Suðrænir tónar og kabarettstemning verða allsráðandi í Salnum þriðjudagskvöldið 17. apríl kl. 20, en þá halda Sesselja Kristjánsdóttir, messósópran og Guðríður St. Sigurðardóttir píanóleikari tónleika í TÍBRÁ, tónleikaröð Kópavogs í Salnum.
Á efnisskrá tónleikanna eru spænsk og frönsk sönglög eftir de Falla og Bizet auk kabarettsöngva eftir Kurt Weill, Bolcom, Hollander og Spoliansky. Suðrænir tónar einkenna fyrrihluta tónleikanna í sönglögum sem eru í senn tilfinningaþrungin, létt og melankólísk. Seinni hluti efnisskrárinnar inniheldur söngva þar sem skemmtanagildi skoplegra texta og tónlistar ráða ríkjum, þó vissulega sé oft stutt í kaldhæðni og svartan húmor.
Sesselja hélt debut tónleika sína í TÍBRÁ í Salnum í apríl 2002 en síðan þá hafa fjölmargir kynnst henni í hlutverkum í Íslensku óperunni og annarsstaðar. Þær Sesselja og Guðríður hafa unnið saman um nokkurt skeið en koma nú í fyrsta skipti saman fram á TÍBRÁR tónleikum.
Miðaverð 2000/1600 kr. Sími í miðasölu er 5 700 400. Kaupa miða
Um fyrri TÍBRÁR tónleika Sesselju, sem fluttir voru 24. apríl 2002 ritaði Bergþóra Jónsdóttir í mjög
lofsamlegri umfjöllun í Morgunblaðinu:
„Söngur Sesselju á tónleikunum í Salnum gefur sannarlega fyrirheit um að hér sé á ferðinni efni í afbragðsgóða söngkonu. Það sem fyrst vekur eftirtekt er einstaklega falleg rödd söngkonunnar; flauelsmjúkur raddblær og mikið músíkalitet”.
Bergþóra lýkur umfjöllun sinni um tónleikana á þessum orðum:
„Sesselja söng aukalag, án undirleiks… Flutningur Sesselju á þessu yndislega lagi var hreint út sagt stórkostlegur og gleymist sjálfsagt seint. Með slíka hæfileika á þessi unga söngkona fullt erindi á íslenskt óperusvið, en ekki síður á tónleikasvið, þar sem hún gæti vafalítið haslað sér völl sem afbragðs ljóðasöngkona."
Sannspá.