Vígþór Sjafnar og Jónas á Eskifirði fimmt. 20. maí kl. 20

 Fimmtudaginn 20. maí kl. 20 heldur Vígþór Sjafnar Zophoníasson, ásamt Jónasi Ingimundarsyni, tónleika í Kirkju- og menningarmiðstöðinni í Fjarðabyggð.

Vígþór Sjafnar Zophoníasson mun ljúka námi til meistaragráðu í einsöng við tónlistar- og dansdeild háskólans í Missouri Kansas City í vor. Þar hefur hann m.a. lært söng hjá Vinson Cole. Vígþór Sjafnar útskrifaðist sem Bachelor of Music með einsöng sem aðalgrein frá New England Conservatory í Boston vorið 2008 með „akademískum“ heiðri.

Í maí síðastliðnum var Vígþór Sjafnar valinn framúrskarandi listnemi Kópavogsbæjar 2009.


Tónleikarnir á Eskifirði eru styrktir af Menningarráði Austurlands. Miðar verða seldir við innganginn.

Vígþór Sjafnar er fæddur í júlí 1981 og óx úr grasi og af greinum í Hallormsstaðarskógi á Fljótsdalshéraði. Hann hóf söngnám átján vetra gamall hjá Keith Reed í Tónlistarskóla Austur-Héraðs á Egilsstöðum og lauk þaðan 8. stigi í söng vorið 2004. Á árunum 1997 til 2004 tók Vígþór virkan þátt í allflestum leiksýningum og óperuuppfærslum sem fluttar voru á Fljótsdalshéraði. Meðal hlutverka Vígþórs Sjafnars voru Don Curzio í Brúðkaupi Fígarós, Árni í Þrek og Tár, Dreitill í Skilaboðaskjóunni, Hud í Hárinu og Riff Raff í Rocky Horror svo einhver séu nefnd.

Haustið 2004 lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem Vígþór Sjafnar byrjaði háskólanám í tónlist við University of Washington í Seattle undir handleiðslu Vinson Cole. Þar söng hann meðal annars Aristée/Pluto í Orfeus í undirheimum eftir Offenbach, Valère í Tartuffe eftir Mechem og Don Curzio í Brúðkaupi Fígarós. Í ágúst 2006 flutti Vígþór Sjafnar til Boston til að geta haldið áfram námi hjá Vinson Cole, sem var að hefja kennslu við New England Conservatory þar í borg. Veturinn 2006-2007 söng Vígþór Sjafnar hlutverk Blaðamannsins frá París í Les Mamelles de Tirésias eftir Poulenc og Villisvínið í Les malheur d’Orfée eftir Milhaud Vorið 2008 söng hann og dansaði í sérstakri sýningu sem byggð var á lögum eftir Cole Porter.

Þrjú sumur (2005, 2006, og 2008) kom Vígþór fram á tónlistarhátíð í Aspen í Colorado í Bandaríkjunum (The Aspen Music Festival and School). Meðal hlutverka þar voru Jim/Ringleader í Wachsfigurenkabinett eftir Hartmann, Schoolmaster/mosquito í The Cunning Little Vixen eftir Janacek og Sam Craig í Our Town eftir Ned Rorem.

Haustið 2008 söng Vígþór Sjafnar titilhlutverkið í Albert Herring eftir Benjamin Britten. Vorið 2009 söng Vígþór Sjafnar hlutverk John Jasper í söngleiknum The Mystery of Edwin Drood, sem byggður er á síðustu sögu Dickens. Haustið 2009 söng hann svo hlutverk Nornarinnar í Hans og Grétu eftir Humperdinck.

Um þessar mundir (janúar – mars 2010) kemur Vígþór Sjafnar fram sem Prinsinn og Stjúpmóðirin í Öskubusku, sem er einþáttungsópera byggð á samnefndu ævintýri en textinn er sunginn við frægar óperuaríur og dúetta eftir Mozart, Bizet, Verdi og Rossini. Einþáttungsóperan er samvinnuverkefni Lyrísku Óperunnar í Kansas City og grunnskóla í fylkjum Kansas og Missouri.