Þóra í Kirkjuhvoli sunn. 6. feb. kl. 16

 Þóra Einarsdóttir sópran og Gerrit Schuil á píanó halda tónleika í tónleikaröðinni „Kammermúsík í Garðabæ“, sunnudaginn 6. febrúar kl. 16 í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. við Vídalínskirkju  Á tónleikunum verða flutt verk eftir Gabriel Fauré, Jón Ásgeirsson, Tsjajkovskí, Nikolaj Rimskí-Korsakov og Rachmaninov.

Miðasala fer fram á tónleikastað og almennt miðaverð er 1700 kr, miðaverð fyrir eldri borgara og námsmenn er 1200 kr.

Þóra stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og við Guildhall School of Music and Drama hjá Prof. Lauru Sarti. Þóra þreytti frumraun sína að námi loknu við Glyndebourne Festival Opera. Hún steig fyrst á svið Íslensku óperunnar aðeins 18 ára gömul í litlum hlutverkum í Rigoletto og í Töfraflautunni. Þóra hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum m.a í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Kennedy Center í Washington og Weill Recital Hall, New York.

Nýverið söng hún í Messíasi ásamt Münchener Bach-Chor og Bach Collegium í Fílharmóníunni við Gasteig í München, níundu sinfóníu Beethovens ásamt Duisburgher Philharmonikern og Messu í C-dúr eftir Beethoven ásamt Beethoven hljómsveitinni í Bonn. Hér heima er skemmst að minnast frammistöðu hennar í hlutverki Gildu í Rígólettó þar sem Þóra hlaut einróma lof gagnrýnenda fyrir.

Meðal helstu óperuhlutverka eru Pamína í Töfraflautunni, Súsanna í Brúðkaupi Fígarós, Ilia í Idomeneo, Despina í Cosi fan tutte, Zerlina í Don Giovanni, Kleópatra í Júlíusi Sesari, Euridice í Orfeo ed Euridice, Nannetta í Falstaff, María í Dóttur Herdeildarinnar, Adína í Ástardrykknum, Musetta í La Bohème, Sophie í Rosenkavalier, Adele í Leðurblökunni, Gretel í Hänsel und Gretel, Ännchen í Freischütz, Woglinde og Waldvogel í Niflungahringnum.

Þóra hefur alla tíð lagt mikla rækt við ljóðasöng. Á undangengnum 20 árum hefur hún ávallt leitast við að takast á við ný viðfangsefni og spannar nú verkefnalisti hennar á sviði ljóðasöngs ógrynni ljóða á fjölda tungumála. Síðustu misserin hefur hún einbeitt sér að rússneskum og frönskum ljóðum.