Sigríður Aðalsteinsdóttir í Hafnarborg fimmt. 7. apríl kl. 12

Sigríður Aðalsteinsdóttir syngur á hádegistónleikum Hafnarborgar fimmtudaginn 7. apríl kl. 12. Húsið er opnað kl. 11.30 og tónleikarnir standa í um hálfa klukkustund. Antonía Hevesí leikur með á píanó.
Á dagskrá tónleikana verða aríur frá barokk- til rómantíska tímabilsins, m.a. eftir Donizetti, Rossini og Verdi. Sigríður Aðalsteinsdóttir hóf söngferil sinn í Þjóðaróperunni í Vínarborg árið 1997 og hefur haldið fjölda ljóðatónleika og komið fram sem einsöngvari víða með kórum og hljómsveitum. m.a. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sigríður kennir einsöng við Söngskóla Sigurðar Demetz í Reykjavík

 

Sigríður Aðalsteinsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1995. Aðalkennarar hennar þar voru Elísabet F. Eiríksdóttir og Þuríður Pálsdóttir. Haustið 1995 hóf hún nám við óperudeild Tónlistarskólans í Vínarborg og ári síðar við óperudeild Tónlistarháskólans í Vínarborg sem hún lauk árið 2000 með hæstu einkunn. Frá 1998-2001 stundaði hún nám í  ljóða- og óratoríudeild sama skóla og naut þar leiðsagnar prófessors Charles Spencer.