Námskeið um rödd og raddveilur – Prófessor Kittie Verdolini

Spennandi námskeið um rödd og raddveilur í ágúst

Námsbraut í talmeinafræði við HÍ hefur fengið talmeinafræðing og sérfræðing í raddveilum frá Bandaríkjunum til að kenna hluta af námskeiðinu Rödd og raddveilur í haust. Kittie Verdolini (fullu nafni Katherine Verdolini Abbott) er prófessor við háskólann í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Hún kenndi sama námskeið fyrir tveimur árum og þótti einstaklega góður og líflegur kennari með gríðarmikla þekkingu á raddveilum, m.a. söngvara. Í ár gefst söngvurum, söngnemum/leiklistarnemum og öðrum sem þurfa að reiða sig mikið á röddina í starfi og leik hið einstaka tækifæri að sitja námskeiðið með talmeinafræðinemunum. Efni námskeiðsins er ætlað talmeinafræðinemum en stór hluti þess nýtist öðrum þeim sem áhuga hafa á röddinni og raddveilum. Í námskeiðslýsingu í kennsluskrá stendur að farið verði í lífeðlisfræði raddar, orsakir raddveilna og sjúkdómafræði þeim tengdum. Fjallað verður um greiningu og meðferð á raddveilum og hljómvanda hjá börnum og fullorðnum. Nemendur kynnast ýmsum hugtökum og rannsóknum raddvísinda. Fjallað verður um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr hættu á raddveilum. Að lokum mun Kittie hitta fyrir skjólstæðinga með raddveilur í kennslutund með það fyrir augum að kenna nemendum að meta eðli raddveilna og fá tilsögn í hvernig hægt er að draga úr einkennum þeirra.

Námskeiðið í heild stendur í fimm daga dagana 26. – 30. ágúst, samtals í 36 kennslustundir (eða rúmar 28 klukkustundir). Þrjá daga verður kennt allan daginn (samtals 6 klukkustundir með klukkutíma matarhléi og stöku kaffihléi) og tvo daga verður kennt hálfan daginn.

Þátttökugjaldi er haldið í algjöru lágmarki. Þeir sem sitja allt námskeiðið greiða kr. 20.000 en námsfólk greiðir kr. 15.000. Þeir sem vilja sitja hálft námskeiðið og velja einstaka daga í samræmi við námskeiðslýsingu greiða kr. 15.000, námsmenn kr. 10.000.

Nánari námskeiðslýing er væntanleg.

——————————————————————————————-

Í hnotskurn:

Námskeið: Rödd og raddveilur
Fyrirlesari: Kittie Verdolini Abbot prófessor í talmeinafræði
Tími: 26. – 30. ágúst 2013
Staður: Tilkynnt síðar

Áhugasamir vinsamlega hafið samband við Dagrúnu Hjartardóttur (dagrunhj@gmail.com) eða Þóru Másdóttur (thoramas@hti.is eða tm@hi.is). Sætafjöldi ræður hvar námskeiðið fer fram en búast má við að fjölda þátttakanda verði að takmarka að einhverju leyti.