Ungir einsöngvarar í ÍÓ þri. 25. jan. kl. 12.15

 Hinir sívinsælu hádegistónleikar ungra einsöngvara í Íslensku óperunni verða næst haldnir þriðjudaginn 25. janúar kl. 12.15. Að þessu sinni er Snorri Wium gestasöngvari á tónleikunum, en þessi kunni tenórsöngvari hefur á undanförnum árum komið reglulega fram á íslensku tónleikasviði og tekið þátt í uppfærslum Íslensku óperunnar.

Efnisskrá tónleikanna að þessu sinni er í léttari kantinum, en þar er að finna atriði úr óperunum Brúðkaupi Fígarós og Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir W. A. Mozart, óperettunni Paganini eftir Franz Lehár og söngleikjunum Annie Get Your Gun eftir Irving Berlin og West Side Story eftir Leonard Bernstein. Aðstoð við sviðssetningu annast Sibylle Köll.

Aðgangseyrir er aðeins 1.500 kr og geta gestir keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana.

Flytjendur: Snorri Wium, tenór,  Bragi Jónsson, bassi, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran, Magnús Guðmundsson, baritón, Rannveig Káradóttir, sópran, Rósalind Gísladóttir, mezzó-sópran, Antonía Hevesi, píanó.