María Jónsdóttir hefur stundað nám í Glasgow:
Heimasíða skólans er: www.rsamd.ac.uk
Undergraduate, grunnnám, er í heild sinni 4 ár þar sem farið er í helstu þætti söng og tónlistarnáms.
Í PostGraduate, eða framhaldsnámi má velja um 2 mismunandi brautir, annars vegar “Concert” eða “Opera”. Þessar tvær mismunandi brautir eru nýjung. PG námið er mjög krefjandi nám og fjölbreytt. Á stundaskrá eru m.a. leiklist, dans, “drama workshop”, alexander tækni, franska, þýska, ítalska og rússneska og fl.
Concert: Mæli með því, þar er farið í fjölbreyttari tónlistarstíla, þó óperusöngurinn bíði kannski betri tíma. Concert námið er að miklu leyti sjálfsnám þar sem nemandinn þarf sjálfur að finna efni og undirbúa tónleika, en hægt er að sitja alla þá tíma sem eru á dagskrá hjá PG hópnum.
Í PG opera kúrsinum eru sett upp óperubrot úr hinum og þessum óperum, allt eftir því hvað hentar hópnum hverju sinni. Einnig er gefinn kostur á að sitja þá samsöngstíma sem tilheyra concert hópnum.
Þá tekur við Masters nám. Hægt er að sækja um MMus Opera eða MMus Concert.
Sótt er um á www.cukas.ac.uk Umsóknarfrestur rennur yfirleitt út í október og er því gott að huga að umsóknum með góðum fyrirvara, því þær geta tekið dágóðan tíma. (Um að gera að vera öruggur í tali og hljóma svolítið sjálfsumglaður í umsóknum, því þeir leita eftir því að söngvari sé með bein í nefinu).
Prufusöngur fer yfirleitt fram um miðjan desember og fer það eftir námi sem sótt er um, hvað syngja á fyrir. Best er að kíkja á “Prospectus” á heimasíðunni. Fyrir PG dip er ætlast til að maður flytji þrjú mismunandi verk á mism. tungumálum, í óperudeildina er um að ræða þrjár aríur á þremur tungumálum, en þetta er best að skoða fyrir ár hvert því reglur breytast og gott er að vera með allt svona á hreinu. (Maður á alltaf að koma með það allra besta sem maður á, ekki rembast við að læra eitthvað nýtt rétt fyrir próf)
Styrkir eru af ýmsum toga. Skólinn veitir sjálfur styrki til erlendra nemenda og gott er að spyrja að því hvað sé í boði. Einnig er hægt að sækja um styrk hjá ABRSM á heimasíðu þeirra. Gott að kíkja inná síðu www.sine.is , Samband ísl. námsmanna erlendis, þar er að finna upplýsingar um styrki hérlendis og erlendis. Ef nemandi hefur einhverja reynslu af t.d. kennslu getur skólinn einnig séð nemendum fyrir launuðu hlutastarfi með námi, en ég er ekki viss hvernig það snýr að erlendum nemendum.
Kennurum er úthlutað, ef engin ósk liggur fyrir. Ég mundi mæla með því að fara út áður en nám hefst, fyrir páska og prófa mismunandi kennara. Það er ótrúlega mikil tíma og peningasóun að þurfa að skipta um kennara á miðjum vetri.
Við vorum í leiguhúsnæði, enda um að ræða heila fjölskyldu. Ég mundi halda að leiguhúsnæði væri betri kostur, þó kostnaður sé kannski svipaður. Það er ekki vitlaust að huga að húsnæði áður en skólaári lýkur, mynda sambönd við þá sem eru í námi og fá þá til að fylgjast með áður en skólaári lýkur. Oft eru nemendur að para sig saman í íbúðir í mai, júní og þá, ef einhver veit af manni, gæti maður lent í góðri íbúð. Þeir sem hafa verið bæði í heimavist og í leiguhúsnæði hrópa húrra fyrir því síðara, þar sem það er heimilislegra og þá félagsskapurinn hefur sitt að segja.
Venjulegur skóladagur er frá kl. 9 til 17/20. Fylgt er stundaskrá, en yfirleitt eru auðir tímar á milli til að æfa sig. Æfingaherbergi má bóka með dags fyrirvara. Sumir dagar geta verið strembnir og aðra daga er hægt að dvelja meira á bókasafninu. Óperuvinna kemur oft í törnum fyrir sýningar, en alltaf fastir tímar í stundatöflu þar að auki. Ágætis æfing fyrir framtíðina. Fyrir þá sem hafa lausan tíma er mjög gott félagslíf meðal nemenda, það á kannski síst við þá sem eru í óperudeildinni.
Það er frábært að búa í Glasgow, í einu orði sagt. Líkamsræktastöðvar, bíóhús, leikhús, óperan á móti skólanum og tölum síðan ekki um búðir. Fólk er rosalega almennilegt og allir af vilja gerðir að hjálpa til. Leikskólar eru frekar dýrir og ekki á hverju strái, barnaskólar eru misjafnir eftir hverfum. Ég mæli með að barnafólk finni sér fyrist góðan skóla í góðu hverfi og leiti svo að húsnæði. Það er spjallhópur á Yahoo, íslendingar í Skotlandi og mæli ég með að þeir sem eru á leið út skrái sig þar inn, mikið hægt að nýta sér það og auðvelt að fá upplýsingar hjá þeim sem búa úti.
Leave a Reply