Ungir einsöngvarar í ÍÓ þri. 19. apríl kl. 12.15

 Síðustu hádegistónleikar vetrarins í Íslensku óperunni verða þriðjudaginn 19. apríl kl. 12.15. Að þessu sinni er gestasöngvari á tónleikunum Maríus Sverrisson, sem gert hefur garðinn frægan bæði hérlendis og í Þýskalandi. Auk hans kom fram á tónleikunum Bragi Jónsson, Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Erla Björg Káradóttir, Hlynur Andri Elsuson, Hörn Hrafnsdóttir, Jóhanna Héðinsdóttir og Natalía Druzin Halldórsdóttir ásamt Antoníu Hevesí píanóleikara. Á efnisskránni eru aríur og samsöngvar m.a. úr Aidu, Spaðadrottningunni, Don Pasquale, Don Giovanni, My Fair Lady og Óperudraugnum. Sviðsetningu annast Bjarni Thor Kristinsson, bassasöngvari, sem spreytir sig í fyrsta sinn á sviðsetningu í Íslensku óperunni, en hann hefur sungið í mörgum af þekktustu óperuhúsum Evrópu á undanförnum árum.

Aðgangseyrir á tónleikana er aðeins 1.500 kr. Gestir geta keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana. 


Maríus H. Sverrisson fæddist í Reykjavík og lærði söng og leiklist í Vínarborg, New York og Hamborg, en hann er nú búsettur í Þýskalandi og á Íslandi. Hann hefur tekið þátt í fjölda leik-sýninga víða um Evrópu, þar á meðal í Sound of Music, Kiss me Kate, La Cage aux folles, Mosees, Cabaret, Blood Brothers, Sweeney Todd og Space Dream. Hann söng við opnunarhátíð Potsdamer Platz í Berlín og kom fram sem einsöngvari í Berliner Friedrickstadt Palast, Scillertheater, Admiralspalast og Sjóvarpsþættinum „Wetten Das“, einnig lék hann aðalhlutverkið í söngleiknum Titanic, en höfundur verksins Maury Yeston (NINE) samdi nýtt lag fyrir Maríus. Á árunum 2009-2010 tók hann að sér sönghluverk í stórsýningunni Apassionata, en sýningin var valin besta fjölskylduskemmtun ársins 2009-2010 í Evrópu, og komst í gull fyrir DVD og CD sölu á árinu. Í Zürich stofnaði hann ásamt félögum sínum leikhópinn Schnabeltheater og frumfluttu þau söngleikinn „Der Kobold König“ eftir Marius og Eric Müller við góðar undirtektir á síðasta ári. Maríus hefur komið fram sem einsöngvari og leikari bæði erlendis og á Íslandi, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Íslensku óperunni, í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og með Frostrósum. Maríus hefur sungið á eftirtöldum geisla- og mynddiskum; Skilaboðaskjóðunni, Cabaret Wien, Titanic Hamburg, Mobile og Apassionata.