Ungir einsöngvarar í ÍÓ þri. 23. nóv. kl. 12.15

Þriðjudaginn 23. nóvember kl. 12.15 verða hádegistónleikar Íslensku óperunnar með ungum einsöngvurum. Þeir taka rúman hálftíma í flutningi. Á efnisskrá verða m.a. verk úr Grímudansleik Verdis, Toscu Puccinins, Normu eftir Bellini, Porgy og Bess eftir Gershwin og hinni sjaldheyrðu óperu La favorita eftir Donizetti. Flytjendur eru úr röðum ungra íslenskra einsöngvara, en Antonía Hevesí leikur á píanó.

Aðgangseyrir á tónleikana 1.500 kr. Gestir geta keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana.

Einsöngvarar eru
Bylgja Dís Gunnarsdóttir, sópran
Bragi Jónsson, bassi
Erla Björg Káradóttir, sópran
Hörn Hrafnsdóttir, mezzó-sópran
Magnús Guðmundsson, barítón
Rósalind Gísladóttir, mezzó-sópran
Yousef Sheikh, tenór

Sviðssetning: Sibylle Köll


Efnisskráin:

Donizetti – La Favorita – Quando le soglie … – Hörn og Magnús
Alfonso konungur kemur auga á Leonoru sem hann elskar og hyggst giftast. Hann spyr hví hún sé svo sorgmædd og hún svarar honum að hún sé smáð og útskúfuð sem frilla konungs. Alfonso bendir á að hún fái allt sem hugurinn girnist en hún segir að þrátt fyrir að varirnar brosi þá gráti hjartað.

Mozart Töfraflautan Bei männern Bragi og Rósalind
Pamina og Papageno syngja um ástina.

Bellini – Norma – Dúett – Bylgja og Erla
Adalgisa hughreystir hofprest sinn Normu og segir þær ekki keppinauta í ástum. Þær halda upp á endurnýjaða vináttu sína.

Donizetti – La Favorita – Ah! Mio bene – Hörn og Yousef
Fernando skilur ekki af hverju Leonora segir honum að fara og hitta sig aldrei aftur þrátt fyrir að hún elski hann og hann hana. Hún segir að fórnin sé færð fyrir hann. Þau skiljast með trega.

Mozart – Don Giovanni – La ci darem la mano – Bragi og Rósalind
Don Giovanni reynir að draga Zerlinu á tálar á sjálfan brúðkaupsdag hennar.

Puccini – Tosca – Turnarían – Yousef

Verdi – Um Ballo – Tríó – Bylgja, Hörn og Yousef
Amalia leitar ráða hjá seiðkonunni því hún er ástfanginn af Ricardo, besta vini eiginmans síns – Ricardo verður vitni af samtali þeirra.

Gershwin – Porgy and Bess – Bess you is my – Bylgja og Magnús
Óperan Porgy og Bess eftir George Gershwin lýsir erfiðum aðstæðum blökkumanna í Suðurríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar.
Í dúettinum "Bess you is my woman now" hafa ógæfukonan Bess og fatlaði betlarinn Porgy náð að gleyma erfiðleikunum um stund og syngja um að deila saman betra lífi.