Selið á Stokkalæk er stórglæsilegt tónlistarsetur, rekið af hjónunum Ingu Ástu og Pétri Hafstein, sem búa á Stokkalæk. Tilgangur þessa seturs er fyrst og fremst sá að styrkja unga tónlistarnema í klassískri tónlist til að efla færni sína og menntun og veita bæði þeim og öðru tónlistarfólki færi á að iðka tónlist sína, æfa og halda tónleika, í fögru umhverfi fjarri ys og þys þéttbýlisins. Með þessu er öðrum þræði að því stefnt að auka menningarlíf í héraðinu.
Jafnframt verður Selið leigt öðrum hópum til samkomuhalds. Í hverju herbergi er gott píanó og í sal er frábær flygill.
Tilhögun þessa verður í meginatriðum sem hér segir:
Í fyrsta lagi verður nokkrum heimildum til dvalar á staðnum úthlutað sem styrkjum til þeirra sem áhuga hafa á að skipuleggja og standa fyrir meistaranámskeiðum og til ungra tónlistarmanna sem eru að hefja feril sinn sem atvinnumenn í klassískri tónlist, til æfinga og tónleikahalds.
Í öðru lagi verður öðru tónlistarfólki leigður staðurinn til æfinga, tónleikahalds eða upptöku gegn vægu gjaldi.
Í þriðja lagi geta aðrir sótt um leyfi til að dvelja í Selinu gegn fullu gjaldi. Þá er staðurinn eingöngu leigður í heild, einum aðila í einu. Matur er ekki framreiddur en fullbúið eldhús er til staðar. Þá er unnt að fá mat frá veitingahúsum í héraðinu.
Hægt er að fá nánari upplýsingar og skoða myndir á stokkalaekur.is