Dagrún segir frá námskeiði félagsins í Kúdowa í Póllandi

Samband evrópskra söngkennara hittist í Kúdowa í Póllandi í september sl. Lagt var upp í þessa ferð til Kúdowa í Póllandi 14. september. Í för voru söngkennarar ásamt einum nemanda sinna; eitt slíkt par frá hverju aðildarlandi og tilgangur samverunnar var ekki að stofna til söngvarakeppni heldur að bjóða upp á námskeið sem nemandi og kennari gætu notið góðs af. Hluti af námskeiðinu fólst í því að kennarar áttu að gefa sýnishorn af kennslutækni sinni með eigin nemanda, og næsta dag áttu aðrir kennarar að leiðbeina nemandanum. Nemendur voru á öllum stigum, allt frá byrjendum til langt kominna. Eina þátttökuskilyrðið var að nemandinn væri opinn, móttækilegur og tilbúinn að læra.
Eins og nærri má geta var líflegt allan tímann og auðvelt að draga fram svipmyndir frá þessum dögum.
Fljótlega kom í ljós hvað flóran var skemmtilega breið. Þarna var ung stúlka, 16 ára gömul, að stiga sín fyrstu skref sem söngnemi en það kom snemma í ljós að hugsanlega hafði hún ekki næga undirstöðu til þess að samveran gæti nýst henni sem skildi. Hún gat verið ofurviðkvæm fyrir minnstu leiðsögn. Til dæmis ef hún var beðin um að opna munn á annan veg en hún gerði, þá gat það endað með táraflóði. Öllu merkilegra var þó, í þessu tilviki, að kennarinn var viðkvæmari fyrir leiðsögninni en nemandinn, og taldi til of mikils af henni ætlast. Hann gleymdi sér í hlutverki verndara.
Önnur stúlka var þarna, nánast fullnuma, en stjórnlaus af framagirni og orðin helst til of örugg í prímadonnu hlutverkinu. Kennari hennar þurfti aðstoð hópsins til að ná henni niður á jörðina. Akkílesarhæll hennar var tvímælalaust óskýr texti og þegar henni var leiðbeint um það gargaði hún af pirringi og tapaði sér í táraflóði einnig, fullkomlega vanhæf að taka leiðsögn. Það kom engum á óvart að innskot hópstjórans um niðurstöðu nýjustu rannsókna, að háir hælar geri konur heimskar, féll ekki í kramið hjá þessari dívu. (Rannsóknin ku raunar hafa leitt í ljós að konur á háum hælum þurfi að beita jafnvægisskyninu á þann hátt að önnur skynjun, svo sum eins og að nema nýjar upplýsingar, dofnar. Ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.)
Dagfarsprúður gæða barítón kom við sögu líka en hann breyttist svo á sviði að helst mátti líkja honum við hirðfífl sem leggur sig í framkróka við að koma hirðinni til að hlæja. Þetta gerðist algjörlega af náttúrunnar hendi og gilti einu þó maðurinn væri að túlka hádramatísk harmljóð eftir Brahms.
19 ára gamall tenór sem hafði mætt án kennara, söng nánast óaðfinnanlega, en í ljós kom að kennari hans var alls ekki söngkennari, heldur hljóðfæraleikari, sem hafði tekist, engu að síður, að kalla fram þennan óviðjafnanlega sönghæfileika í nemandanum. Eina gagnrýnin sem þessi ungi maður fékk var að syngja of erfið hlutverk miðað við aldur og var honum ráðlagt að leita sér að nýjum kennara en deila má um hversu haldgott það ráð var.
Þarna var líka organisti, Pólverji, sem ekki hafði notið nokkurrar leiðsagnar í söng. Hann hafði einfaldlega uppgötvað á einhverri kóræfingunni að hann gat sungið og ákvað að kenna sér sjálfur. Það var engum blöðum um það að fletta að hann hafði einstaka hæfileika til að hlusta, nema og leita sjálfur.
Eina merkilega uppgötvun gerðu kvenkennararnir sem höfðu allir skilið hárblásarana sína eftir heima, þar sem þeir voru vissir um að hótelið sem gist var á, myndi sjá fyrir því. Raunin var önnur. Eftir að hafa spurt hver aðra um hárblásara yfir morgunverðarborðum þóttumst við ásáttar um að það myndi nægja að standa fyrir framan pólsku söngvarana.
Hálýrískur tenór í krísu uppgötvaði á þessu námskeiði að hann væri með gagnslausan kennara sem kom í ljós þegar kennarinn flúði af hólmi, þegar kom að þeim að gefa sýnishorn úr kennslustund. Það var aðdáunarvert að sjá nemandann snúa vörn í sókn og sjá hann leggja sig fram um að læra af okkur á sem skemmstum tíma.
Vitanlega hlaut einnig að finnast tenór með hálsbólgu í hópnum. Sá söng ekkert fyrstu dagana en gekk um með stóran poka úr apótekinu á vinstri handlegg og hélt um stóran, hvítan trefil sem vafinn var um hálsinn, með þeirri hægri. Þegar þessi týnda tenórsál loks hóf upp raustina hafði það lamandi, eða eigum við að segja örvandi, áhrif á hormónastarfsemi hvers einasta kvenmanns í salnum.
Ekki má gleyma sjarmerandi sópransöngkonu, með járnhljóm í röddinni. Enginn efaðist um hversu efnileg hún var en þrátt fyrir það tókst engum að kenna henni framburð sem nothæfur var fyrir enskan Shakespeare texta og ekki er hægt annað en minnast á sænska ,,beauty bassann” en ljúfari tóna er sjaldgæft að heyra.
Að lokum má nefna barítóninn, sem hafði það fyrir sérstakt áhugamál á tónleikum að lesa út úr því hvaða brjóstarhaldarastærðir kvenfólkið á sviðinu notaði. Hann hafði nánast alltaf rétt fyrir sér! Skyldi þetta vera barítónskt sérkenni?
Þetta er aðeins brot af litrófi nemendanna.
Kennararnir, hins vegar, áttu það flestir sameiginlegt að hafa óumræðilegan áhuga á öllu sem snýr að söngkennslu og voru óþreytandi að ræða málin sín á milli og skiptast á hugmyndum. Satt best að segja var yndislegt að tilheyra þessum hópi og við sönnuðum að gamla kreddan um vanhæfi söngkennara til að leyfa hver öðrum að njóta sín, var ekkert annað en gömul kredda. Við uppgötvuðum, okkur til ánægju, að við áttum margt sameiginlegt og nálgun okkar var um margt áþekk. Þetta átti þó ekki við um eldri kynslóð kennaranna og viðkvæði eins og „nein, du hast ein problem” eða „nein, du machst einen fehler” eða „svona hef ég gert þetta í 30 ár og alltaf hefur það virkað” kom okkur yngri kynslóðinni spánskt fyrir sjónir. Þetta voru raddir liðinnar tíðar í okkar huga og ekki í anda þeirrar uppeldisstefnu sem við vildum viðhafa. Þó var yndislegt að sjá kennara af þeirri kynslóð hlusta á og taka ofan fyrir rödd þeirra úr yngri hópnum og gera fumlausar tilraunir til að nálgast hinar nýrri aðferðir. Við komum okkur saman um að leiðirnar væru margar en markmiðin þau sömu.
Dagrún Hjartardóttir


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *