Hlín spjallar um Stjórnarskrána eftir Karólínu Eiríksdóttur:
Árið 2000 tók ég þátt í frumflutningi á rússneskri óperu á tónlistartvíæringnum í München. Óperan var pöntuð hjá rússnesku tónskáldi fyrir þetta tilefni og bar nafnið “Þegar tíminn flæðir yfir bakka sína”. Ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að leikstjórinn, sem einnig sá um sviðsmyndina, lýsti því yfir í upphafi æfinga, að það sem hann tengdi við nútímatónlist væri grafalvarlegt fólk í svörtum fötum, standandi fyrir aftan stór svört nótnapúlt. Það stóð semsagt ekki til að taka þessa tónlist svona alvarlega í okkar uppfærslu. En nótnapúltin fengu sinn heiðurssess í sviðsmyndinni og var kollsteypt á áhrifamikinn hátt þegar sviðsmyndin sporðreistist við mikinn fögnuð áheyrenda.
Eitt gott kvöld á liðnum þorra fengum við að fylgjast með merkum listviðburði í ríkissjónvarpinu þar sem ný tónlist og flytjendur hennar voru á áhrifamikinn hátt tekin úr því samhengi sem við eigum að venjast. Þessi atburður var markverður fyrir margra hluta sakir. Hér var verið að flytja Íslenska tónsmíð, samda þessari öld, í fullri lengd. Segja má að tilefnið hafi verið ærið og að fyrirbærið sem var innihald þessa gjörnings, stjórnarskráin okkar, hafi hlotið nýtt líf og nýja þýðingu. Það að verkið er flutt frammi fyrir stjórnlagaþingi sem byrjar á því að koma ekki saman, virðist vera snúningur sem nútíminn setur á svið til að auka vægi verksins.
Stjórnandinn, Eyþór Ingi Jónsson skilaði hlutverki sínu á athyglisverðan hátt. Ekki hans litríki persónuleiki heldur tónlistin var í fyrsta sæti. Það sem birtist var afrakstur þess sem þegar var búið að vinna af vandvirkni, ekki það sem hann þarf nauðsynlega að gera til þess að flutningurinn heppnist. Hann virðist ekki hafa sterka þörf fyrir að vera herra stórkostlegur og herra ómissandi. Listin í fyrsta sæti. Að sama skapi blómstraði kammerkórinn Hymnodia. Ábyrgð og léttleiki, einbeiting og öryggi einkenndu allan flutninginn. Einsöngararnir fengu stór hlutverk, að hluta mjög “parlando” en einni mjög söngvæna kafla. Í flutningi þeirra Ingibjargar Guðjónsdóttur og Bergþórs Pálssonar birtist bæði innileiki og kímni og varð texti stjórnarskrárinnar mjög lifandi og nálægur á stundum, en svo aftur fornfálegur og fjarlægur.
Gott listaverk getur komið aftan að okkur og hitt vitundina þar sem hinu vitræna sleppir. Kvikmyndataka og val myndefnis sagði meira en mörg orð. Mér finnst erfitt að koma orðum að því hvaða áhrif það hafði að sjá útvarp allra landsmanna og fólkið sem hrærist þar inni, í lengri eða skemmri tíma, sett í þetta samhengi. Karólína Eiríksdóttir er búin að lyfta stjórnarskránni upp af pappírnum og tónlistarmennirnir og meðferð listamannanna Libiu Castro og Ólafus Ólafssonar á viðfangsefninu, fer með okkur á flug.
Skírskotun til þess sem við erum að upplifa á landinu okkar á þessari stundu birtist við hvert fótmál. Þegar kontrabassaleikari, píanisti og flettari syngja fyrir okkur að öllum sé heimilt að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa, horfir maður á fulltrúa stéttar sem munu, ef svo fer fram sem horfir, ekki geta stundað þá atvinnu sem þeir kjósa. Enda kom svarið um hæl frá einsöngvurum með ygglibrún, um að hægur leikur sé að takmarka þann rétt. Tónsmíð Karólínu Eiríksdóttur heldur utan um textann og flytur okkur hann á fjölbreyttan hátt. Söngvararnir og kórinn þjónuðu einnig hinu talaða eða sungna orði, sumt hljómaði fornt, annað forvitnilegt og það sem e.t.v. má líta á sem sjálfsagðan hlut varð allt í einu mjög merkilegt og fróðlegt. Myndavélarnar reikuðu um svæðið eins og augu forvitins áhorfanda.
Óhætt er að segja að flutningurinn hafi fært þetta fyrirbæri, stjórnarskrána, nær okkur sem fengum að njóta þessa kvölds.
Við skrif þessa pistils upplifði ég ákveðið skriftastol, einfaldlega vegna þess að ég var að upplifa svo sterkt. Ótal spurningar vöknuðu, m.a. sú hvort hér sé komið nýtt listform. Má ég biðja um sungin frumvörp? Skanderaðar þingsályktunartillögur? Rappaðan ársreikning Fís?
Hlín Pétursdóttir