19. apríl 2006. Á síðasta vetrardag kemur út tvöfaldur geisladiskur – Hvar er tunglið? – sem hefur að geyma 24 ný jazzsönglög úr smiðju tónskáldsins Sigurðar Flosasonar og ljóðskáldsins Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar.
Kristjana Stefánsdóttir söngkona flytur öll lögin ásamt Jazzkvartett Sigurðar Flosasonar.
Hvar er tunglið? verður kynnt á tvennum útgáfutónleikum, annars vegar í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á síðasta vetrardag og hins vegar á sumardaginn fyrsta í sal Tónlistarskólans í Garðabæ, kl. 20 báða dagana.
Aðgangur ókeypis í Ráðhúsið!
Hvar er tunglið? er stærsta einstaka framlag til sunginnar íslenskrar jazztónlistar frá upphafi vega, um 100 mínútur af fjölbreyttri tónlist, sem sprottin er úr íslenskum jarðvegi en með alþjóðlegum blæ.
Kristjana Stefánsdóttir söngkona flytur öll lögin ásamt Jazzkvartett Sigurðar Flosasonar. Auk Sigurðar sem leikur á saxófón skipa kvartettinn Eyþór Gunnarsson á píanó, Pétur Östlund á trommur (kemur frá Svíþjóð) og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á kontrabassa.
Þess má geta að nýjasti diskur kvartettsins, Leiðin heim, hlaut nýverið íslensku tónlistarverðlaunin sem jazzdiskur ársins 2005. Kvartettinn hefur leikið í Japan og Bandaríkjunum og diskurinn kom út í Japan síðastliðið sumar. Kvartettinn spannar þrjár kynslóðir íslenskra jazzmanna í fremstu röð og hefur hlotið frábæra dóma fyrir leik sinn og hljóðritanir. Meðlimir hljómsveitarinnar eru auk þess, hver fyrir sig, vel þekktir máttarstólpar íslensks jazzlífs.
Sigurður Flosason hefur áður sent frá sér 10 geisladiska í eigin nafni, en hér sýnir hann á sér nýja hlið. Aðalsteinn Ásberg hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, auk söngljóða á meira en tug geisladiska. Samstarf þeirra félaga er á margslungið, en áður hefur Sigurður m.a. tónskreytt ljóðaúrval Aðalsteins sem út kom sl. haust.
Hvar er tunglið? verður kynnt á tvennum útgáfutónleikum, annars vegar í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á síðasta vetrardag og hins vegar á sumardaginn fyrsta í sal Tónlistarskólans í Garðabæ.
Athugið: Það er frítt inn í Ráðhúsið! Dimma ehf. gefur út og annast dreifingu.
Nánari upplýsingar:
Aðalsteinn Ásberg s. 897 5521 asberg@dimma.is
Sigurður Flosason s. 861 2664 sivi@simnet.is
Kristjana Stefánsdóttir s. 864 6947 kstefans@hotmail.com
Dimma Laufásvegi 58 ▪ 101 Reykjavík Sími 562 1921 ▪ Netfang: dimma@dimma.is