Alexander Tækni: Innsýn frá Sverri Guðjónssyni
Sverrir Guðjónsson hélt áhugaverðan fyrirlestur um Alexander tækni í morgun. Rétt áður en hann hélt til London í söngnám árið 1988 keypti hann íbúð af Jónínu Ólafsdóttur, Alexanderkennara. Eftir að hafa undirritað samninginn spurði hann hana í rælni hvað þessi Alexandertækni væri. Hún sagði að í stuttu máli snerist hún um að losa um hnakkann, svo að höfuðið fengi að rata í eðlilega, lausa stöðu (eilítið fram og hvirfillinn upp) þannig að bakið lengdist og breikkaði. Á augabragði var hann staðráðinn í að læra þetta fag, þar sem hann hafði sungið opinberlega frá því hann var barn og hafði alltaf skynjað mikið álag á hálssvæðið með tilheyrandi penicillin gjöfum sem tíðkuðust þá.
Ég skrifaði niður nokkra punkta úr fyrirlestrinum og þeir fara hér á eftir:
Að skilja óþarfa spennu
-
Algeng spenna: Öll höfum við spennu í líkamanum, sem er óþörf. Það gerist ósjálfrátt við “daglegt stress”.
-
Að bera kennsl á ósjálfrátt atferli: Galdurinn við Alexander-tækni er e.t.v. að bera kennsl á þessa spennu og skoða ósjálfrátt atferli, eins og t.d. þegar við sitjum, verðum löt og látum hrygginn súnka, krossleggjum fótleggi, setjum olnboga á hnéð og hönd undir kinn og höldum að við séum að slaka á (og þess vegna verður það jafnvel uppáhaldsstaðan okkar, “þetta er eitthvað svo mikið ég, ég fíla mig svona”), en erum í raun að snúa upp á mjóbakið, færa spennuna upp í háls og pressa hljóðfærið okkar saman.
-
Að gera hið ómeðvitaða meðvitað: Alexander-tækni gerir þannig þessa duldu spennu, sem við tökum allajafna ekki eftir, meðvitaða. Leiðin til að uppgötva spennuna er að doka við, mörgum sinnum á dag og skoða hvað er að gerast í líkamanum, ekki gera neitt, bara skoða hvar spennan liggur og nota síðan öndunina til að losa spennuna.
Beiting í kennslu og framkomu
-
Alexanderkennarar vs. Söngkennarar: Þjálfaðir Alexander kennarar nota snertingu til að benda á spennu og losa hana, en það ættu söngkennarar að forðast. Í því felst hætta, því við getum smitað nemandann af okkar eigin spennu. En mikilvægt er að benda nemendum á að gaumgæfa daglega í hvaða stöðu líkaminn er, hvar hann klemmir og hugsa um það hvernig hann geti sjálfur létt á spennunni.
-
Hljóðfæraleikarar og krónískir verkir: Sverrir hefur unnið mikið með hljóðfæraleikurum, en hljóðfæraleikur kallar oft á óeðlilega stöðu líkamans (sbr. fiðluleikara) og sannreynt hefur verið að 70-80% hljóðfæraleikara sem spila mikið, hafa króníska verki í líkamanum, sem þeir jafnvel taka ekki eftir, því þeir eru orðnir svo vanir verkjunum.
-
Söngvarar og falin spenna: Söngvarar geta ráðið hreyfingum sínum meir að einhverju leyti, en ýmsir ávanar, eins og að túlka sífellt með höndunum (eins og nótnastatíf), geta valdið falinni spennu á axlasvæði sem leiðir upp í háls og höfuð. Þessi spenna hefur að sjálfsögðu áhrif á það hvernig hljóðfærið virkar, hljómrými og öndun.
Mikilvægi stöðugrar vinnu
-
Vinnan milli tíma: Allir söngkennarar eru að bisa við að losa nemendur við spennu. Það gengur ekki alltaf andskotalaust. Enda er hreint ekki nóg að benda nemendum á spennu, hvort heldur hún er í kjálka, tungu, hnakka eða liðum í söngtímum. Nemandinn verður sífellt að vera að vinna með þetta Á MILLI tímanna.
-
Endurskoðun daglegrar hegðunar: Það besta sem við getum gert er að benda þeim á að endurskoða daglegt munstur eins og fyrr segir, staldra við, breyta engu, en skoða ofan í kjölinn hvað líkaminn er að gera ómeðvitað. Og gera það meðvitað. Því aðeins er hægt að vinna með meinið að þekkja það.
-
Álag á tónleikum: Stundum tekst að losa nemendur við spennu í söngtímum og þeir virðast taka stórstígum framförum. Svo kemur að tónleikum og þá fer allt í handaskolum. Kennarinn ægilega spældur úti í sal. Það fyrsta sem fer þegar stressið hellist yfir, er öndunin, hún grynnist, allur sveigjanleiki hverfur út í veður og vind, kjálkinn stífnar og svo er pressað af öllum lífs og sálar kröftum til að koma tóninum út. Þetta þekkja allir sem koma mikið fram, við eigum okkar góðu daga, en líka slæma og þá byrjum við að pressa, vegna þessarar duldu spennu, sem vinnur á móti því að líkaminn gefi eftir og sé sveigjanlegur, opinn.
Hagnýt sjálfsskoðun og æfingar
-
Daglega sjálfsskoðunin: Þessi sjálfsskoðun sem þarf að fara fram öðru hverju yfir daginn, í huganum, felst sem sagt í því að stoppa, breyta engu, en rannsaka náið og kerfisbundið hvernig bakið hagar sér, liðirnir, hálsinn o.s.frv. Anda síðan djúpt og nota útöndunina til að fara í stöðu sem losar spennuna og öndunina. Jafnframt er hægt að læra mikið af því að stunda eins konar mannfræðisrannsóknir, t.d. að skoða annað fólk á kaffihúsi, ekki til þess að dæma, heldur til þess að sjá, nema og læra af því.
-
Að setjast meðvitað: Sverrir lætur nemendur stundum byrja á því að setjast, því að það er eitthvað sem við hugsum yfirleitt ekkert um. Þeir vanda sig þó af því kennarinn stendur fyrir framan þá, en æði oft greinir hann margt sem mætti betur fara, fætur eru kannski saman og gefa því lítinn stuðning, hálsinn reigist og fólk lætur sig falla. Þannig kemur högg á hálssvæðið, höfuðið vinnur ekki gegnum hvirfilinn. Hann biður þá um að hreyfingin sé gerð hægt, stoppað á vissu augnabliki og skoðað hvernig hakan leiðir hreyfinguna upp, en ekki hvirfillinn.
-
Hugsa upp í gegnum hvirfilinn: Þess vegna þarf að æfa sig í að hugsa upp í gegnum hvirfilinn, ekki að teygja upp og búa þannig til spennu, heldur að hugsa flæði upp og hafa liði opna, en ekki pressaða, þegar sest er.
-
Misskilningur á “stuðningi”: Sverrir segir að nemendur taki gjarnan mjög bókstaflega allt sem söngkennari segi. T.d. segir hann of algengt að mikil áhersla sé lögð á að söngnemar styðji með kviðnum án nánari útskýringa. Þetta misskilja nemendur oft, yfirspenna sig, spenna mjóbakið, jafnvel hné og ökkla. Öll þessi spenna leiðir svo upp í háls og kjálka. Það þarf sífellt að gæta að því að hnakkinn sé léttur og langur og kjálkinn sé laus.
-
Kjálkaæfing: Til að losa um kjálkaspennu nefndi Sverrir æfingu sem felst í því að hafa varir laust saman, anda inn um þær og finna kulið, anda síðan hljóðlaust út en eins og verið sé að syngja sérhljóðann A og finna hvernig kjálkinn losast og tungan liggur án þvingunar.
-
Losun upp að kjálkalið: Kjálkinn losnar ekki aðeins við það að falla, hugsa þarf losunina allt upp að kjálkalið.
Kraftur losunar
-
Rými fyrir öndun: Með því að uppgötva leynispennur í líkamanum, vinda ofan af þeim, skapast rými og opnun fyrir öndunina. Þess vegna er mikilvægt að tengja öndunina inn í losunarvinnuna.
Margt fleira áhugavert og líka sprenghlægilegt kom fram. Sverrir sýndi dæmi um hvernig hann vinnur í Alexander tímum (sem hann ráðleggur okkur EKKI að gera sem erum ekki þjálfuð í Alexander kennslu), setti m.a. Bergþór upp á bekk og sýndi hvernig hann losaði um spennu með léttu handarálagi, og um leið og líkaminn byrjaði að gefa eftir beitti hann léttum þrýstingi til að losa enn meir. Hann reisti hnén upp, tók síðan annað þeirra og þrýsti létt upp að líkamanum.
Þá spurði Frikki Kristins: “Nú er ég að fá nýjan nemanda á eftir, en hún er ljósmóðir, ég á sem sagt ekki að byrja á því í fyrsta tímanum að spenna lærin á henni í sundur? ” Fólk ætlaði að míga í sig af hlátri og svo biðu rúnnstykkin, ilmandi og brakandi.
Bókasafn Sverris (brot):
Að lokum er hér lítið brot af bókasafni Sverris, sem hann hafði meðferðis:
-
Glynn MacDonald: Alexander technique
-
Machover, Drake, Drake: The Alexander Technique birth book
-
Michael Gelb: Body learning
-
Michael McCallion: The Voice Book, for actors, public speakers and everyone who wants to make to the most of their voice
-
Kelly McEvenue: The Alexander technique for actors
-
Angela Caine: The Voice workbook, use your voice with confidence
-
Aldous Huxley: The Art of Seeing
-
Secrets of Alexander Technique
Leave a Reply