Þriðjudaginn 15. sept. kl. 12.15 heldur Óp-Hópurinn tónleika í Íslensku óperunni. Óp-Hópurinn var stofnaður í ágúst sl.
Hópinn skipa þau Bylgja Dís Gunnarsdóttir, sópran, Erla Björg Káradóttir, sópran, Hörn Hrafnsdóttir, mezzó-sópran, Jóhanna Héðinsdóttir, mezzó-sópran, Jón Svavar Jósefsson, baritón, Rósalind Gísladóttir, mezzó-sópran, Rúnar Þór Guðmundsson, tenór, og Valdimar Hilmarsson, baritón, en Antonía Hevesí er píanóleikari hópsins. Söngvararnir eiga það sameiginlegt að vera komnir á það stig í söngferlinum að meginmáli skiptir að ná að kynna sig og fá æfingu og tækifæri til að koma fram opinberlega.
Tilgangurinn með starfsemi ÓP-hópsins er m.a. að auka samvinnu á milli söngvaranna, gera þeim kleift að flytja samsöngsatriði úr óperum, koma reglulega fram á tónleikum, auðvelda þeim íslensku aðilum sem kaupa þjónustu söngvara að kynnast þeim betur undir eðlilegum aðstæðum – þ.e. heyra í þeim á tónleikum, þjálfa söngvarana fyrir keppni erlendis og reyna að fá umboðsaðila og útsendara erlendra óperuhúsa til að koma til Íslands og kynnast því sem íslenskir söngvarar hafa uppá að bjóða.
Íslenska óperan hefur nú ákveðið að taka upp samstarf við hópinn og verða tónleikar hópsins mánaðarlega í Óperunni í vetur. Efnisskráin 15. sept. samanstendur af aríum en á næstu tónleikum verða teknir fyrir dúettar, tríó og önnur samsöngsatriði úr óperum. Miðaverð 1000 kr.