Söngnám verður ekki borið saman við bóknám

Enn er barið á Grýlu kerlingu. Gaman að vita hvað þessi síða er að verða lifandi með heitum umræðum. Og nú eru menn farnir að skrifa undir nafni, sem er ennþá skemmtilegra
“Sæl Grýla. Söngnám er allt annað en eitthvert bóknám sem þú vísar til. Ég ætla að giska á að þú sért annað hvort söngkennari eða söngnemandi og vitir hvað þú ert að tala um. Þú ættir þá að vita að í söngnámi kemur í raun ekki í ljós hvað í fólk er spunnið fyrr en eftir 2.-3. ára nám og oft lengra”, segir Egill Árni Pálsson, nemandi í Söngskólanum í Reykjavík og ein af stjörnunum í Nótt í Feneyjum:
Ég er sammála því að þeir sem ekki taka framförum á ákveðnum tíma ættu að endurskoða val sitt á framtíðaratvinnugrein og skólarnir mættu ganga harðar fram í að gera nemendum það ljóst. En staðreyndin er sú að þroski fólks í söng er mjög misjafn, og það á að gefa öllum sem vilja tækifæri að þroska þann hæfileika. Að meina þeim inngöngu í söngskólana sem ekki geta sungið “fallega” á inntökuprófinu er bara jafn fáránlegt og að hætta að endurhæfa fólk sem á við líkamlega fötlun að stríða. Tilgangurinn með skóla er að kenna fólki, ekki bara að hjálpa þeim sem hafa einhvern “natur-talent”. Ef þú gefur manneskjunni tækifæri til að þroska sig og þjálfa sig þá geta leynst þar hæfileikar sem engan gat órað fyrir. En ég er sammála því að það þarf að gera meiri kröfur, sérstaklega til þeirra nemenda sem eru kannski búnir að vera í skólanum í nokkurn tíma án þess að sýna einhverjar framfarir. Svo er þetta líka auðvitað spurning um þá kennslu sem fólk fær, af hverju er endilega sjálfgefið að fólk hafi ekki hæfileika??? Af hverju getur vandamálið ekki verið það að kennslan sé ekki nógu góð? Eða að nemendur skilji ekki kennarann sinn?
Þú horfir fram hjá ansi mörgum mikilvægum atriðum í þessari umfjöllun þinni. Hver á svo að dæma um það að nemandi sem sækir um skólavist sé verðugt efni í söngvara? Ég er ekki viss um að ég hefði fengið inngöngu í söngskóla hefði þetta verið eins og þú ert að óska eftir. En í dag er ég kominn mjög framarlega í þessum söngbransa. Það verður að leyfa öllum að sækja um, en það þarf að vera strangari við fólk sem ekki tekur framförum. Það er mín skoðun.
Frekar ætti að ráðast í það að hafa þetta nám stigaskipt. Grunnstig ættu að vera opin flestum þeim sem sækja um, miðstig mættu alla vega hafa einhverskonar fyrirsöng, og það ættu að vera inntökupróf í háskólastig. Þannig væri best að stýra þessu.
Það er ekki hægt að bera þetta saman við hefðbundið bóknám eins og þú gerir, þetta er vinna með fólk og með sjálfansig frá a-ö, hæfileikar söngvara eru 99% sjálfsvinna en ekki bóknám, þó er sjálfsagt að gera kröfur um ákv bókvit.
Ég gæti haldið endalaust áfram en ég veit ekki hvar væri best að hætta Því hætti ég hér.
Kveðja,
Egill


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *