Hallveig Rúnarsdóttir (sópran), Jóhanna Ósk Valsdóttir (alt), Einar Clausen (tenór) og Benedikt Ingólfsson (bassi) verða einsöngvarar á tónleikum Kórs Áskirkju, þriðjudaginn 30. mars kl. 20, en þar verður Stabat Mater eftir Antonín Dvořák flutt í upprunalegri útgáfu frá 1876 fyrir kór, einsöngvara og píanó. Tónleikarnir eru um klukkutími að lengd.
Píanóleikari er Guðríður St. Sigurðardóttir (píanó), og stjórnandi Magnús Ragnarsson.
Miðar fást virka daga kl. 10-15 í Áskirkju. Verð 2500 kr.
Textinn, sem kveðinn var af munkinum Jacobone da Tode, fjallar um móður Guðs er hún sá son sinn hanga á krossinum. Þetta var fyrsta stóra trúarlega tónsmíðs Dvořáks en hann hóf smíði verksins skömmu eftir fráfall dóttur sinnar.
Lengi vel var talið að þetta væru bara drög að hljómsveitarútgáfunni en allur frágangur á handritinu virðist benda til þess að Dvořák hafi hugsað þetta fyrir píanó. Verkið var hins vegar ekki flutt þar sem hann þurfti að sinna öðrum verkefnum með aukinni frægð. Ári síðar létust svo hin tvö börnin hans með mánaðar millibili. Hinn 36 ára barnlausi Dvořák bætti við þremur köflum og útsetti verkið fyrir hljómsveit og er það sú útgáfa sem oftast hefur verið flutt. Miroslav Srnka vann þá útgáfu sem flutt verður í Áskirkju upp úr handriti tónskáldsins.