Susan Boyle æðið

 Í netheimum hefur gripið um sig sannkallað Susan Boyle æði, eftir að hún kom fram í hæfileikaþættinum Britain’s Got Talent. Susan er 47 ára einhleyp kona sem býr með kettinum sínum. Hroki dómnefndar þegar konan sem langar að verða eins og Elaine Paige  kemur á svið leynir sér ekki. Nú verður gaman að rífa sundur og saman í háði, eins og siður er í slíkum hæfileikaþáttum þegar fólk með stjörnudrauma í augunum og skekkta sjálfsmynd kemur í prufu. En annað kemur á daginn þegar Susan hefur upp raust sína og kemur á óvart með ágætum söng og makalausri einlægni. Hér  má sjá prufuna í heild.

Mark Blankenship, poppskríbent á Huffingtonpost.com reynir að komast til botns í því hvers vegna prufan hefur svo mikil áhrif á fólk að hálfgerð víma rennur á það. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að tvær meginástæður séu fyrir þeirri fjöldahrifningu sem til verður.

(1) Susan Boyle skýtur óþverralegum ónotum sem tíðkast í raunveruleikaþáttum af þessu tæi ref fyrir rass

Í byrjun er hið fyrirsjáanlega óumflýjanlegt: Kona sem virðist alls ekki eiga heima í slíkri keppni og kemur skringilega fyrir, skjögrar á svið í prufu fyrir þátt á borð við American Idol eða America's Got Talent og verður að athlægi. Með óvenjulegri framkomu uppsker hún sjálfumglaðan hlátur áhorfenda, þeim finnst þeir vera yfir hana hafnir og líður þess vegna betur með sjálfa sig.

Og kynnar Britain's Got Talent vita það augljóslega. Þeir bregða fyrir sig aulafyndni við furðufyrirbærið  og Susan segist búa með kisunni sinni og lætur flakka að hún hafi aldrei verið kysst. Áhorfendur eru háðsfullir í framan þegar hún gengur á sviðið og við brýnum klærnar heima í stofu.

Þá gerist það að söngur hennar — sem er mjög góður, jafnvel frábær — veldur algjöru uppnámi. Okkur var boðinn hundamatur, en við fáum hamborgara, sem bragðast eins og steik.

Framsetningunni er auðvitað hagrætt eins og títt er í raunveruleikasjónvarpi. Hægt hefði verið að kynna Susan sem mögulegan vinningshafa frá byrjun, en þá hefði útkoman ekki orðið eins áhrifamikil.

En eins og efnið er matreitt, er myndskeiðið óneitanlega hrífandi.

Að hluta til er það vegna þess að Susan er sérdeilis blátt áfram, en líka vegna þess að myndskeiðið segir sögu sem okkur langar að sé til í raunveruleikanum. Hversu mikið sem við hæðumst að þeim sem okkur finnst fyrir neðan okkar virðingu, er það miklu skemmtilegra að vera áminnt um að allir eiga rétt á mannlegri reisn.

Ástæðan er að þegar við hlæjum að einhverjum fyrir að vera furðufyrirbæri, hlæjum við af ótta. Við hlæjum vegna þess að við viljum sanna að við séum ekki eins og þessi auli þarna. Ef við getum komið höggi á fólk sem er öðruvísi, sönnum við fyrir okkur að við sjálf föllum inn í normið.

Ef við bjóðum einhvern sem er utanveltu velkominn, sköpum við aftur á móti aðstæður til þess að öðlast sjálf viðurkenningu í framtíðinni. Innst inni grunar okkur nefnilega að við séum svolítið öðruvísi en aðrir. Sagan af Susan Boyle leiðir okkur fyrir sjónir að það er trúlega allt í lagi. Í stað þess að óttast mögulega skömm okkar sjálfra, megum við búast við því að samfélagið hafi frekar áhuga á því góða sem við höfum fram að færa. Það er notaleg tilfinning að treysta því að ef maður er maður sjálfur, öðlast maður viðurkenningu.

Hvort sem slíkt draumasiðferði er til í lífinu sjálfu eða ekki, er freistandi að ætla að svo sé í tilfelli Susan Boyle. Með því að taka þátt í því ævintýri sem sjónvarpið hefur búið til úr henni, með því að hylla hana og horfa á vídeóið aftur og aftur, líður okkur vel yfir því að hafa boðið furðufugl velkominn, en um leið er okkur létt því að við erum að skapa veröld sem er tilbúin til að bjóða okkur sjálf velkomin.

(2) Susan Boyle er ekki ung.

Saga hennar er enn áhrifameiri af því að hún er ekki undarlegur unglingur. Við getum litið á unglingsnörd og sagt: „Æ, hann á bara eftir að þroskast. Það er von.“ Hins vegar liggur beint við að það sé of seint með skringilega 47 ára gamla konu, hún hlýtur að vera dæmd til að búa á hliðarlínu mannnlífsins. Poppheimurinn er með það á hreinu að gömul, einhleyp kattakelling sé fallkandídat.

Að horfa á konu á þessum aldri sem er heldur ekki sérstaklega kúl, sanna að hún hafi enn möguleika á að gera það gott, minnir okkur á að við getum ennþá leyst okkar vandamál. Á öllum aldri erum við að reyna að leysa úr einhverju og það er hressandi að sjá að það er bara allt í lagi.


þýð. Bergþór Pálsson