Glápt og hlerað á tónleikum og Söngskólapartýi

Hér eru nokkrar myndir af 20 ára söngafmælistónleikum Elínar Óskar Óskarsdóttur og úr prófdómarapartýi Söngskólans í Reykjavík, en Söngskólinn er í samstarfi við Royal Schools of Music og fær því árlega prófdómara frá Bretlandi. Er honum ævinlega haldið rómað hóf með góðum mat og miklum söng. Að þessu sinni var partýið hjá Hörpu Harðardóttur, söngkennara og Brynjari Frey Stefánssyni, eiginmanni hennar. Albert Eiríksson tók nokkrar myndir og eru þær hér að neðan.
Elín Ósk fyllti Langholtskirkju og var mikið um dýrðir. Á dagskránni voru m.a. nokkur atriði úr Galdra-Lofti og Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson. Hér eru þau hjónin, Jón og kona hans, Elísabet Þorgeirsdóttir, ásamt Jóa Sig, sem var kynnir, Þorgerði Katrínu, menntamálaráðherra og Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands.
Hér eru svo Elín Ósk og Bergþór með forsetanum, sem sló á létta strengi og sagðist vera eins og förumaður í samanburði við alla þessa óperusöngvara.
En fólkið bak við fólkið sést ekki alltaf á myndunum og hér eru þær Daddý förðunarmeistari (Dagbjört Óskarsdóttir) og Bubba, hárgreiðslumeistari (Hólmfríður Kristinsdóttir) í ÍÓ sem sáu um að allir væru skikkanlega til fara. Þær hafa passað upp á Ellu öll 20 söngárin.
Þessir jaxlar, Pétur Pétursson, Jón Leifsson og Kristinn Kristinsson, voru í kórnum hjá Ellu. Jón Leifsson var með væntumþykju-þema í gangi á Söngvaraballinu um daginn (eins og sjá mátti af myndunum), en hann fékkst ekki til að kyssa forsetann í þetta skiptið.
Í prófdómarapartýi Söngskólans í Reykjavík var sungið og sungið við píanóleik Jóns Stefánssonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Þarna má þekkja sr. Kristján Val (eiginmann Margrétar Bóasdóttur, söngkennara), Má Magnússon og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, söngkennara, Önnu Rún Atladóttur, píanóleikara, á bak við hana Róbert Agnarsson (eiginmann Önnu Björnsdóttur, sem er andlit skólans), Sesselju Guðmundsdóttur, hljómfræðikennara, Ásrúnu Davíðsdóttur, söngkennara og skrifstofustjóra, Sigrúnu Andrésdóttur og Valgerði J. Gunnarsdóttur, söngkennara, Lucindu Grímsdóttur (eiginkonu Eiðs Gunnarssonar, söngkennara), Violettu Smid, tónfræði- og píanókennara, Elísabetu J. Eiríksdóttur, söngkennara og Láru Rafnsdóttur, píanóleikara.
Hér eru gestgjafarnir fallegu og hressilegu, Harpa og Binni, (ekki nógu góð mynd af þeim, lofa bót og betrun næst) að undirbúa veisluna. Þar var m.a. dúnmjúkur silungur í ofni með stóru glæsisalati, spyrjið frekar hvað var ekki í því.
Og ekki má gleyma dásamlegum ávaxta-eftirréttinum með vanillusósu, álengdar eru þau Signý Sæmundsdóttir, söngkennari, og Kristinn Örn Kristinsson, píanóleikari, orðin allóþolinmóð að komast í salatið.
Hvernig ætli sé að vera nemandi í Söngskólanum og vera giftur Sesselju, hljómfræðikennara? Ætli hann geti fengið einkakennslu ef á bjátar? Magnús Guðmundsson, stórtenór, skenkir frúnni í glas.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *