Nathalía og Gissur Páll í Gerðubergi sunn. 18. okt. kl. 14-16

  LJÓÐ HÖLLU EYJÓLFSDÓTTUR VIÐ LÖG SIGVALDA KALDALÓNS.

Sunnudaginn 18. október verður flutt dagskrá í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi undir yfirskriftinni: Óður til Höllu Eyjólfsdóttur, skáldkonu (1866-1937). Tilefnið er opnun sýningarinnar Svanurinn minn syngur. Líf og ljóð skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttur . Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, sagnfræðingur, á heiðurinn af sýningunni sem sett var upp á Ísafirði árið 2008 um leið og gefin var út bók um sama efni.

Halla Eyjólfsdóttir var húsfreyja á stórbýlinu Laugabóli við Ísafjarðardjúp frá lokum 19. aldar og fram á fyrri hluta 20. aldar. Hún var ekki einungis fjórtán barna móðir heldur lenti öll bústjórn að miklu leyti á henni þar sem eiginmaður hennar, Þórður Jónsson, var formaður á eigin skipi og því lítið heima við. Guðfinna segir í bók sinni um Höllu: „Þótt hlutskipti Höllu yrði að stjórna stóru búi mestan hluta ævinnar, þá var skáldskapurinn hennar hjartans mál. Hún gat hins vegar aðeins sinnt honum í hjáverkum og í ljóðum hennar urðu fuglar himinsins og himinhnettirnir táknmyndir hins frjálsa anda með lausn frá amstri hversdagslífsins.“

Dagskráin leitast við að gefa innsýn í þau yrkisefni sem voru skáldkonunni hugleiknust – ástina, náttúruna og sorgina. Listrænt samstarf Höllu við tónskáldið Sigvalda Kaldalóns fær sérstakan sess þar sem söngvararnir Nathalía Druzin Halldórsdóttir, mezzósópran og Gissur Páll Gissurarson, tenór, flytja ásamt Nínu Margréti Grímsdóttur, píanóleikara, úrval þeirra sönglaga Sigvalda sem samin voru við ljóð Höllu s.s. Svanurinn minn syngur, Maríubæn og Ég lít í anda liðna tíð.

Á dagskránni mun enn fremur tónskáldið Elín Gunnlaugsdóttir flytja erindi um samspil tóna og ljóða, lesið verður úr ljóðum Höllu; sellóleikarinn Margrét Árnadóttir flytur, ásamt Nínu Margréti, Tilbrigði um íslenskt þjóðlag frá árinu 1964 eftir fyrsta kventónskáld okkar, Jórunni Viðar og stúlknakórinn Graduale Nobili flytur kórlög eftir íslensk kventónskáld undir stjórn Jóns Stefánssonar, þ.m.t. Barnagælur Jórunnar. Óður til Höllu Eyjólfsdóttur, skáldkonu er því helgaður listsköpun hennar, en er jafnframt óður til listsköpunar íslenskra kvenna fyrr á öldum og fram á okkar tíma.“

Ókeypis aðgangur! Gestum er vinsamlegast bent á að mæta tímanlega!