Söngdeild Tónlistarskóla Kópavogs mun undir leikstjórn Önnu Júlíönu Sveinsdóttur, söngkennara skólans og píanóleik Krystynu Cortes flytja óperuna Orfeifur og Evrídís í íslenskri þýðingu Þorsteins Valdimarssonar í Salnum, miðvikudaginn 3. júní og fimmtudaginn 4. júní kl. 20.00. Aðgangseyrir er 500 kr. en ókeypis fyrir nemendur.
Flytjendur:
Orfeifur: Elín Arna Aspelund
Evrídís: Ragnheiður Sara Grímsdóttir
Amor: Elva Lind Þorsteinsdóttir
Undirheimanornir: Anna Guðrún Jónsdóttir og Tinna Jóhanna Magnusson
Kvartett smala í mannheimum og anda í Ódáinsheimum: Alexander Jarl Ríkharðssson, Anna Margrét Gunnarsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Hilmir Freyr Jónsson.
Þrír aðrir andar í Ódáinsheimum: Elín Dröfn Jónsdóttir, Kristín Guðlaugsdóttir, Sunna Halldórsdóttir
Leikstjórn: Anna Júlíana Sveinsdóttir, söngkennari skólans
Píanóleikur og tónlistarstjórn: Krystyna Cortes, undirleikari skólans
Hörpuleikur: Hanna Björt Kristjánsdóttir
Christoph Willibald Gluck (1714-1787) var borinn og barnfæddur í Bæheimi. Með tímamótaverkinu Orfeifur og Evrídís, sem frumflutt var í Vín árið 1762, vildi Gluck endurreisa hið staðnaða, ofskreytta og innihaldslausa óperuform þess tíma og hverfa aftur til upprunalegs einfaldleika. Í uppfærslu Tónlistarskóla Kópavogs útbjó leikstjórinn nýjan búning í aðeins styttra formi og í stað kóra syngja flytjendur einsöngskvartetta.
Söguþráður óperunnar gerist í fjórum heimum:
Í mannheimum er Orfeifur ásamt smölum og hjarðmeyjum í sæludal í Grikklandi en ekki er allt sem sýnist því að ástmær Orfeifs, skógardísin Evrídís, hefur verið bitin til bana af eiturnöðru. Orfeifur er óhuggandi. Ástarguðinn Amor birtist með skilaboð frá Seifi um að Orfeifur eigi að halda til undirheima og muni endurheimta Evrídísi ef hann gangi á undan henni og líti ekki um öxl fyrr en þau eru komin aftur til mannheima. Orfeifur fyllist eldmóði og ákveður aðhalda til undirheima.
Í undirheimum kveða við þrumur og eldingar og tvær nornir sjá Orfeif nálgast. Í fyrstu reyna þær að skelfa hann en Orfeifur lætur ekki bugast og syngur þrjár aríur við undurfagran hörpuleik sem sefar nornirnar og þær ákveða að veita honum inngöngu.
Næst hverfur söguþráðurinn til Ódáinsheima. Fjórir andar leiða Evrídísi inn í heim þar sem ríkir eilíf sæla og ró. Þau hverfa svo af sviði eftir aríu Evrídísar og inn kemur Orfeifur með lýruna sína. Hann dásamar hin björtu loft, læki, lindir og fuglasöng. Andarnir koma aftur inn á sviðið og Orfeifur sem hefur verið svo hugaður, hrekkur við og fellur í ómegin. Litlu andarnir reyna að lífga hann við og færa honum þá gleðifregn að Evrídís sé á lífi. Orfeifi er boðið upp í dans og gleðin nær hámarki þegar andarnir leiða Evrídísi til hans. Orfeifur leiðir brúði sína burt og heldur af stað í þrautargöngu gegnum undirheima til mannheima.
Hlé
Undirheimar. Orfeifur og Evrídís eru að hefja leið sína í gegnum völundarhús undirheima á leið til mannheima. Evrídís trúir vart að hún sé á lífi og vill faðma ástmann sinn. En Orfeifur forðast að líta á hana og biður hana að fylgja sér. Evrídís verður sár þegar Orfeifur endurgjeldur henni ekki ástaratlot sín. Hryggð hennar verður meiri og að lokum afber Orfeifur þetta ekki lengur, lítur á hana og Evrídís hnígur niður og deyr. Harmi sleginn syngur Orfeifur aríuna frægu, Ég hef glatað Evrídísi. Hann ákveður að taka eigið líf og fylgja henni.
Amor birtist og spyr hvers hann dirfist. Eldraunum hans sé ljúki nú því ást sem hans beri sitt eilífa líf í sér. Evrídís vaknar aftur til lífs og þau þrjú syngja undurfagran fagnaðarsöng.
Mannheimar. Orfeifur og Evrídís eru komin til mannheima og smalar og hjarðmeyjar lofsyngja Amor og sigur ástarinnar.