Guðmundur Jónsson
Guðmundur Jónsson hefur sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar í meira en hálfa öld. Hvert mannsbarn þekkir Hrausta menn o.m.fl. í flutningi Guðmundar, en í tugi ára var hann nánast ómissandi í allar óperuuppfærslur á Íslandi, allt frá því hann kom heim frá söngnámi í Bandaríkjunum og brilleraði í Rigoletto þegar Þjóðleikhúsið var opnað árið 1950. Guðmundur hefur verið rómaður söngkennari og hann er einkar ónískur á viskubrunn sinn, hann er óþreytandi við að hjálpa okkur hinum við að muna eftir því að málið er ekki eins flókið og við viljum vera að láta. Við þurfum bara að slaka á og hætta að pressa á raddirnar! Guðmundur hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2006 (sjá ræðu Garðars Cortes hér) og var mál til komið að heiðra hann á einhvern máta, en sjálfsagt hefur honum sjálfum þótt það hégómi hinn mesti. Ásgeir Páll skrapp með upptökutækið í heimsókn:
“Þú veist að það er ekki hægt að kenna söng, það er bara hægt að læra söng”, sagði Guðmundur Jónsson einn af ástsælustu söngvurum Íslands fyrr og síðar þegar ég spurði hann hvort hann væri ekki reiðubúinn að leyfa mér að heimsækja sig og fræða mig um kennslutækni hans. Reyndar hef ég heyrt hann segja þetta áður og það margoft.
Við mæltum okkur mót á heimili hans, en þegar ég mætti þangað hafði hann skipt um skoðun.
“Ertu ekki á bíl? Við förum niður í Söngskóla, þá get ég heyrt hvar þú stendur í leiðinni.”
Inniskórnir eru enn á sínum stað í anddyri Söngskólans og eftir að hafa smeygt sér í þá var gengið inn í hina lærðu stofnun. Við fórum inn í stofu 4, en þar kenndi Guðmundur alltaf eftir að skólinn flutti á Snorrabrautina. Ég setti upptökutækið á gang og reyndi að spyrja læriföðurinn gamla út úr fræðunum sem hann hefur stundað af elju og áhuga bæði sem kennari og söngvari í yfir 50 ár.
Hver eru algeng vandamál söngnema og söngvara að þínu mati?
„Það fyrsta sem ég hef alltaf gert er að segja nemandanum að til þess að syngja fallega verði textinn að vera fallegur. Mörgum, meira að segja sprenglærðum söngvurum og söngkennurum, hættir til að setja munninn í einhverja skrítna stöðu þegar þeir byrja að syngja. Þeir spenna talfærin og textinn verður um leið mjög einkennilegur og tónninn þ.a.l. alls ekki fallegur.
Annað sem margir söngnemar og söngvarar gera allt of oft er að súpa loftið.”
Guðmundur tekur nú upp Fjárlögin og finnur lagið Hlíðin mín Fríða. “Þetta lag hentar mjög vel til að kenna öndun, því að það er nákvæmlega jafnlangt á milli allra hendinganna og flestum finnst sá tími vera mun styttri en hann í rauninni er. Þegar þú syngur fyrstu hendinguna “Hlíðin mín fríða,” veikirðu lokin á síðasta tóninum, skýtur vömbinni fram og ert þar með búinn að taka loft fyrir þá næstu. Og það loftmagn sem þú tekur í þessu stutta skoti er jafnmikið og þú kemur nokkrun tíma til með að þurfa fyrir hvaða hendingu sem er. Ef þú hinsvegar, eins og svo margir gera, ferð að súpa loftið til þess að fá meira, finnurðu að þú hefur enga stjórn á því lofti og brjóstkassinn spennist allur upp. En það er alveg merkilegt hvað margir eiga erfitt með að átta sig á þessu.
Það er líka afar mikilvægt að söngvarinn geri sér grein fyrir því að tónninn á að grennast á leiðinni upp.“
Hvað meinarðu með því?
“Ímyndum okkur að tónninn fari í gegnum sporöskjulagaðan ramma sem er úr gúmmíi. Eftir því sem tónninn fer ofar teygist (lóðrétt) á rammanum og þannig grennist tónninn. M.ö.o. rásin sem tónninn fer í gegnum þrengist. Ef menn hafa þetta ekki í huga verður allt svo miklu erfiðara og hætt við að menn pressi til að ná tóninum fram, en það er mesta hætta hvers söngvara. Angóið er mjög gott til að sýna þetta. “
(ANGÓ er söngæfing þar sem sunginn er þríhljómur DO-MÍ-SO á sérhljóðanum A, og svo farið upp á DO áttund ofar og sá tónn sunginn á NGÓ sem myndast aftast í kokinu og svo niður aftur sömu leið en Oinu haldið)
“Sjáðu til, ef þú passar að hugsa stöðugt um sporöskjulagaða rammann verður þetta svo létt og afslappað.”
Guðmundur sýnir mér hvernig skuli gera þetta og biður mig um að gera eins. Eitthvað er hann ekki ánægður með árangurinn svo hann sýnir mér aftur og lætur mig svo endurtaka.
“Sko til, var þetta ekki miklu auðveldara?”
Ég kinka kolli.
“Af hverju gerðirðu þetta þá ekki strax”, segir þessi gamli söngkennari og kímir. “Sjáðu til elsku drengurinn minn, þetta er svo einfalt. Ég er svo latur að ég hef aldrei nennt að hafa fyrir hlutunum og þess vegna hef ég aldrei pressað á tóninn, heldur alltaf sungið afslappað, enda er það miklu þægilegra.”
Hvaða aðferðir notarðu til að fá nemanda til að pressa ekki þegar hann syngur?
“Ja, það er nú það, sumir eiga erfiðara með að átta sig á þessu en aðrir. Ég hef t.d. aldrei haft annan eins nemanda og hann Kristinn Sigmundsson. Það var alveg merkilegt að að um leið og ég útskýrði eitthvað fyrir honum náði hann því undir eins. Svo hafa aðrir nemendur þurft aðeins lengri tíma en flestir ná þessu nú nokkuð fljótt. Sko, eftir því sem ofar dregur er ágætt að hugsa sér að maður haldi á nokkrum kílóum af lóðum í hvorri hendi og lyfti þeim aðeins hærra. Þá styður maður eiginlega sjálfkrafa undir tóninn. En kílóin mega ekki vera mörg því þá gerir maður of mikið.”
“Guðmundur, þú hefur verið frægur fyrir kennslu þína á sérhljóðamyndun. Hvernig kennirðu hana?”
“Sko, sérhljóðarnir a, e og o eru allir á sama stað í munninum, og um þá sem og aðra gildir sú regla að grenna hljóðin eftir því sem ofar dregur. Með I og Í hættir söngvurum til að spenna tunguna og eftir því sem ofar dregur verður tónninn ljótur og spenntur. Ef þú segir fyrir mig “Síminn býður, tíminn líður” og getur svo sungið það eins afslappað og þú segir það ertu að gera rétt. Eftir því sem I og Í fara ofar þarftu hinsvegar að renna tungunni afslappað fram með því að sleikja tanngarðinn ofan frá og niður og láta kjálkann gefa eftir um leið. Ef þú gerir þetta verður tónninn hvorki spenntur né pressaður.
Þegar þú syngur sérhljóðana Ó og Ú á uppleið þarftu bara að muna eftir því að opna munninn, ekki hafa hann lokaðan og spenntan.
En sjáðu til elsku drengurinn minn, þetta er svo einfalt, og þannig er það með allt í söngnum. Flestir halda að þetta sé flóknara en það í rauninni er. Ef menn bara vissu þá yrði allt svo einfalt.”
Það liggur við að ég skammist mín að halda áfram að spyrja út í svo einfalda hluti, en einhvern veginn finn ég á mér að þolinmæði meistarans er langt frá því að vera á þrotum.
“Ég er nú talsvert farinn að gleyma, en fræðin eru þarna ennþá”, segir Guðmundur og bendir á höfuðið á sér.
“Nú er oft talað um mikilvægi þess að ná röddinni fram”
“Ná röddinni fram? Ja hérna hér, var hún eitthvað að þvælast í aftursætinu. Nei, nei ég skil hvað þú átt við. Ég nota stundum líkinguna um málarastigann.” Nú stendur Guðmundur á fætur og syngur “Angóið”. “Í fyrsta tóninum ímynda ég mér að ég sé kominn upp í fyrsta þrepið á málarastiganum. Á þeim næsta fer ég svo upp í næsta þrep og svo koll af kolli. Þegar ég kem svo upp á efsta tóninn held ég áfram niður málarastigann hinum megin. Þannig ímynda ég mér að hver tónn sé framar þeim á undan og röddin ætti að svara þessari ímyndun með því að tónninn verði skýrari og framar en sá á undan. Allt snýst þetta samt sem áður um sérhljóðana sem við töluðum um áðan. Ef sérhljóðarnir eru fallegir og rétt myndaðir verður tónninn fallegur.”
“Margir eiga erfitt með að syngja í veikum styrk í mikilli tónhæð, hvernig þjálfarðu það?”
Elsku drengurinn minn, það er nú alveg sáraeinfalt.”
Enn og aftur stendur Guðmundur á fætur, slær D á píanóið og sýnir mér hvernig hann syngur tóninn veikt.
“Taktu nú eftir hvernig ég byrja tóninn heldur veikt, syng hann svo smátt og smátt sterkara og veiki hann í lokin eins og hægt er.”
Guðmundur gerir æfinguna óaðfinnanlega og í lokin veikir hann tóninn nánast út í ekki neitt.
“Þessa æfingu held ég að hverjum sé hollt að gera vilji hann læra að syngja veikt.”
Hvernig bendirðu fólki á að takast á við sviðskrekk?
“Sviðsskrekk?? Ertu taugaveiklaður þegar þú kemur fram??”
Ég kinka kolli og viðurkenni það.
“Blessaður vertu ekkert að því. Það er bara verra. Ég hef aldrei tekið mig svo hátíðlega að það hafi tekið því að verða stressaður.”
Mér finnst athyglisvert að þetta viðhorf lýsir Guðmundi ágætlega, hann leggur hlutna upp með þeim hætti að allt virðist svo einfalt, rétt eins og honum finnst söngurinn vera.
Hvaða upphitunaræfingar notarðu í upphafi söngtíma?
Upphitunaræfingar??
Já fyrir röddina?
Ætlarðu að hita upp röddina? Til hvers? Svona eins og gamlan hafragraut? Svona hættu þessari vitleysu og taktu vítamínin þín (hér á Guðmundur að sjálfsögðu við neftóbakið úr silfurdósum sem hann réttir að mér)…
Eftir að hafa tekið vænan slurk í nösina heldur hann áfram að útskýra fyrir mér ýmis atriði sem ekki koma öll söngtækni við, heldur því hvers vegna maður þakkar ekki fyrir sig sé manni boðið í nefið, að neftóbaksneysla sé jafnholl kartöfluáti og fleira í þeim dúr.
Hér skal þó staðar numið í bili og lesendum þessa fróðleiks Guðmundar Jónssonar látið eftir að melta fræðin eins og hann hefur borið þau á borð fyrir nemendur í áratugi.
23. maí 2006
– Ásgeir Páll Ágústsson