listamennina í að miðla og kenna, jú, hver eftir sinni sannfæringu, en stefna allir í sömu átt. Söngskólinn býr að þessum samhljómi enn í dag.
Þuríður hefur alla tíð verið mikil atorkukona, ósérhlífin og oft á tíðum óvægin á kröfur gerðar til sjálfrar sín og annarra. Hún þekkti t.d. engin tímamörk í kennslutímum.
Sem söngvari var hún sér á stalli, en á þeim tíma sem Þuríður “var og hét” sem söngvari var hún hluti af “fenómenon” sem fæst seint skýring á en það var hið svokallaða “gullaldargengi” íslenskra söngvara. Hennar söngstíll var í takt við ítalska skólann sem kallast bel canto, en helstu kennarar hennar í þeim söngstíl voru Luigi Albergoni og Lina Pagliughi.
Hún opnaði söngvurum samtímans dyr sem höfðu verið luktar. Bak við þessar dyr blundaði ekki aðeins góð tónlist, heldur stórkostlegar hugmyndir um túlkun. Það er eitt að flytja músík en annað að voga sér að túlka hana. Þar, sem og í öðru, sem hún tók sér fyrir hendur, skorti hana hvorki hugrekki né hugmyndaflug. Hún var sögð “stórkostlegur túlkandi, svo magnþrungin að fólki varð ekki um sel”.
Þegar Íslenska óperan varð til var Þuríður fengin til liðs við fyrstu sýninguna, Pagliacci, sem leikstjóri. Þá bjó hún yfir leyndarmáli sem hún deildi með nýrri kynslóð söngvara um hvernig ætti að leika í óperu. Leiðsögn hennar var einföld en áhrifarík og heldur fram á þennan dag: “Þú þarft aðeins að hlusta á tónlistina”, sagði hún, “þá opnast allt fyrir þér”. Hún kenndi okkur sem sagt að bregðast við eftir tónlistinni, hlusta eftir þögninni, eftir hljómasamsetningunni, og nýta okkur styrkleikabreytingar.
Þegar kom að því að við í Söngskólanum lögðum í fyrstu húsakaupin, 5 árum eftir stofnun skólans, fór Þuríður þar fremst í flokki og það var að hennar áeggjan að allir kennararnir gáfu heil mánaðarlaun til kaupanna. Hún var einn aðalforkólfurinn í frægum miðnæturskemmtunum sem kennarar og nemendur skólans héldu, samtals hátt í annan tug skemmtana, lék og söng sjálf, brá sér í ýmis gervi svo sem “eina úr Tungunum” og “Nínu ásamt Geira” Guðmundar Jónssonar. Þá var hún í forsvari fyrir stofnun listaklúbbs innan styrktarfélags skólans að ógleymdum frægum flóamörkuðum til styrktar húsakaupum. Mér gleymist seint, ef nokkurn tíma, sú sjón að sjá stöllurnar Guðrúnu Á. Símonar og Þuríði arka á undan mér niður Austurstrætið, hvora með sinn plastpokann stútfullan af peningaseðlum, sem inn komu fyrir skemmtanirnar, og skella þeim á afgreiðsluborðið hjá gjaldkera Landsbankans.
Þuríður er með glæsilegri konum. Sem ung kona var hún sláandi falleg, hávaxin, og hnarreist, bar höfuð og herðar yfir samferðafólk sitt. Enn í dag er Þuríður sláandi falleg. Þrátt fyrir ýmis heilsufarsleg skakkaföll lætur hún aldrei deigan síga, en ber sig eins og drottning.
Alla ævi hefur gustað af Þuríði, hvort sem var í starfi eða dagsdaglega. Einu sinni endur fyrir löngu vorum við Þuríður ásamt söngfélaga okkar og mikilli vinkonu beggja, Margréti Eggertsdóttur, að syngja í Dómkirkjunni. Ákváðum við að gera okkur dagamun og fá okkur kaffisopa á Borginni að heldri manna sið!! Við fengum borð á góðum stað, pöntuðum okkur kaffi og kökur og bjuggum okkur undir góða og verðskuldaða hvíld frá amstri hversdagsins. Vindur sér að okkur maður, kaupsýslumaður í Reykjavík, og segir með nokkrum þjósti að þetta sé hans borð, hvort við viljum ekki færa okkur, þetta borð sé frátekið og hafi verið um árabil. Augnablikið sem fylgdi var magnþrungið, gleymi því aldrei! Þuríður var kjaftstopp í nákvæmlega 2 sekúndur þar til hún réðst til atlögu af þvílíkum fítónskrafti, að hún át mannvesalinginn upp til agna, tuggði rækilega og spýtti honum út úr sér þar sem hann stóð, áður en honum tókst að ná andanum, segja “afsakið” og hypja sig skjögrandi í burtu.
Og talandi um að Þuríði sé létt að svara fyrir sig, sé þess nauðsyn, var það einhvern tíma að Söngskólinn var með Opið hús og hluti af Opna húsinu var að gestir og gangandi gátu fengið prufu-söngkennslu, svona til að fá tilfinningu fyrir kennslu í skólanum. Inn í stofu til Þuríður kemur myndarlegur maður og biður um að fá kennslu í söng. Þuríður segir: “Eitthvað kannast ég nú við þig, hefur þú kannski sungið hjá mér í kór eða….”! “Nei,” segir maðurinn ringlaður, en bætir svo við, “ekki nema þú hafir kannski sofið hjá mér…” og áður en maðurinn komst lengra gellur í Þuríði: “Heyrðu vinur, þú hefðir sko aldrei gleymt því”, en maðurinn hélt áfram veikum mætti: “Ég er nefnilega svæfingalæknir”!
Já, Þuríður hefur alla ævi tekið sjálfa sig mátulega alvarlega, en aldrei borið minna en fullkomna virðingu fyrir sjálfri sér og kennt sínum nemendum þýðingu þess sama, að bera aldrei minna en fullkomna virðingu fyrir sjálfum sér og því sem þeir taka sér fyrir hendur.
Þegar hún lítur nú til baka yfir farinn veg, getur hún með stolti minnst áranna sem hún var skapandi listamaður og svo áranna sem hún var skapandi kennari, þar sem hún gaf af sjálfri sér alla þekkingu og reynslu sem hún hafði öðlast og er nú nýtt af nemendum hennar, sem eru fjöldamargir út um alla heima og geima og miðla því sem Þuríður Pálsdóttir, listamaðurinn og kennarinn, gaf þeim. Ég aftur á móti lít yfir farinn veg og þakka í auðmýkt fyrir að njóta samfygldar Þuríðar, krafta hennar, gæsku, þekkingar, reynslu og vináttu.
Hamingjuóskir frá okkur öllum í Söngskólanum, Níní mín.
– Garðar Cortes
Leave a Reply