Óp-hópurinn heldur tónleika í Salnum miðvikudagskvöldið 9. febrúar kl. 18. Fluttar verða aríur, dúettar og tríó úr heimi óperunnar. Nokkrar óperur Mozarts urðu fyrir valinu auk Carmenar eftir Bizet, La Favorita eftir Donizetti og Norma eftir Bellini svo eitthvað sé nefnt.
Allir meðlimir hópsins koma fram en hópinn skipa þau Hörn, Bragi, Rósalind, Erla Björg, Jóhanna, Magnús, Bylgja Dís og Antonía (talið frá vinstri til hægri á myndinni).
Tónleikarnir taka um það bil klukkustund í flutningi og mun Antonía kynna atriðin inn á milli til að fræða áheyrendur um það sem fram fer.
Miðaverði er stillt í hóf og kostar einungis 1500 krónur inn.