Sibeliusarakademían í Helsinki – Steinunn Skjensted

Steinunn Skjensted hélt til náms við Sibeliusarakademíuna sl. haust:
Heimasíða skólans er www.siba.fi
Hægt er að sækja um annars vegar 5 1/2 árs mastersnám og hins vegar 2 1/2 árs master. Sé
sótt um 5 1/2 árs master er byrjað í almennri söngdeild. Til að sækja um 2 1/2 árs master
þarf umsækjandi að hafa lokið B.A.-gráðu eða sambærilegu námi annars staðar. Þegar sótt
er um 2 1/2 árs master er sótt um ljóðadeild, óperudeild eða söngkennaranám. Einnig er
doktorsnám í boði.
Skila þarf inn umsóknum til skólans fyrir 15. mars kl. 15.00 að finnskum tíma ár hvert.
Prufusöngur fer fram í byrjun maí. Maður fær bréf sent heim til sín tímanlega (svo maður
nái að kaupa flugmiða) um hvenær mæta skal og hvar. Tvær umferðir eru og komast allir
í fyrri en svo velur dómnefndin 25-30 manns í seinni umferðina. Að lokum komast svo
7-9 manns inn í skólann.
Umsækjandi þarf að leggja fram á umsókninni sinni prógram fyrir báðar umferðirnar þó svo
ekki verði af þeirri seinni. Fyrir fyrri umferðina skal undirbúa eina aríu og eitt ljóð.
Fyrir seinni umferðina skal svo undirbúa 2 óperuaríur, 1 óratóríuaríu og 1 ljóð, ljóð eða
mónólóg á ensku, finnsku eða sænsku og svo fer fram viðtal. Einnig lætur skólinn
umsækjendur sem komast í aðra umferð hafa nótur sem viðkomandi hefur þá 2-3 daga
til að læra og flytur svo fyrir dómnefndina.(sjá nánari upplýsingar á
www.siba.fi (http://www.siba.fi/eng/studies/how_to_apply/enkkuopas.pdf)
Umsækjendur fyrir 5 1/2 árs master þurfa einnig að taka tónfræði-og tónheyrnarpróf.
Skólinn útvegar meðleikara að kostnaðarlausu sem umsækjandi getur æft með hálftíma fyrir
inntökuprófið sitt. Einnig má koma með eigin meðleikara.
Ég hef ekki kynnt mér styrkjakerfið vel hér í Finnlandi en það er ætlað þeim sem hafa
finnskan ríkisborgararétt svo það er ekki hlaupið að því að komast inn í kerfið sé maður
ekki finnskur ríkisborgari.
Ég vil samt taka það fram að ENGIN skólagjöld eru við Síbelíusarakademíuna, aðeins þarf að
greiða í nemendafélagið en það eru 77 evrur á ári.
Söngkennurum er úthlutað en hægt er að biðja um ákveðinn kennara. Auðvitað er samt
alltaf best, hafi maður hugsað sér ákveðinn kennara sem mann langar til að læra hjá, að
hafa samband viðkomandi og athuga hvernig staðan sé hjá honum; hvort losni pláss hjá
honum í haust, hvort hann hefði mögulega áhuga á að heyra í umsækjanda o.s.frv.
Skólinn hjálpar öllum útlendum nemendum sínum að fá húsnæði. Skólinn á hús sem heitir
Clavis þar sem eingöngu nemendur úr Síbelíusarakademíunni búa og þar má æfa sig á
daginn. Það er þó fjarri því nógu stórt fyrir alla nemendur skólans. Einnig er stúdenta-
garðaskrifstofa sem heitir HOAS og á húsnæði víðsvegar um borgina. Svo er auðvitað
almennur markaður. En sem sagt, skólinn hjálpar öllum þeim útlendingum að finna
húsnæði sem koma húsnæðislausir að hausti til. Leiguverð á húsnæði í Helsinki er
á bilinu 150-500 evrur á mánuði, það fer eftir því hvernig maður býr (í stúdíóíbúð,
með öðrum…) og hvar. Ætli meðalleiguverðið sé ekki 250-350 evrur á mánuði.
Það er alveg nóg að gera í skólanum og allir virðast fá við sitt hæfi. Auðvitað hefur
skólinn fyrirsöng fyrir hlutverk í óperuuppfærslunum sem hann tekur fyrir en allir
taka þátt í óperuvinnu (senuvinnu). Einnig eru áhugaverðir ljóðakúrsar í boði og
einnig óratóríukúrsar. Ágætt úrval er á kúrsum á ensku og sænsku.Ætlast er til
100% tímasóknar.
Nemendur akademíunnar fá netfang þar sem auglýsingar/upplýsingar um tónleika eru
sendar. Einnig gefa Óperan, Fílharmónían, Útvarpshljómsveitin, tónleikaröð skólans út
bæklinga sem hægt er að finna út um allan skólann.
Það eru góðir nemendaafslættir í Finnlandi á t.d. samgöngum og á stúdentakaffiteríum.
Það er hægt að lifa frekar ódýru lífi sem stúdent í Helsinki (alla vega á íslenskan
mælikvarða).
Í raun er ekki ætlast til þess að nemendur kunni finnsku svo vel er hægt að læra við skólann án þess að þess að
kunna finnsku, sem þýðir að allir skyldukúrsar eru kenndir á ensku eða sænsku. Svo þarf maður bara að tala við
kennara ákveðins fags þegar það á við. Í mínu tilfelli mun ég ekki þurfa að taka neina skriflega kúrsa, sem þýðir
að ég er einungis í verklegum. Þar sem við erum aðeins tvö sem erum ekki finnsk í deildinni (og ég yfirleitt sú eina
í tímum) fer venjulega allt fram á finnsku en það sem viðkemur mér á ensku eða sænsku. Einnig eru samnemendur
mínir hjálpsamir að þýða fyrir mig þegar þess gerist þörf. Mér finnst kennarar upp til hópa sýna mér tillitsemi
tungumálalega séð.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *