Í lokaverkefni sínu í BA-námi í þjóðfræði í HÍ fjallar Ólöf Breiðfjörð (eiginkona Gunnars Guðbjörnssonar) um hjálækningar nokkurra íslenskra óperusöngvara, en ritgerðin byggir á viðtölum við sjö söngvara. Einnig styðst hún við ýmsar rannsóknir sem snúa að hjálækningum og heilsufarsvandamálum óperusöngvara. Ritgerðin er mjög athyglisverð, læsileg og merk úttekt á þessu mikilvæga efni fyrir söngkennara og söngvara.
Í útdrætti segir ennfremur:
„Í þessari ritgerð verður gerð grein fyrir hjálækningum nokkurra íslenskra óperusöngvara en ritgerðin byggir á viðtölum við sjö söngvara. Einnig hef ég stuðst við ýmsar rannsóknir sem snúa að hjálækningum og heilsufarsvandamálum óperusöngvara.
Til að stuðla að raddlegu heilbrigði leitast viðmælendur mínir við að halda líkamlegri og andlegri heilsu í jafnvægi. Líkamlegir kvillar sem söngvarar reyna að forðast eða halda niðri eru til dæmis kvef, bakflæði, þurr slímhúð og þreyta. Söngvararnir nota meðal annars jurtir, te, vatn og saltvatnsskolun en forðast notkun stera og fúkkalyfja vegna aukaverkana sem hafa slæm áhrif á heilsu og rödd. Þá er andlegt jafnvægi nauðsynlegt söngvurum enda veikist ónæmiskerfi líkamans ef streita og ótti þjakar þá. Viðmælendur mínir íhuga, biðja, gera verndandi æfingar og nota jákvæða hugsun til að halda andlegu jafnvægi og geta á þann hátt verndað rödd sína.
Hjálækningar óperusöngvara eru starfsgreinahefð þeirra. Það eru einnig reynslusagnir og ráðleggingar um hjálækningar sem söngvarar gefa hver öðrum. Um leið og mikilvægum upplýsingum er miðlað styrkist hópurinn enda sameiginlegt markmið söngvara að stuðla að góðri raddheilsu.“
Ritgerðina má lesa hér skemman.is en einnig er hún birt í heild sinni hér að neðan undir Lesa meira.
Ef fólk kýs að kaupa útprentað eintak, er hægt að hafa samband við Ólöfu á netfangið ohb1@hi.is
Efnisyfirlit
Inngangur Rannsóknin og viðmælendur
Samræða
Líkamleg heilsa og röddin
Kvef
Afneitun og hugarfar
Slímhúð
Svefn og hvíld
Efni gegn kvefi
Fæðuval á sýningardegi Fúkkalyf
Undarlegu ráðin
Sterar
Bakflæði
Samantekt
Andleg heilsa og röddin
Æfingar til verndar
Hugleiðsla
Hreyfing og rólegheit
Bænir og þakklæti
Ótti
Samantekt
Starfsgreinahefðir óperusöngvara
Hefðir
Hópurinn skilgreindur
Samantekt
Lokaorð
Heimildaskrá
Þakkir
Inngangur
Óperusöngvarar eru í hugum margra hópur af fólki sem lifir hátt, ferðast mikið og gistir á hótelum um heim allan. Þegar daglegt líf söngvara er skoðað nánar kemur hins vegar annað í ljós. Áhyggjur af kvefi, þurri slímhúð og bakflæði tengjast röddinni en til þess að söngvari geti verið öruggur með sig þarf röddin að vera í góðu lagi. Því er leit að andlegu og líkamlegu jafnvægi það sem litar líf söngvarans dag frá degi.
Ástæða þess að hjálækningar óperusöngvara urðu fyrir valinu sem BA-verkefni mitt er að ég gerði mér grein fyrir að um mjög lifandi þjóðfræðaefni er að ræða. Söngvarar gefa hver öðrum ráð og spjalla mikið um raddheilsu sem og andlega og líkamlega heilsu, en þetta þekki ég í gegnum manninn minn, Gunnar Guðbjörnsson tenórsöngvara. Gunnari hef ég fylgt í rúm tuttugu ár og því þekki ég hjálækningar söngvara vel. Ég var viss um að með því að taka viðtöl við aðra söngvara mundi ég fræðast enn meira um aðferðir sem söngvarar beita til að halda jafnvægi á milli andlegrar og líkamlegrar heilsu sem síðan hefur áhrif á raddheilsuna. Með Gunnari hef ég gengið í gegnum tímabil velgengni en einnig erfiðari tíma. Ég veit því að þegar erfiðleikar steðja að hjá söngvara er sú hætta alltaf fyrir hendi að röddin gjaldi fyrir þá. Erfiðleikarnir geta tengst samstarfsörðugleikum við stjórnanda eða aðra samstarfsmenn og þá er ekki ólíklegt að reiði og óöryggi valdi því að mótstöðuafl gegn kvefi veikist, slímhúðin komist í ójafnvægi og bakflæði verði verra en ella. Erfiðleikarnir geta einnig stafað af veikindum því líkamlegir kvillar hafa sömu áhrif á slímhúð, bakflæði og almennt mótstöðuafl. Líkamlegir kvillar koma niður á röddinni og það veldur því að andlegt jafnvægi raskast. Þá getur veður haft neikvæð áhrif á röddina, svo sem kuldi og þurrkur eða mikill raki og hiti. Þá hefur þreyta einnig slæm áhrif á röddina en þreytan getur stafað af of mikilli vinnu eða af ferðalögum. Röddin er hins vegar frekar í jafnvægi ef vel gengur og ólíklegt að bakflæðikast eða kvef herji á söngvara sem gengur allt í haginn.
Þó svo að Gunnar hafi alltaf notað alls kyns hjálækningar til að halda frá sér kvefi, þá fór hann ekki að leita í andleg málefni fyrr en hann stóð frammi fyrir miklum breytingum á rödd sinni. Frá því hann var rúmlega tvítugur að aldri hafði hann sungið lýrísk tenórhlutverk svo sem Tamino í Töfraflautu Mozarts en þegar hann var orðinn fertugur hentuðu þessi hlutverk ekki lengur rödd hans. Hann þurfti því að taka ákvörðun um hvort hann vildi gerast söngkennari eða læra að syngja með tækni sem hentar þyngri hlutverkum, til dæmis hlutverkum í óperum Wagners. Gunnar valdi seinni kostinn og hóf að sækja söngtíma hjá Wagner-tenór í Berlín en áttaði sig fljótlega á því að til að ná að yfirstíga allar þær hindranir sem ný byrjun hafði í för með sér þyrfti hann að hafa ofurtrú á að honum tækist ætlunarverk sitt. Efasemdir og svartsýni eru tilfinningar sem söngvari getur ekki tekið með sér á svið og kannski var Gunnar að upplifa þessar tilfinningar í fyrsta sinn þegar hann gekk í gegnum breytingarnar. Bókin The Secret eftir Rhondu Byrne fór sigurför um heiminn um þetta leyti. Hún lenti í höndum Gunnars og var í raun það sem kom honum á rétt spor. Jákvæðni, þakklæti og trú á að manni takist ætlunarverk sitt er manneskju í sporum Gunnars nauðsynleg. Með því að sökkva sér í lestur á bókinni, samhliða endalausum söngæfingum, breyttist viðhorf Gunnars til lífsins. Allt varð mögulegt, en með því að senda óskir og þakklæti út í alheiminn fær maður, samkvæmt The Secret, það sem maður óskar sér til baka.[1] Í gegnum þetta breytingatímabil á rödd Gunnars höfum við komist að því hve andleg líðan hefur mikil áhrif á líkamlega líðan og hve samtengd andleg líðan og raddheilsa eru. Þannig tengist röddin ávallt jafnvægi á andlegri sem og líkamlegri heilsu og hins vegar jafnvægi á andlegri heilsu röddinni og um leið líkamlegri heilsu.
Spurningarnar sem ég reyni með rannsókn minni að svara eru: Tengja óperusöngvarar raddheilsu sína við líkamlega og andlega heilsu? Nota þeir hjálækningar til að ná jafnvægi á heilsunni og röddinni? Skiptast söngvarar á upplýsingum og reynslusögnum er varða hjálækningar og er því um lifandi þjóðfræðaefni að ræða?
Rannsóknin og viðmælendur
Til að afla mér nægra heimilda til að vinna ritgerð um hjálækningar óperusöngvara bað ég nokkra íslenska söngvara að veita mér viðtal. Söngvarana valdi ég aðallega út frá því sem ég vissi um viðkomandi en þessir sjö söngvarar eru mjög ólíkar manneskjur og hafa ólík sérsvið sem söngvarar, auk þess sem þeir hafa lært og starfað á ólíkum stöðum. Þannig vissi ég að þó ég héldi spurningum mínum innan ákveðins ramma í viðtölunum mundi hver söngvari hafa sínar áherslur sem hann fengi að fjalla um að vild. Ég vissi líka að langflestir viðmælenda minna nota óhefðbundnar aðferðir við að halda jafnvægi og því gat ég búist við innihaldsríkum viðtölum sem mundu gagnast mér vel til að varpa ljósi á þær aðferðir sem hópurinn notar. Söngvarana þekki ég alla í gegnum Gunnar og var því auðsótt að fá þau til að veita mér viðtal. Þau gáfu mér öll leyfi til að nafngreina sig þó það sé í sjálfu sér ekki nauðsynlegt til að sýna fram á að hjálækningar eða óhefðbundnar lækningaaðferðir eru mikið notaðar af óperusöngvurum og söngvarar skiptast á upplýsingum um hinar ýmsu aðferðir og efni. Hjálækningar eru því mjög virkt þjóðfræðaefni meðal söngvara. Ég vildi hins vegar fara þá leið að nafngreina viðmælendur mína vegna þess að ég tel að um leið sé ég að skrá niður heimildir um nokkra ástsælustu söngvara landsins og þeirra frásögn geti ef til vill hjálpað söngvurum framtíðarinnar.
Fyrsti viðmælandi minn í haust var Sverrir Guðjónsson. Á fallegum haustdegi fór ég að hitta Sverri á heimili hans í Grjótaþorpinu. Rólegt og listrænt andrúmsloftið lét mér líða vel þrátt fyrir að ég væri eilítið stressuð fyrir þetta fyrsta viðtal. Sverrir er ekki aðeins söngvari heldur einnig Alexander-tæknikennari og var einmitt að ljúka við að kenna þegar mig bar að garði. Sverrir hóf söngferil sinn barn að aldri og gaf út vinsælar hljómplötur og kom mikið fram á tónleikum og skemmtunum. Sem fullorðinn söngvari hóf Sverrir feril sinn sem barítón og söng í söngleikjum, svo sem Vesalingunum eftir Andrew Lloyd-Webber, en í söngleiknum Chicago komst hann að því að líklega gæti hann notað efra raddsvið sitt meira. Það var þá sem hann fór að læra að syngja sem kontratenór og eftir nám á Íslandi fór hann til London og nam þar í þrjú ár. Meðfram söngnámi lærði Sverrir Alexander-tækni sem kennir ákveðna líkamsbeitingu sem hjálpar meðal annars leikurum, söngvurum og tónlistarmönnum. Þar sem ég þekki Sverri frá því ég var í tónlistarnámi í London vissi ég að hann yrði fullkominn viðmælandi fyrir rannsókn mína á hjálækningum söngvara. Ástæðan er sú að Sverrir gekk tvívegis í gegnum breytingar á rödd sinni og tækni, frá því að vera drengjasópran og yfir í barítón og frá barítón yfir í kontratenór en auk þess fannst mér tenging hans við Alexander-tækni mjög áhugaverð. Í viðtalinu kom hins vegar í ljós að Alexander-tæknin er aðeins brot af því sem Sverrir stundar til að halda jafnvægi því hann leggur stund á Zen-Búddisma og hugleiðslan er því partur af hans daglega lífi. Þá hefur Sverrir um langt skeið haft mikinn áhuga á heilsufæði og framleiðir sitt eigið te fyrir utan að kenna Alexander-tækni og syngja.
Annar viðmælandi minn var Hulda Björk Garðarsdóttir sópransöngkona en hana þekki ég frá því hún söng í Íslensku Óperunni með Gunnari. Hulda Björk gaf Gunnari góð ráð varðandi meðhöndlun á bakflæði og því vissi ég að hún blandar saman hefðbundinni lyfjagjöf vegna bakflæðis og óhefðbundnum aðferðum. Hulda kom heim til mín í viðtal nokkrum dögum áður en hún hélt til Svíþjóðar að æfa og syngja hlutverk Anne Trulove í óperu Stravinskys, Rakes Progress, sem hún söng einmitt með Gunnari í Íslensku Óperunni. Hulda gat sagt mér frá reynslu sem kenndi henni hve mikilvægt er fyrir hana að halda sér í formi, hreyfa sig og borða rétt. Þannig næst andlegt jafnvægi en reynslan hefur kennt Huldu að ef það vantar missir söngvarinn sjálfstraustið sem hann þarf að hafa til að geta tekist á við starf sitt.
Sólrún Bragadóttir sópransöngkona var svo elskuleg að veita mér viðtal á meðan á nokkurra daga dvöl hennar hér á landi stóð en hún býr í Danmörku. Ég vissi að Sólrún væri mikið inni í andlegum málefnum og það var útgangspunkturinn í viðtalinu við hana. Hún gerir andlega hreinsandi og styrkjandi æfingar á hverjum degi og vegna þess hve næm Sólrún er þarf hún að vera á varðbergi gagnvart samstarfsmönnum sem eru ef til vill ekki í góðu andlegu jafnvægi. Sólrún býr að áratugalangri reynslu sem óperusöngkona, hefur sungið í mörgum af stærri óperuhúsum Þýskalands en hún lærði hins vegar í Bandaríkjunum. Enda þótt Sólrún noti hjálækningar að staðaldri þekkir hún einnig hvernig aðstæður valda því stundum að fyrirbyggjandi aðgerðir duga ekki og fúkkalyf og sterar verða að bjarga málunum.
Næsta viðtal fór fram í Freiburg í Suður-Þýskalandi. Í byrjun nóvember var ég stödd þar til að hlusta á lokaæfingar og frumsýningu á Oberon eftir Weber þar sem Gunnar söng viðamikið hlutverk. Viðtalið við Gunnar tók ég í rólegheitum fyrir lokaæfingu óperunnar og vildi ekki betur til en svo að við urðum nærri því of sein á æfinguna þar sem við sökktum okkur svo djúpt í viðtalið. Eins og segir í inngangi veit ég hve mikið það hefur kostað Gunnar að skipta um fag, hann hefur þurft að læra að syngja með nýrri tækni og leitað meira inn á við en hann gerði áður. Þá hafði Gunnar engin bakflæðisvandamál fyrr en þessi breyting varð á röddinni en hann tengir bakflæðið álagi og streitu og ef til vill annars konar söngtækni.
Ingveldi Ýr Jónsdóttur sópransöngkonu hitti ég daginn eftir heimkomu mína frá Þýskalandi. Ingveldur bjó í Vínarborg í mörg ár en ég kynntist henni í Lyon í Frakklandi þar sem hún ásamt Gunnari var á samningi hjá óperunni þar í borg. Í þá daga var Gunnar ekki farinn að kynna sér andleg málefni og gerði stundum góðlátlegt grín að Ingveldi fyrir að hengja upp miða með jákvæðum gullkornum á heimili sínu. Í dag þarf Ingveldur ekki lengur á miðunum að halda en Gunnar er hins vegar farinn að nota sams konar aðferð til að byggja sig upp andlega. Ingveldur er eins og svo margir söngvarar haldin bakflæði. Aðferðir hennar til að halda jafnvægi eru að miklu leyti fólgnar í bæninni.
Til að fá lýsingar á fleiri aðferðum en hefðbundinni lyfjagjöf við bakflæði talaði ég svo við Ágúst Ólafsson barítón. Hann er talinn sérfræðingur, af þeim sem þekkja til, í þeim málefnum enda sá eini sem ekki treystir á lyf gegn bakflæði heldur eingöngu breyttar matarvenjur. Ágúst dró ekkert undan í lýsingu á ástandi sínu áður en hann náði valdi á bakflæðinu. Hans frásögn styður þá tilgátu að óöryggi söngvara og ójafnvægi, jafnt andlegt sem líkamlegt, geti valdið því að söngvarinn treysti ekki lengur rödd sinni og verði þar með óstarfhæfur.
Aðeins einn af viðmælendum mínum notar lítið sem ekkert óhefðbundnar aðferðir. Það er bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson. Sú staðreynd að eini bassinn í viðmælendahóp mínum væri jafnframt sá eini sem ekki notaði ótal aðferðir til að halda jafnvægi beindi sjónum mínum að því að kannski væri áhugavert að skoða mun á aðferðum bassa og tenóra eða bassa og sóprana. Sú rannsókn verður hins vegar að bíða betri tíma.
Samræða
Þau rit sem ég hef lesið um hjálækningar til að dýpka skilning á rannsókn minni fjalla að mestu um sömu aðferðir og viðmælendur mínir sögðu mér frá. Það sem mér þótti áhugaverðast var að rannsóknirnar fjalla flestar um óhefðbundin lækningaráð sjúklinga. Mín rannsókn beinist hins vegar að óperusöngvurum sem samkvæmt venjulegri skilgreiningu eru ekki sjúklingar. Þeir kljást engu að síður við vandamál sem geta komið í veg fyrir að þeir geti stundað vinnu sína líkt og fólk sem þjáist af sjúkdómum. Söngvari sem ekki getur sungið er manneskja í ójafnvægi en röddin og andleg og líkamleg vellíðan eru tengd órjúfanlegum böndum í hugum óperusöngvara.
Bandaríski þjóðfræðingurinn Bonnie Blair O’Connor hefur skrifað bækur um rannsóknir á hjálækningum. Ég hef aðallega borið mína rannsókn, á hjálækningum óperusöngvara, saman við bók hennar Healing Traditions og svo Healing Logics, sem O’Connor skrifaði í samvinnu við David J. Hufford. Í fyrrnefndu bókinni fjallar O’Connor meðal annars um hjálækningar sem eyðnismitaðir nota en þeirra aðferðir eru að mörgu leyti líkar aðferðum óperusöngvara. Eyðnismitaðir eru líkt og óperusöngvarar að keppast við að halda jafnvægi á andlegri og líkamlegri líðan. Báðir hópar lifa í ótta við það sem þeir ekki ráða yfir, að fá sýkingu sem ekki tekst að vinna bug á í tæka tíð eða að ráða ekki við óttann við hið ókomna. Í síðarnefndu bókinni er hins vegar almennt fjallað um hjálækningar. Þá hef ég skoðað rannsókn sem Bente Gullveig Alver og Torunn Selberg gerðu á viðhorfi fólks til óhefðbundinna lækningaaðferða gegn sjúkdómum. Rannsókn þeirra var doktorsverkefni frá Háskólanum í Bergen árið 1990 og ber yfirskriftina Det er mer mellom himmel og jord.
Til glöggvunar á því hve ótti getur verið varasamt fyrirbæri fyrir óperusöngvara bendi ég á aðferð til að ná tökum á ótta, sem Don Greene íþróttasálfræðingur þróaði og Dylan Savage hefur skrifað um. Um tengsl milli streitu, andlegs ójafnvægis og veiks ónæmiskerfis hafa meðal annars bandarísku sálfræðingarnir Robert G. Ley og Richard J. Freeman fjallað. Tengsl sviðsótta og félagsfælni var svo rannsóknarefni sálfræðinganna Susanne Gorges, Georg W. Alpers og Paul Pauli. Þá hef ég kynnt mér nýlega rannsókn sænska sálfræðingsins Maria Sandgren en hún rannsakaði fjörutíu og níu sænska óperusöngvara sem allir hafa náð langt sem slíkir. Sandgren kannaði hvort ótta óperusöngvara við heilsubrest og raddvandamál mætti rekja til sviðsótta. Einnig hef ég kynnt mér efni doktorsritgerðar Sandgren frá 2005 sem ber yfirskriftina Becoming and being an Opera Singer: Health, Personality, and Skills.
Þá hef ég litið á ýmislegt sem fræðimenn hafa birt í tímaritum svo sem grein talmeinafræðingsins Peter R. LaPine um almenna raddheilsu. Um raddþreytu hafa meðal annars Nathan M. Wellham og Margaret A. Maclagan fjallað en þau eru sérfræðingar í vandamálum sem tengjast tjáskiptum (Communication Disorders). N. R. Williams hefur skrifað um starfsgreinar þar sem hætta er á raddvandamálum svo sem hjá kennurum og óperusöngvurum. Einnig bendi ég á niðurstöður rannsóknar, sem meltingarfæra-sérfræðingarnir Cammarota, Masala og fleiri gerðu á ítölskum kórsöngvurum, um bakflæði meðal söngvara. Til gamans hef ég svo lesið bókina How to Sing eftir ítalska tenórsöngvarann Enrico Caruso sem kom út árið 1913. Bókin er vísbending um hversu lengi hjálækningar hafa fylgt söngvurum en hún fjallar ekki eingöngu um söngtækni heldur einnig hvað beri að varast á sýningardegi, heppilega fæðu fyrir söngvara og aðferðir til að halda andlegu jafnvægi. Þessar bækur og rit styðja frásagnir viðmælenda minna og sýna fram á að hjálækningar óperusöngvara er alþjóðleg starfsgreinahefð með mikla útbreiðslu og langa sögu.
Í ritgerðinni varpa ég einnig ljósi á hvernig söngvarar skilgreina hópinn með skírskotun til hjálækninga starfsgreinarinnar enda segja söngvarar hverjir öðrum reynslusagnir og gefa góð ráð og þannig berst efnið á milli óperusöngvara. Þeir Robert McCarl og Timothy R. Tangherlini hafa meðal annarra fjallað um starfsgreinahefðir sem þessar. Þá má segja að þjóðfræðaefni óperusöngvara sé að hluta til það sem Robert Glenn Howard kallar e-lore en það er þjóðfræðaefni sem fer fram á netinu, svo sem Facebook.
Líkamleg heilsa og röddin
Kvef, þurrkur í slímhúð eða bakflæði kemur að öllu jöfnu ekki í veg fyrir að fólk geti stundað vinnu sína. Grunnskólakennarar og verslunarfólk, strætisvagnabílstjórar og alþingismenn geta mætt til vinnu þó einhverjir þessara kvilla hrjái þá. Kvefaðir hafa oft snýtiklút við hendina, hóstamixtúru eða brjóstsykur, nefdropa og annað sem hjálpar þeim að komast í gegnum vinnudaginn. Þeir sem þjást af bakflæði geta þrátt fyrir óþægindi mætt til vinnu og þurr slímhúð er jafnvel fyrirbæri sem fólk áttar sig ekki á, enda truflar hún fæsta. Eins og fyrrnefndir starfshópar geta hljóðfæraleikarar mætt til vinnu og spilað á hljóðfæri sín þrátt fyrir þessa líkamlegu kvilla. Eina undantekningin er þegar um innbyggt hljóðfæri er að ræða sem er tilfellið með söngvara. Það er ef til vill vegna þess að hljóðfæri söngvara, röddin, er viðkvæmast allra hljóðfæra og oftast erfiðleikum háð fyrir söngvara að stunda vinnu séu þeir kvefaðir, slæmir af bakflæði eða með of þurra slímhúð. Í rannsókn sinni um ótta óperusöngvara bendir Maria Sandgren á hvers vegna algengt er að söngvarar prófi röddina oft á dag. Með hummi eða með því að syngja nokkra tóna eru söngvarar að kanna hvort röddin sé í lagi en það tengist, að mati Sandgren, áhyggjum þeirra af sýkingum eða öðrum líkamlegum kvillum.[2] Mergurinn málsins er sá að til þess að söngvara líði vel og honum finnist hann vera í góðu formi þarf söngröddin undantekningalaust að vera heilbrigð. Framangreindir kvillar geta valdið því að söngvarinn geti annaðhvort alls ekki sungið eða aðeins með því að einbeita sér eingöngu að söngtækni og láta túlkun mæta afgangi.[3] Undir slíkum kringumstæðum líður söngvara ekki vel. Sá sem hins vegar situr heima og getur ekki sungið reynir öll tiltæk ráð til að sigrast á raddleysinu, af hvaða toga sem það kann að vera. Hann rifjar upp öll gömlu og góðu ráðin sem hann hefur lært af söngkennurum, ömmu sinni og samsöngvurum en auk þess er Facebook mjög öflugt samskiptanet fyrir hópa eins og óperusöngvara. Á Facebook frétta allir allt um náungann og söngvarar eru þar ekki undanskildir. Þar má ósjaldan rekast á umkvartanir söngvara vegna kvefs eða bakflæðis og góð ráð frá kollegum þeirra.
Kvef
Söngvarar hafa mjög næma tilfinningu fyrir því að kvef sé í uppsiglingu. Eymsli eða viðkvæmni „undir seglinu“ eins og það er kallað eða bak við veika góminn er oft upphafið að kvefi en þetta eru einkenni sem almenningur gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir.[4] Þegar vart verður við þessi fyrstu einkenni kvefs hefjast söngvarar handa við að útrýma kvefinu svo að ekki komi til þess að „segja af“ eins og það kallast þegar kvef eða annað hindrar söng. Eins og fram kemur í rannsókn Sandgren, þá hræðast söngvarar ástand sem veldur því að erfitt er að beita röddinni. Kvef er einmitt ástand sem getur valdið því að söngvari getur ekki sungið jafn vel og honum er eðlilegt. Sandgren bendir á að söngvarar geri allt sem þeir geti til að forðast kvef og þar með að syngja undir getu, eða að þurfa að „segja af“. Þess vegna segir hún að óperusöngvarar noti óhefðbundnar lækningaaðferðir til að sporna gegn kvefi.[5] Það skiptir töluvert miklu máli þegar kvef er meðhöndlað hvort söngvarinn á að syngja á næstu dögum, næstu vikum eða er í fríi. Söngvari sem hefur nokkrar vikur fram að frumsýningu eða tónleikum hefur nægan tíma til að grípa til alls kyns aðgerða. Það er hins vegar oft erfiðara að sigrast á kvefinu ef mjög skammur tími er fram að frumsýningu og þá neyðast söngvarar jafnvel til að taka fúkkalyf og stera.
Afneitun og hugarfar
Söngvari í fríi leyfir sér í einhverjum tilfellum að kvefast án þess að sporna við því og er með því að gefa ónæmiskerfi líkamans færi á að vinna á kvefbakteríunni hjálparlaust.[6] Söngvarinn trúir því þá jafnvel að nú sé kvefskammtur hans búinn og hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að kvefast á næstunni.[7] Sverrir gekk á tímabili svo langt að gera ráð fyrir að kvefast „rétt áður en átökin hófust“, eins og hann kallar það, og tímasetti kvefið um tíu dögum fyrir frumsýningu. Hann virtist alltaf fá kvef rétt fyrir frumsýningar sem orsakaði meiri streitu en ella og ákvað að betra væri að ljúka kvefinu af fyrr. Þessari aðferð beitti Sverrir í mörg ár og viðurkennir hlæjandi að um sjúklegan eiginleika hafi verið að ræða.[8]
Allir viðmælendur mínir, þar á meðal Sverrir, reyna að fyrirbyggja að þeir kvefist en um leið afneita þeir óttanum. Hræðslan veikir ónæmiskerfið og söngvari sem er hræddur um að kvefast eykur ósjálfrátt líkurnar á því. Gunnar segist passa að hafa ekki áhyggjur af því að kvefast og ef hann finni fyrir byrjunareinkunnum þá segi hann sjálfum sér einfaldlega að hann sé ekki að veikjast. Það er viss tvískinnungur í því að um leið og hann sannfærir sjálfan sig um að hann verði ekki veikur tekur hann alls kyns hjálparefni, svo sem hvítlauk, salvíute og hómópatíska dropa. „Ég sannfæri sjálfan mig um að ég sé ekki að kvefast, treysti því að ég hugsi nógu vel um mig og að þessir hlutir, sem ég tek sem forvörn, virki,“ segir Gunnar.[9] Flestir viðmælenda minna hafa á löngum ferli áttað sig á því að of miklar áhyggjur hafa neikvæð áhrif á heilsuna og því nauðsynlegt að þjálfa sig í að útiloka áhyggjurnar að einhverju leyti. Margir hafa lent í veikindatímabilum sem hafa kennt þeim að taka ábyrgð á eigin líðan með hugaraflinu.
„Ég gef því enga orku að ég sé að verða veik en auðvitað fer ég líka að gera fyrirbyggjandi hluti,“ segir Ingveldur Ýr. Hún sagði mér frá ítrekuðu kvefi veturinn sem hún flutti heim frá Frakklandi en vegna síendurtekinnar hálsbólgu tók hún oft fúkkalyf. Þetta veikti ónæmiskerfið mikið og hún varð dauðhrædd við að verða aftur veik. Vegna þessarar reynslu ákvað Ingveldur að snúa við blaðinu og fara að nota hugaraflið í baráttunni við veikindi og hætta einfaldlega að verða veik. Þetta er að hennar mati ákveðinn lífsstíll, að ráða sjálfur yfir eigin heilsu með réttu mataræði en ekki síður réttu hugarfari. Ingveldur segir svona frá aðferðum sínum: „Hugleiðsla og hlutir sem geta hreinsað hugann, ég trúi og nota bænina mikið og bið áður en ég fer inn á svið og fæ þá styrk til að takast á við sviðsvinnuna.“[10]
Rannsókn Sandgren sýndi ekki fram á að hennar úrtakshópur notaði hugarorku til að afneita kvefi. Sænsku óperusöngvararnir virtust heldur forðast margmenni og nota jurtalyf og líkamsrækt fremur en að virkja hugarorkuna.[11]
Söngvarar sem ítrekað lenda í vanda vegna líkamlegra kvilla finna flestir hvaða aðferðir henta þeim til að vinna gegn kvillunum. Ingveldur Ýr komst að raun um að hugaraflið getur vísað vandamálunum frá[12] en sá sem ekki nær tökum á síendurteknu kvefi upp á eigin spýtur lifir í stöðugum ótta við að kvefast og í slíku hugarástandi er voðinn vís.[13] Fyrir suma virðast fúkkalyf í auknum mæli eina lausnin. Fúkkalyf eru hins vegar ekki langtímalausn á heilsufarsvandamálum en hjálækningar stuðla aftur á móti að því að ónæmiskerfið styrkist. Sá sem notar hjálækningar öllu jöfnu er þannig, að sögn Gunnars, að stuðla að því að veikjast síður.[14] Í einhverjum tilfellum líður söngvara sem tekur inn fúkkalyf líklega betur vegna þeirrar sannfæringar að brátt geti hann sungið á ný og sennilega eru til dæmi um að raddmein sem orsakaðist af streitu og þurrki lagist við inntöku fúkkalyfja. Í þeim tilfellum virkar fúkkalyfið á svipaðan hátt og lyfleysa en þá er sjúklingurinn einfaldlega sannfærður um að lækning sé á næsta leiti og getur því slakað á og í kjölfarið orðið heilbrigður.[15] Eins og Gunnar og fleiri viðmælendur mínir benda á er mun skynsamlegra fyrir óperusöngvara að beita afneitun og hugarafli, auk óhefðbundinna efna, í baráttunni við kvef og aðra kvilla heldur en að taka fúkkalyf, ekki síst vegna neikvæðra aukaverkana sem fúkkalyf hafa á slímhúðina.[16] Undir þetta tekur talmeinafræðingurinn LePine. Hann segir að lyf geti þurrkað raddböndin en þurrkur hefur áhrif á skýrleika raddarinnar.[17]
Slímhúð
Fyrirbyggjandi aðferðir gegn kvefi geta meðal annars falist í því að halda slímhúðinni í jafnvægi með því að skola nef og veika góminn með saltvatni. Þá er til dæmis notaður svokallaður Neti-pot[18] sem lítur út eins og Aladín-lampi. Hann er fylltur með saltvatnslausn sem hellt er í aðra nösina og látin leka út um hina og svo öfugt. Sumir viðmælendur mínir skola á hverjum degi í forvarnarskyni en aðrir láta sér nægja að skola á álagstímum. Með saltvatnsskolun hafa þeir náð að halda slímhúðinni rakri og heilbrigðri og telja jafnframt að þeir kvefist síður.[19] Hulda Björk, sem hefur átt við þráláta ennisholusýkingu að stríða þegar hún kvefast, segir að síðan hún fór að skola með saltvatni hafi dregið úr þessari tegund sýkingar.[20] Annar aðdáandi saltvatnsskolunar er Ágúst sem fór líkt og Hulda að skola nefið eftir erfiða sýkingu í ennisholum. Þegar hann hefur mikið að gera skolar hann daglega og jafnvel oft á dag ef hann finnur fyrir einkennum sýkingar.[21] Hulda lýsir kostum nefskolunar svona:
Ef þú gerir þetta, hvort sem þú ert með kvef eða ekki, þá ertu að halda slímhúðinni hreinni og rakri og þá eru bifhárin hrein og þá er þetta fyrirbyggjandi. Hins vegar ef maður er frískur þá gleymir maður að gera svona.[22]
Viðmælendur mínir sem ekki nota Neti-pot nota hins vegar undantekningalaust saltvatnssprey fyrir slímhúðina og/eða skola kok með saltvatni. Að gorgla með saltvatni er gamalt húsráð sem langamma mín notaði alla tíð. Saltvatnsskolun og fleiri góð ráð má finna í ýmsum bókum en einnig eru slíkar upplýsingar mjög aðgengilegar á netinu. Ein slík netsíða er Naturheilbund.de en þar er meðal annars fjallað um ágæti saltvatnsskolunar. [23] Nefskolun með Neti-pot og saltvatnsspreyið eru einfaldlega nútíma aðferðir sem hafa sömu áhrif og saltvatnsgorgl langömmu, það er að sótthreinsa en auk þess að næra slímhúðina. C-vítamín á einnig að vera gott til að styrkja slímhúðina[24] en það sem aldrei má þó gleymast er að vatnsdrykkja er það allra mikilvægasta til að koma í veg fyrir að slímhúðin þorni.[25] Sólrún komst að því þegar hún heimsótti háls-, nef- og eyrnalækni í Hannover fyrir mörgum árum hve þurr slímhúð hennar var og að þar væri líklega að finna skýringuna á því að hún átti oft í erfiðleikum með að fara með skýran texta og stundum einnig að ná hæstu tónunum. Læknirinn útvegaði Sólrúnu hómópatísk lyf og saltsprey og sagði henni að það tæki hana líklega þrjá mánuði að koma slímhúðinni í lag. Síðan þá hefur Sólrún ekki skilið saltvatnið við sig og forðast allt sem kemur ójafnvægi á slímhúðina svo sem áfengi og sykur. Hún segir:
Það erfiðasta fyrir mér er þurr slímhúð. Og það er til dæmis hér á Íslandi sko ofboðslega mikið þurrt loftslagið stundum. Þurrt í húsum þannig að ég stundum panikkera yfir því að missa kannski tvo tóna ofan af röddinni og jafnvel botninn út af þessu.[26]
Þó svo að vatnsdrykkja sé mikilvæg fyrir slímhúðina bendir Sólrún á að ef drukkið er meira en einn og hálfur til tveir lítrar af vatni á dag fari slímhúðin hins vegar að þorna. Af þeirri ástæðu drekkur hún vatn sem örlitlum eplasafa er blandað saman við eða te þegar hún hefur drukkið ráðlagðan vatnsskammt.[27]
Almennt er fólk meðvitað um gildi þess að drekka ákveðið magn af vatni á dag en fyrir söngvara snýst vatnsdrykkjan ekki aðeins um almennt heilbrigði heldur um að næra slímhúðina sem er þeim svo mikilvæg til að halda röddinni í jafnvægi. Kvef, þurr veðrátta, ofhituð húsakynni og flugferðir svo og streita og fúkkalyf eru allt óvinir slímhúðarinnar. Streitu og kvef má hins vegar að vissu leyti koma í veg fyrir með nægri hvíld og svefni. Auk þess er sviðsreykur mjög hættulegur slímhúðinni. Því er nauðsynlegt fyrir söngvara sem þurfa að vinna við slíkar aðstæður að drekka nægilega mikið af vatni á meðan á sýningu stendur.[28]
Svefn og hvíld
Fyrir frumsýningar þarf söngvarinn að fá næga hvíld, svefn og rólegheit til að ná jafnvægi og halda heilsunni. Alþekkt er að á lokaæfingum fyrir frumsýningar sé vinnuálag á söngvara of mikið, enda virðast leikstjórar oft gleyma því hve röddin er viðkvæmt hljóðfæri. Ef söngvari er þreyttur margfaldast hætta á alls kyns raddvandamálum auk þess sem mótstöðuafl líkamans gegn kvefi og pestum veikist. Ferðalög söngvara á milli staða geta einnig veikt mótstöðuaflið en söngvarar þurfa oft á tíðum að ferðast daginn fyrir sýningar eða á sýningardögum og hafa því minni tíma en ella til að hvílast.[29] Í kafla sem bandarísku sálfræðingarnir Ley og Freeman rituðu í bókina Imagination and Healing er meðal annars sagt frá rannsóknum sem benda til þess að mótstöðuafl líkamans veikist við streitu og andlegt ójafnvægi.[30] Rannsókn Sandgren styður það sem viðmælendur mínir töluðu um, en góður nætursvefn er þáttur sem sænskir óperusöngvarar leggja líka áherslu á svo ekki komi til veikinda eða ofþreytu.[31] Sverrir segir að of stífar æfingar rétt fyrir frumsýningu séu hættulegar fyrir söngvara en það passi enginn upp á rödd söngvarans nema hann sjálfur og Sverrir bætir við:
Það gerir það enginn [að passa upp á röddina] og oft skilur fólk það ekki að það þurfi, og sérstaklega ekki þeir sem eru ekki tónlistarfólk að það hefur eiginlega voða litlar forsendur til þess að átta sig á því hvað þetta er í raun og veru flókið og hvað maður þarf mikið að passa upp á þessa hluti.[32]
Þó ekki megi tala um það, segir Gunnar, þá er þekkt innan atvinnugreinarinnar að söngvarar geri sér jafnvel upp veikindi vikuna fyrir lokaæfingar. Í „veikindahléinu“ nær söngvarinn upp orku til að takast á við lokaátökin og getur fyrir vikið haldið heilsu og andlegu jafnvægi á frumsýningu.[33] Gunnar og aðrir viðmælendur mínir segja að æskilegra væri að leikstjórar og aðrir stjórnendur gerðu sér grein fyrir hve hvíldin er mikilvæg og gæfu öllum nægilegt frí til að varðveita orkuna. Þeir sem grípa til þessa neyðarúrræðis, að gera sér upp veikindi, hafa auðvitað oft slæma samvisku gagnvart kollegum sínum og missa jafnvel af mikilvægum æfingum. Þeir sem reyndari eru vita hins vegar að slæm samviska er skárri en slæm söngrödd. Enda þótt söngvari nái að hvíla sig er þó alltaf sú hætta fyrir hendi að hann kvefist.[34] Þegar afneitun, hvíld og aðhlynning slímhúðar duga ekki til þurfa söngvarar að grípa til annarra ráða.
Efni gegn kvefi
Eins og margir aðrir nota söngvarar meðal annars hvítlauk, engifer og sólhatt ef kvef gerir vart við sig. Hvítlaukurinn er í raun nokkurs konar náttúrulegt fúkkalyf, eins og fram kemur í rannsókn Bonnie O’Connor, en hann er talinn virka á sýkingar og vírusa. Til að hvítlaukurinn hafi hraðvirk áhrif er mælt með að borða hann hráan og í miklum mæli eða fimm til fimmtán geira á dag. Þetta hefur O’Connor eftir Jason Serinus sem er einn þeirra sem rannsakað hafa áhrif hjálækninga á eyðnismitaða.[35] Gamalt ráð sem ítalski söngkennarinn Sigurður Demetz[36] kenndi Gunnari er að stinga heilum hvítlauksgeirum upp í nefið. Þessa aðferð notar Gunnar ef hann finnur að mjög svæsið kvef er að ná yfirhöndinni.[37] Eini gallinn við svo mikla hvítlauksnotkun er að hvítlaukur hefur ertandi og þurrkandi áhrif á slímhúðina. Því er erfitt að nota hvítlauk, sérstaklega í miklum mæli eða í nef, nema nægur tími sé fram að sýningu eða tónleikum svo slímhúðin geti jafnað sig.[38] Vegna þessara slæmu aukaverkana nota hvorki Sólrún né Ingveldur Ýr hráan hvítlauk.[39] Hvítlaukur í mat hefur, að sögn Gunnars, hins vegar ekki tilfinnanleg áhrif á slímhúð en aðeins jákvæð fyrirbyggjandi áhrif gegn kvefi.[40] Enn á ný er það slímhúð óperusöngvara sem verður að huga að. Ef ekki væri vegna þess hve ertandi áhrif hvítlaukur hefur á slímhúðina væri líklega oftar hægt að forðast kvef með notkun þessa náttúrulega fúkkalyfs. Þurra slímhúðin eða slæmt kvef hafa hvorutveggja slæm áhrif á röddina.[41] Það getur því verið vandasamt að finna jafnvægi sem stuðlar að heilbrigði raddarinnar. Þegar ég spurði Sverri um kvef og hans aðferðir gegn því sagði hann hlæjandi: „Oooo, það er svo ömurleg tilfinning!“[42] Þetta svar Sverris segir ansi mikið um líðan söngvara sem eru að reyna að ná tökum á kvefi en óöryggið verður mikið í slíkum aðstæðum.
Engiferrótin er annað kvefráð sem hefur náð útbreiðslu meðal fólks almennt. Engiferrótin er talin vera bólgueyðandi og sýkladrepandi auk þess sem hún hefur góð áhrif á maga.[43] Rótina má setja ferska í soðið vatn og drekka sem seyði. Það er ekki síður gott fyrir magann en röddina en bæði Sverrir og Sólrún tala um að bein tenging sé á milli þess sem gerist í maganum og í hálsinum.[44] Þetta er vissulega áhugaverður punktur sé litið til þess að bakflæði er algengt meðal óperusöngvara. Sú eina af viðmælendum mínum sem ekki notar engiferrótina heldur engiferduft er Ingveldur Ýr. Engiferduftið setur hún út í soðið vatn og drekkur því þetta hefur betri áhrif á kvef og röddina að hennar mati en fersk rótin.[45] Þeir sem ekki nenna að saxa ferska rót eða hafa ekki lyst á engiferdufti í vatni geta, að sögn Sverris, náð sér í jákvæð áhrif engifers úr tei.[46] Algengt er að engifer sé notað í heilsute og það er eitt af því sem Sverrir notar í te sem hann framleiðir sjálfur.[47] Lakkrísrótin er einnig tilvalin í te svo og fennel. Þá eru jurtir eins og salvía og blóðberg mikið notaðar af Gunnari. Þó getur verið varasamt að nota jurtir sem þurrka slímhúðina of mikið en salvía getur til dæmis haft þau áhrif.[48] Þegar söngvarar nota jurtir sem þurrka slímhúðina þurfa þeir að passa að fá nægilegan raka svo að þessi þurrkur komi ekki niður á röddinni. Þá er til dæmis hægt að fá sér örlítið af ólífuolíu, drekka mikið af vatni og borða gulrætur en þær eru mjög rakagefandi.[49]
Sverrir er sá eini af viðmælendum mínum sem talar um innbyggða rakagjafann, munnvatnið:
Eitt af því sem er mikilvægt að passa upp á er að það sé alltaf munnvatn. Þetta er svo einfalt en munnvatn það fyrirbyggir að maður þorni upp, sko en það hefur líka áhrif á taugakerfið. Munnvatnið í munninum, eða sko að halda munnvatni í munninum það róar taugakerfið. Þetta hef ég líka notað mikið, bý til munnvatn og kyngi því ekki strax, ég læt það liggja á tungunni.[50]
Hann segir að auk ákveðinna jurta dragi brauð í sig mikinn raka en til að halda yfirtónum í röddinni megi þurrkur ekki vera til staðar.[51]
Annað vel þekkt fyrirbæri í baráttunni við kvef er sólhattur eða echinacea en hann er notaður til að styrkja ónæmiskerfið. Á heimasíðu Háskólans í Maryland í Bandaríkjunum er meðal annars sagt frá því að indjánar hafi notað sólhatt í baráttu við hvers kyns veikindi, svo sem sárasótt og blóðsótt. Í dag er sólhattur ákaflega vinsæl jurt en fyrst eftir að fúkkalyfin komu til sögunnar dró úr notkun á honum.[52] O’Connor segir frá því að sólhattur sé notaður af alnæmissjúklingum en margir læknar mæla með notkun í törnum fyrir sjúklinga. Þá er sólhattur tekinn í töluverðu magni í nokkra daga en síðan gert nokkurra daga hlé. Við þetta á ónæmiskerfið að styrkjast en auk þess á þetta að hafa góð áhrif gegn sýkingum og vírusum. Aðrir mæla hins vegar með því að taka sólhatt eingöngu ef kvef, flensueinkenni, þreyta og slen gera vart við sig.[53] Bjarni Thor segist alltaf eiga sólhatt, til vonar og vara, og er það í raun eina óhefðbundna lækningin sem hann notar.[54] Ef til vill þurfa dekkri raddir síður að huga að þessum málum en sópransöngkonur og tenórar. Það væri verðugt rannsóknarefni en ekki gefst þó rúm til þess í þessari ritgerð. Tenórinn í hópnum, Gunnar, notaði áður fyrr sólhatt en skipti yfir í Metavirolent sem eru þýskir hómópatadropar sem hafa svipuð áhrif og sólhattur. Dropana tekur Gunnar þegar hálsverkur eða verkur undir seglinu gerir vart við sig. Þá eru tíu dropar teknir á hverri klukkustund og yfirleitt er verkurinn eða kvefið horfið daginn eftir.[55] Svipaða virkni hefur Olbas-olía en að sögn Sverris inniheldur hún eucalyptus og piparmintu og er ætluð til innöndunar eða til að bera á háls og brjóst. Sverrir setur hins vegar dropa á tunguna og veltir í munninum.[56] Hann segir að líkt og með sólhattinn sé nauðsynlegt að ofnota ekki Olbas-olíuna því þá minnki virkni hennar.[57] Gunnar notar svipaða olíu sem hann kaupir í Þýskalandi og heitir Japanisches Heilpflanzenöl[58] en vegna þess hve honum finnst olían þurrka upp slímhúðina notar hann hana eingöngu ef hann fær þyngsli fyrir brjóstið, hósta eða stíflað nef.[59]
Hvítlaukur, sólhattur og saltvatnsskolun eru allt hjálækningar sem tíðkast meðal fólks almennt, hvort sem fólk býr á Íslandi eða annars staðar. Þessar sömu aðferðir eru einnig notaðar af sérstökum hópum, svo sem óperusöngvurum. O’Connor og Hufford segja einmitt frá því í bók sinni Healing Logics að ákveðnar aðferðir nái útbreiðslu meðal fólks almennt[60] og fyrrnefndar aðferðir eru dæmi um þetta. Þannig getur óperusöngvari notað gömul ráð frá langömmu sinni í bland við splunkuný ráð úr óperuheiminum af Facebook.
Fæðuval á sýningardegi
Flestir viðmælendur mínir hugsa um að forðast fæðu og drykki sem þurrka slímhúðina svo sem kaffi.[61] Brauð, möndlur og ýmsar jurtir þurrka upp og því er vatnsdrykkja mikilvæg fyrir slímhúðina.[62] Eins og Sverrir bendir einnig á þurrkar streitan ekki aðeins upp slímhúðina heldur veikir hún einnig ónæmiskerfið og því liggur í augum uppi að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn þurrki, kvefi og streitu eru nauðsynlegar.[63] Þá er áfengi eitt af því sem þurrkar upp slímhúðina og söngvarar gæta þess flestir að draga úr eða sleppa neyslu áfengra drykkja á álagstímum.[64] Ítalski tenórinn Caruso ráðlagði söngvurum einmitt að forðast sterka drykki daginn fyrir sýningar því hann taldi að ella yrði háa c-ið ekki jafn kristaltært.[65] Þess vegna sleppa að minnsta kosti hærri raddir, tenórar og sópranar, áfengisneyslu þegar mikið liggur við. Fæðutegundir sem Sverrir mælir sérstaklega með eru til dæmis gulrætur og paprikur[66] sem eru mjög rakagefandi, kjúklingakjöt sem er prótínríkt svo og allir ávextir. Hins vegar eru viðmælendur mínir sammála um að steiktan og þungan mat svo og ertandi tegundir eins og hráan hvítlauk skuli söngvarar forðast á sýningardegi.[67] Oft eru söngvarar í þeirri aðstöðu að þeir geta ekki matreitt sjálfir og hafa takmarkaðan aðgang að hentugri fæðu. Á flugvöllum er til að mynda erfitt að vera vandfýsinn á fæðu. Sólrún hefur ágæta lausn á þessu vandamáli:
Þegar maður er að ferðast á flugvöllum þar sem allt er ómögulegt er ég með græju sem heitir GSE (Grapefruit Seed Extract) og þetta hjálpar meltingunni að vinna úr eitrinu og draslinu sem maður neyðist til að borða á flugvöllum.[68]
Viðmælendur mínir eru allir sammála Ingveldi Ýr um að nauðsynlegt sé að borða vel á sýningardögum en þó megi máltíð hvorki vera of stutt fyrir sýningu né of þung.[69]
Fúkkalyf
Nú hef ég sagt frá helstu hjálækningum sem viðmælendur mínir nota gegn líkamlegum kvillum. Allar þessar óhefðbundnu lækningaaðferðir nota þeir í þeirri von og trú að þeir komist hjá því að nota fúkkalyf. Til að losna við þær aukaverkanir sem notkun fúkkalyfja hefur í för með sér eru söngvarar yfirleitt opnir fyrir þeim aðferðum sem samsöngvarar og aðrir ráðleggja þeim. Sviti, svimi og slappleiki eru aukaverkanir sem flestir sem hafa tekið fúkkalyf kannast við en auk þess verður slímhúðin fyrir miklu raski og eins og hef ég rakið hefur ástand slímhúðarinnar mikil áhrif á röddina. Þar sem atvinna söngvara er mjög líkamleg liggur í augum uppi að erfitt getur verið að standa í nokkra klukkutíma á sviði slappur, sveittur og auk þess með slímhúðina í ójafnvægi.[70] Viðmælendur mínir hafa flestir gengið í gegnum tímabil fúkkalyfjaneyslu og eru sammála um að æskilegra sé að komast hjá því líkamsástandi sem skapast við þær aðstæður.
Sverrir notaði mikið af fúkkalyfjum sem barn því hann var með stöðuga slæmsku í hálsi. Börn sem af einhverjum ástæðum þurfa oft að taka fúkkalyf tengja yfirleitt ekki röddina við heilsuna, nema þá helst þau börn sem syngja í kórum, leikhúsi eða einsöng á tónleikum og hljómplötum eins og Sverrir gerði. Ég hafði strax á tilfinningunni að þessi reynsla í æsku ylli því hve áhugasamur Sverrir er um heilsusamlegt líferni. Þegar ég spurði hann um þetta hugsaði hann sig um og sagði svo að líklega lægi þetta að baki þótt hann hefði ekki endilega gert sér grein fyrir því. Hann lýsir álaginu frá unga aldri þannig:
Undir álagi, af því að ég hafði sungið alla ævi, að undir álagi og sérstaklega þegar ég vissi að það var komið að sýningu eða tónleikum eða einhverju að þá, þá var ég mjög gjarn á að fá kvef og röddin einhvern veginn varð viðkvæm.[71]
Sverrir tók einfaldlega þá ákvörðun að taka aldrei aftur fúkkalyf og hefur ekki notað þau í áratugi og hættir frekar við að syngja opinberlega en að taka fúkkalyf.[72]
O’Connor fjallar um notkun fúkkalyfja í tengslum við eyðnismitaða en læknar hafa gripið til þess ráðs að gefa þeim fúkkalyf vegna hræðslu þeirra við sýkingu. Þá er í raun ekki verið að meðhöndla sýkingu heldur einfaldlega óttann við sýkingu og er þá fúkkalyfið notað til að draga úr hræðslu.[73] Jafnvægi óperusöngvara getur einmitt raskast mjög ef viðkomandi er sífellt hræddur um að veikjast. Ef ekki væri vegna hinnar viðkvæmu slímhúðar söngvara gætu fúkkalyfin einnig gagnast þeim til að draga úr hræðslunni. Í einhverjum tilfellum er hugsanlegt að söngvarar hafi ekki endilega þurft á fúkkalyfjum að halda en taki þau til vonar og vara. Söngvari þarf hins vegar, slímhúðarinnar vegna, að finna aðrar aðferðir til að yfirbuga óttann við kvef. Lýsing Huldu Bjarkar á raddleysi sem stafaði ekki af kvefi né bólgum í raddböndum segir okkur hve margt getur haft áhrif á röddina: „Ég hef orðið raddlaus þar sem ekkert sést á raddböndunum og það er engin hálsbólga eða kvef heldur bara vöðvaspenna utanáliggjandi“.[74] Streita fyrir tónleika eða sýningu getur einmitt orðið til þess að utan á liggjandi vöðvaspenna hafi áhrif á röddina en þetta fjallar LaPine einmitt um í grein í Music Educators Journal.[75]
Eins og áður kom fram hefur Huldu Björk nú tekist að minnka notkun fúkkalyfja með því að halda slímhúðinni heilbrigðri og rakri, Sverri með heilsufæði, tei og Olbas-olíu og Ingveldi Ýr með hugarorku og heilbrigðu líferni. Gunnar hefur sömu sögu að segja, te og saltvatn, vatnsdrykkja, svefn og trúin á að hann veikist ekki hafa komið honum í gegnum heilu árin án fúkkalyfja.[76]
Undarlegu ráðin
Aðferðirnar sem ég hef nú sagt frá eru flestar aðgengilegar, sumar notaðar af öðrum en óperusöngvurum en aðrar eilítið undarlegar, að minnsta kosti að mati þeirra sem ekki hafa atvinnu af söng. Gunnar hefur hins vegar fengið ráð frá samsöngvurum sem flestum, jafnvel óperusöngvurum, þykja sérkennileg en hann hefur enn ekki gengið svo langt að fara að þessum annars ágætu ráðum.
Það var eitt árið í Berlín að Gunnar varð ítrekað veikur, svo veikur að hann gat ekki sinnt vinnu. Þegar svo er ástatt um söngvara er sjálfstraustið fljótt að veikjast og því nauðsynlegt að grípa til ráða sem öðrum kæmu ekki til hugar. Eitt af þeim ráðum sem Gunnari voru gefin var að gefa sjálfum sér blóð. Kollegi Gunnars sem er ekki aðeins óperusöngvari heldur menntaður læknir og hómópati, hafði einmitt lent í ítrekuðum veikindum sem komu í veg fyrir að hann gæti sungið. Hann fór þá til læknis sem framkvæmdi blóðtöku en síðan var blóðinu ásamt ónefndum hómópatískum efnum sprautað aftur í hann. Félagi Gunnars staðhæfði að þetta endurstillti ónæmiskerfi líkamans og hefði reynst honum vel. Gunnar var tilbúinn að gera hvað sem væri til að ná heilsu á ný, allt nema að fara á fúkkalyf einu sinni enn. Skömmu eftir að þessi áhugaverða aðferð kom til tals tók að vora í Berlín og þar með fór Gunnar að braggast svo aldrei kom til þess að hann færi að þessu ráði.[77]
Annar góður félagi Gunnars, sem hann hefur sungið með annað slagið síðustu átján árin, ráðleggur öllum sem finna til slappleika að drekka miðbununa úr eigin hlandi. Þetta hefur Gunnar ekki reynt en félagi hans stundar þetta reglulega til að halda heilsu. Þá pissar hann í bolla að morgni og drekkur svo nokkra góða sopa og að eigin sögn er allur slappleiki þá úr sögunni.[78]
Sterar
Óperusöngvarar hér á landi sem standa frammi fyrir því að þurfa að segja af sýningu vegna kvefs eða raddleysis af öðrum toga eru í meiri vanda staddir en söngvarar sem starfa á meginlandinu. Í Þýskalandi er til dæmis auðveldara að útvega söngvara samdægurs enda eru starfrækt óperuhús í nánast hverri borg Þýskalands. Söngvari sem segir af sýningu að morgni veit að ólíklegt er að ekki finnist söngvari til að hlaupa í skarðið. Með þessa vissu getur viðkomandi söngvari því jafnað sig af kvefi eða öðru sem veldur raddleysinu án þess að hafa slæma samvisku gagnvart samstarfsfólki og áhorfendum.
Hér á Íslandi vandast hins vegar málið ef einn af söngvurum í óperusýningu eða á mannmörgum tónleikum, svo sem tónleikum með hljómsveit, kór og fleiri söngvurum, getur ekki sungið. Þegar slík staða kemur upp hafa flestir viðmælendur mínir neyðst til að fara í sterainnöndun undir handleiðslu Einars Thoroddsen.[79] Einhverjir hafa þurft að ganga lengra og tekið inn steratöflur eða fengið sterasprautu. Hulda Björk er ein þeirra sem hafa reynslu af notkun stera og lýsir því þannig:
Ég hef lent í öllum pakkanum … ég hef lent í að láta sprauta í vöðvana … tunguræturnar og hérna í vöðvana og það er það er bara svona desperasjón sem leiðir mann út í það að þiggja þá aðferð.[80]
Steranotkunin stuðlar ekki að bata heldur gerir það einfaldlega að verkum að söngvarinn getur sungið þrátt fyrir kvef eða ofþreytu. Þá finnur söngvarinn ekki til því það er í raun búið að aftengja röddina. Þegar reyndir söngvarar syngja undir áhrifum stera eru þeir líklegri til að misbeita ekki röddinni en þeir sem ekki búa yfir mikilli sviðsreynslu. Þó er ekki hægt að staðhæfa að engin áhætta sé tekin þegar sungið er undir áhrifum stera og þetta hafa söngvarar hugfast þegar ákvörðun um sterainnöndun eða inntöku er tekin.[81]
Sólrún sagði mér frá því þegar hún söng sópranhlutverkið Nedda í Cavaleria Rusticana haustið 2008 í Íslensku Óperunni og missti röddina. Það byrjaði með lítils háttar hæsi og hún var viss um að með hvíld, tedrykkju og þeim aðferðum sem hún venjulega beitir myndi hún ná sér fljótt. Svo varð hins vegar ekki og hæsin varð að raddleysi sem olli því sem Sólrún lýsir sjálf: „Ég var þögla Neddan“. Sólrún fór í sterainnöndun en það dugði ekki til svo að hún neyddist til að taka steratöflur. Nokkrum dögum síðar gat hún sungið en segist hafa sungið nánast eingöngu á tækninni og ekki verið sátt sjálf enda fannst henni líkami sinn vera í slæmu ástandi eftir steranotkunina. Með þessu var Sólrún að bjarga sýningum í Íslensku Óperunni og segist aldrei ætla að leggja slíkt á sig aftur. [82] Lýsing Huldu Bjarkar á álaginu á íslenskum söngvurum segir kannski alla söguna:
Það er rosalegt álag, það er mjög mikið andlegt álag – af því að það er þú veist, ef þú veikist þá hausinn af. Það dugir ekkert í leikhúsum annað en dánarvottorð og þá ertu alltaf með undirliggjandi stress – hvað gerist ef? Og ég hef tekið mörg tímabil þar sem að ég hef bara gert allt til að bjarga og fundist ég auðvitað í leiðinni vera að bjarga eigin heiðri. Ég hef farið í sprautur, ég hef tekið inn sterakúr til að redda kvöldinu. Ég var lengi að jafna mig.[83]
Jafnvel þótt erlendis geti alltaf annar söngvari hlaupið í skarðið er víða fjallað um þá pressu sem óperusöngvarar lifa við. Þessi pressa leiðir marga út í þunglyndi eða lyfjaneyslu. Í grein í vefútgáfu The Times er fjallað um þessa pressu sem hefur orðið til þess að heimsfrægir söngvarar hafa misst móðinn. Söngvari sem er ráðinn til að syngja mörg ár fram í tímann í stærstu óperuhúsum heims er líklegri en aðrir til að grípa til steranotkunar í veikindum þar sem miklir peningar og mannorð hans er í húfi. Þessi þrýstingur og lyfjanotkun leiðir oft til þess að söngvarinn gefst upp og hverfur af sjónarsviðinu, tímabundið eða fyrir fullt og allt.[84]
Bakflæði
Bakflæði er nokkurs konar atvinnusjúkdómur söngvara en æði margir söngvarar þjást af þessum nútímakvilla. Hugmyndir fólks um bakflæði tengjast gjarnan nábít og þá oft eftir ofát, svo sem á jólum. Bakflæði hjá söngvurum veldur hins vegar raddleysi eða raddvandamálum og oft eiga læknar jafnvel erfitt með að átta sig á af hvaða rótum vandamál söngvara með bakflæði eru runnin. Áður en bakflæðið er greint bendir flest til þess að söngvarinn sé með hálsbólgu, astma eða þjáist af ofþreytu þar sem raddböndin verða rauðleit eins og tilfellið var hjá Ágústi. Margt bendir til að streita og mataræði hafi mikil áhrif á bakflæði. Hins vegar er álag á þindina þegar sungið er ein af hugsanlegum ástæðum þess að svo margir söngvarar þjást af bakflæði.[85] Flestir sem greinast með bakflæði fá lyf við því og hjá allflestum virka lyfin fljótt og örugglega. Lyfin Nexium eða Omeprazol virðast ekki hafa aukaverkanir en slá hins vegar strax á einkenni bakflæðis.[86] Hópur ítalskra meltingarfærasérfræðinga rannsakaði tíðni bakflæðis meðal kórsöngvara í nokkrum af bestu óperukórum á Ítalíu. Rannsókninni var ætlað að kanna hvort bakflæði væri algengara meðal söngvara en annarra stétta. Yfir þrjúhundruð kórsöngvarar tóku þátt í rannsókninni en þeir störfuðu í óperunum í Róm, Flórens, Napolí og við La Scala í Mílanó. Auk kórsöngvaranna voru spurningalistarnir lagðir fyrir úrtak fólks sem ekki hafði atvinnu af söng. Í ljós kom að fleiri kórsöngvarar fundu fyrir einkennum bakflæðis en þeir sem ekki störfuðu sem söngvarar. Helstu einkenni bakflæðis meðal söngvaranna voru hósti og raddleysi sem rakið var til sýru á raddböndum. Ástæða þessa atvinnusjúkdóms er að mati rannsakenda streita og sú staðreynd að raddbönd söngvara verða að vera heilbrigð og því er söngvari viðkvæmari en aðrir fyrir bakflæði. Matarvenjur kórsöngvaranna voru einnig taldar líklegar til að eiga sinn þátt í bakflæði, en þeir borðuðu oft að sýningum loknum og lögðust til hvílu stuttu síðar. Auk þess má, samkvæmt ítölsku rannsókninni, að öllum líkindum rekja bakflæði til þess að söngvarar nota þindina á annan hátt en aðrir.[87]
Þeir viðmælendur mínir sem þjást af bakflæði taka einfaldlega lyf við bakflæði, nema Ágúst. Ástæðuna segja þeir vera að lyfin virki vel og því séu þeir latir að nota óhefðbundnar aðferðir gegn þessum kvilla. Saga Ágústs er ólík sögu hinna en fyrir nokkrum árum varð hann raddlaus og gekk til lækna sem ekki greindu bakflæði fyrr en allt annað hafði verið útilokað. Læknar töldu raddleysið stafa af þreytu enda voru raddböndin rauð eins og þegar um ofþreytu er að ræða. Eftir hvíld voru raddböndin enn rauð og Ágúst orðinn óöruggur enda er fótunum kippt undan söngvara þegar röddin gefur sig. „Ég varð alltaf óöruggari og óöruggari því ég treysti ekki röddinni,“ segir Ágúst. Þegar læknar höfðu útilokað raddþreytu var talið líklegt að um bakflæði væri að ræða og eins og aðrir var Ágúst settur á lyf. Eftir tveggja ára inntöku lyfja og nærri viðvarandi raddleysi var botninum náð og Ágúst tók þá ákvörðun að reyna aðrar aðferðir en lyfin en hætta að syngja að öðrum kosti. Hann hóf að leita sér upplýsinga á netinu og fann netsíðu sópransöngkonu sem hafði verið í svipaðri aðstöðu og hann. Hún hafði hætt á lyfjum og gripið til róttækra ráðstafana, sem fólust meðal annars í því að fasta einn dag í viku, drekka ekki á undan, með eða á eftir máltíðum og borða eingöngu hráfæði. Ágúst hætti á lyfjunum og segir svo frá:
Ég byrja sem sagt á föstunni og að drekka ekki með mat og svo fór ég til læknis og þá voru raddböndin í fyrsta sinn hvít. Ég hætti á lyfjum enda hafði þessi söngkona ráðlagt það. [88]
Enda þótt líðan Ágústs batnaði við það að fasta fann hann fljótlega að það gengi of nærri honum og nýtti sér í staðinn það sem honum fannst henta sér, svo sem að borða ekki þremur klukkutímum áður en hann fer að sofa. Þetta er einmitt ein af líklegum ástæðum þess hve margir óperusöngvarar þjást af bakflæði, en eftir óperusýningar er mjög algengt að söngvarar fái sér að borða. Átið tengist meðal annars félagslífi söngvarans sem sest niður með samsöngvurum að sýningu lokinni til að spjalla, fá sér vínglas og eitthvað í svanginn enda söngvarinn þá jafnvel búinn að syngja, standa og hlaupa í nokkra klukkutíma. Annað sem Ágúst forðast vegna bakflæðis er að drekka með mat. Ekki er talið gott að drekka fyrr en klukkutíma eftir mat og ekki áður en gengið er til rekkju en söngvarar þurfa einmitt að drekka mikið af vatni eða tei á meðan á sýningu stendur til að ofþorna ekki. Eftir sýningu finnst þeim svo nauðsynlegt að fá sér bjór eða vín með kollegunum. Söngvarar eru því ekki að vinna gegn bakflæði með því að borða seint á kvöldin og drekka með mat og rétt fyrir svefninn.
Ágúst er þrátt fyrir visku sína um rétt mataræði sannfærður um að bakflæðivandamál söngvara eigi sér djúpstæðari orsök en mataræði og drykkjusiði:
Þegar söngvari hefur það á tilfinningunni að eitthvað sé að plaga röddina þá missir söngvarinn sjálfstraustið og það er kannski sá þáttur sem veldur því að söngvarar verða svona slæmir af bakflæði. Streita er líklega eitthvað sem hefur mest áhrif á bakflæði söngvara og þegar bakflæðið fer af stað verða þeir stressaðir sem gerir illt verra.[89]
Söngvarar sem taka lyf við bakflæði segjast margir sleppa lyfjum í fríi og þegar þeir eru ekki undir álagi. Í fríi er fólk jafnvel að borða óhollara fæði en ella, grilla, drekka bjór og fleira sem talið er auka bakflæði. Sú staðreynd að söngvarar sem þjást öllu jöfnu af bakflæði geta sleppt lyfjatöku þegar þeir eru í fríi styður þá kenningu að bakflæði sé að stórum hluta streitutengt.
Þegar ég spurði Ágúst hvort hann tæki einhverjar jurtir eins og til dæmis Hulda Björk gerir við bakflæði segir hann: „Nei, ég tek ekkert svoleiðis. Ég vil frekar sleppa einhverju heldur en að bæta einhverju við.“ Hulda Björk og fleiri viðmælendur mínir taka hins vegar auk lyfja regnálm (Slippery Elm eða Ulmus rubra) sem er jurtablanda sem talin er græða slímhúðina í meltingarveginum. Þau segja öll að regnálmurinn hjálpi einnig slímhúðinni að halda jafnvægi og gott sé að hafa regnálminn við höndina þegar álagið sé mikið.[90]
Öll vita þau líka að kaffi eykur bakflæðið en aðeins Ágúst hefur hins vegar verið nógu harður við sig til að sleppa einfaldlega kaffidrykkju. Ég spurði hann hvort hann sleppti algjörlega einhverjum fæðutegundum vegna bakflæðis og hans svar var mjög hreinskilið:
Læknir sagði mér einhverntímann að tómatar, kaffi og súkkulaði væri það sem sannað væri að væri slæmt. Ég sleppti strax kaffinu en gat ekki hugsað mér að sleppa tómötum og súkkulaði.[91]
Samantekt
Nú hef ég sagt frá þeim aðferðum sem viðmælendur mínir beita þegar þeir eru að kvefast eða eru orðnir kvefaðir. Auk þess hefur verið gerð grein fyrir mikilvægi heilbrigðrar slímhúðar og hvaða aðferðum viðmælendur mínir beita til að halda jafvægi á slímhúðinni og að lokum hvernig söngvarar meðhöndla bakflæði. Fólk sem starfar á öðrum vettvangi hefur almennt ekki áhyggjur af þessum kvillum. Óperusöngvarar þurfa hins vegar stöðugt að verja sig með fyrrnefndum ráðum án þess þó að vera sífellt hræddir við þessa kvilla sem geta valdið því að röddin svíkur þá. Þetta jafnvægi milli kæruleysis og ábyrgðar er oft vandmeðfarið. Viðmælendur mínir hafa þurft að finna aðferðir sem henta þeim til að halda þessu jafnvægi. Um leið og þeir útiloka hræðslu við líkamlega kvilla nota þeir fyrirbyggjandi aðferðir. Auk þess þurfa þeir að trúa því og treysta að aðferðir þeirra beri árangur. Þó að flestar aðferðirnar séu náttúrlegar, svo sem svefn, hvíld, vatn, jurtir, te, hvítlaukur og holl fæða, er ljóst að flestir viðmælenda minna nota hefðbundnar lækningaaðferðir auk hinna óhefðbundnu. Hefðbundnu aðferðirnar, svo sem notkun fúkkalyfja, hafa hins vegar neikvæð áhrif á slímhúðina og fyrirbyggja ekki frekari veikindi. Þegar viðmælendur mínir hafa neyðst til að nota fúkkalyf eru þeir mjög meðvitaðir um þessi neikvæðu áhrif og nota því hjálækningar til að ná jafnvægi á slímhúðinni. Líkamlegir kvillar geta haft þau áhrif að söngvari geti ekki sungið og þá er mikil hætta á að andlegt jafnvægi raskist. Röddin er nokkurs konar jafnvægispunktur söngvarans en til þess að röddin blómstri þarf að vera jafnvægi á líkamlegri heilsu jafnt sem andlegri. Því liggur beinast við að næsti kafli fjalli um þær aðferðir sem viðmælendur mínir beita til að halda andlegu jafnvægi.
Andleg heilsa og röddin
Óperusöngvari sem stendur frammi fyrir frumsýningu eða stórtónleikum hefur yfirleitt lokið ströngu æfingatímabili. Í lok þessa tímabils er söngvarinn, að minnsta kosti sá sem syngur langt og krefjandi hlutverk, oft orðinn lúinn á líkama og sál. Í kaflanum um líkamlega heilsu og röddina kemur fram hve mikilvæg hvíldin, svefninn og trúin á að viðkomandi veikist ekki eru. Radd- og tjáskiptasérfræðingarnir Nathan V. Welham og Margret A. Maclagan telja fræðimenn sem rannsakað hafa orsakir raddþreytu ekki hafa gert nægilega vel grein fyrir áhrifum andlegs ójafnvægis á röddina. Þau telja að til þess að unnt sé að útskýra fyllilega raddleg vandamál, svo sem raddþreytu, sé nauðsynlegt að rannsaka samband andlegrar þreytu og raddþreytu.[92] Viðmælendur mínir virðast gera sér grein fyrir því að halda þurfi jafnvægi á öllum sviðum svo röddin geti glansað og söngvarinn notið sín. Með ýmsum aðferðum getur söngvara tekist að forðast kvef, pestir og að halda slímhúð í jafnvægi og bakflæði í skefjum. Aðferðirnar sem viðmælendur mínir nota felast ekki aðeins í heilsusamlegu líferni heldur eru þær einnig andlegs eðlis, svo sem að afneita kvefi með hugarafli. Með þessum aðferðum eru söngvarar að fyrirbyggja að einhvers konar kvillar hindri það að röddin njóti sín til hins ýtrasta. Nú á dögum hugar fólk sífellt meira að andlegri líðan sinni og bækur eins og The Secret hafa náð miklum vinsældum undanfarin ár. Hugleiðsla, jóga, bænir og hreyfing stuðla að því að fólk geti tekist á við lífið með bjartsýni, jákvæðni og þakklæti að leiðarljósi.[93]
Þegar Gunnar gekk í gegnum sínar raddbreytingar fór hann einmitt að leita á þessi andlegu mið og því lék mér forvitni á að vita hvað aðrir söngvarar gera til að halda andlegu jafnvægi og hvort tengsl séu á milli andlegs og líkamlegs jafnvægis og svo raddarinnar. Sálfræðingurinn Maria Sandgren bendir á í doktorsritgerð sinni, að með aldrinum breytist raddvöðvi söngvara og þeir þurfi að breyta um tækni og hlutverkaskrá í kjölfarið. Erfiðleikar sem óneitanlega fylgja breytingum á rödd, tækni og hlutverkaskrá eru oft kveikjan að ótta og þunglyndi söngvara.[94] Þannig tengist röddin og andleg líðan söngvara en þjóðfræðingarnir O’Connor og Hufford segja: „Flestar tegundir hjálækninga gera ráð fyrir að flókið samspil sé á milli líkama, huga og anda.“[95] Þá halda margir því fram að sjúkdómar stafi af ójafnvægi milli líkama og sálar og þetta kemur meðal annars fram í rannsókn Alver og Selberg.[96] Viðmælendur þeirra segjast meðal annars nota þær æfingar og aðferðir sem viðmælendur mínir, söngvararnir, sögðu mér frá. Þessum aðferðum er beitt til að ná jafnvægi milli líkama og sálar.[97]
Viðmælendur mínir fjölluðu sumir um hvernig þeir hafa lært að ná tökum á ótta. Í rannsókn á sænskum óperusöngvurum komst Sandgren að þeirri niðurstöðu að ótti söngvara tengist alltaf röddinni. Ótti við veikindi sem koma í veg fyrir að viðkomandi geti sungið eða ótti við slæma gagnrýni er aldrei langt undan. Til þess að koma í veg fyrir að óttinn nái yfirhöndinni nota því söngvarar ákveðnar aðferðir sem stuðla að jafnvægi milli andlegrar og líkamlegrar heilsu.[98]
Æfingar til verndar
Aðferðir Sólrúnar til að halda andlegu jafnvægi eru ef til vill dýpri en gengur og gerist meðal söngvara. Ástæðan er eflaust sú að Sólrún hefur frá barnsaldri haft áhuga á andlegum málefnum. Hún er mjög næm á líðan annarra og þess vegna hefur hún þurft að verja sig, eins og hún kallar það, með ákveðnum æfingum. Þessar æfingar notar Sólrún í upphafi dags og er þá bæði varin gegn áreiti annarra og ver um leið sína eigin orku eða eins og hún orðar það „að hún leki ekki“.[99] Æfingarnar endurtekur hún svo ef þurfa þykir yfir daginn og alltaf áður en hún stígur á svið. Sólrún segir svona frá æfingunum sínum:
Ég byrja á því að fylla mig ljósi, tengi mig niður með fæturna, niður í jörðina, soga ég upp úr kjarna jarðarinnar sem sagt jarðfestuna og orkuna í gegnum mig aftur og upp í ljósið.[100]
Hún byrjar hvern dag á þessari æfingu. Hún jarðtengir sig, setur svo fjólubláan hjúp í kringum sig, en það gerir hún með handahreyfingu. Hún sér síðan fyrir sér kristalla fyrir framan allar orkustöðvar líkamans. Kristallarnir sem Sólrún sér fyrir sér mynda hjúp eða áru og þá er eins og hún sé stödd inni í fjólublárri kúlu. Í gegnum þessa kristalla kemst ekki neikvæð orka frá öðrum en kristallinn hennar glitrar hins vegar út til annarra. Sólrún margver sig og setur svo gylltan hjúp utan yfir allt til þess að fjólublái hjúpurinn eða áran sé enn traustari. O’Connor segir þá sem stunda nýaldar-heilun nota „visualization“, eða að sjá eitthvað fyrir sér, til að láta sér líða betur. Með þessari aðferð tekst til dæmis eyðnismituðum sem aðhyllast óhefðbundnar lækningaaðferðir að vera bjartsýnni, slaka á og einnig verður hegðun þeirra jákvæðari.[101] Þá eru kristallar settir fyrir framan orkustöðvarnar sjö og á sjúklingurinn þá að fá orku. Æfingin er einnig talin hreinsandi fyrir sálina. Kristallarnir eru fyrirbæri sem sjúklingurinn sér fyrir sér og því er aðeins um hugaræfingu að ræða.[102] Sólrúnu dugar yfirleitt að gera þessar æfingar til að sigrast á þeim erfiðleikum sem til dæmis vinna á óperusviði getur haft í för með sér, en stundum þarf að endurtaka æfinguna og „loka sig af“, eins og hún kallar það. Sólrún tók eftir því að þegar samstarfsmenn hennar voru áhyggjufullir eða þeim leið illa hafði það áhrif á hana, það var eins og hún væri spegill á líðan þeirra. Eftir þess konar reynslu ákvað hún að læra að verja sig með fyrrnefndum æfingum og hún hefur stundað þær í um sautján ár. Vinna á sviði krefst þess að óperusöngvarar opni sálu sína að einhverju leyti og samkvæmt doktorsrannsókn Sandgren á heilsu og persónueinkennum óperusöngvara er það ein ástæða þess hve söngvarar eru viðkvæmir og oft óstöðugir andlega.[103] Þessar æfingar eru ein leið Sólrúnar til að halda jafnvægi og hún veit að jafnvel þó neikvæðir straumar séu í kringum hana þá komast þeir ekki að henni og geta ekki skaðað hana. Þegar hún finnur að einhver hefur neikvæð áhrif á hana þá gerir hún eftirfarandi æfingu:
Þá geri ég stjörnu eins og Leonardo da Vinci stjarnan. Þú ímyndar þér að þú sért svona stjarna og setur þig í fjólublátt ljós, fyllir þig, síðan sérðu yfirleitt fyrir þér strax hvað það er sem er að trufla þig. Ef það er einhver sérstök manneskja, sérðu hana kannski fyrir þér. Þá tekurðu (Sólrún andar djúpt) fjólubláa ljósið og ýtir manneskjunni frá þér.[104]
Þessar æfingar, jarðtengingar og kristallaæfing svo og da Vinci-stjörnuæfingin, hafa þau áhrif að fylla manneskju bjartsýni og vellíðan til að takast á við daginn, að sögn Sólrúnar. Einnig losnar viðkomandi úr neikvæðu hugarástandi en slíkt ástand veldur aðeins reiði og streitu.[105] Neikvæðni er einhvers konar hugarástand en með æfingum eins og Sólrún lýsir á viðkomandi manneskja að vera vel varin.[106]
O’Connor segir frá hugmyndum hinnar áströlsku Louise Hay, sem er þekktur höfundur sjálfshjálparbóka. Hay segir að sjúkdóma megi rekja til neikvæðrar hugsunar en þesskonar hugsanir séu gróðrarstía sjúkdóma og minni háttar kvilla. Ákveðin tækni, hugleiðslutækni, geti hins vegar breytt hugsanamynstri sem fólk hefur komið sér upp og hefur áhrif á heilsuna. Jákvæð hugsun er sálarástand sem allir eiga að geta lært en jákvæðni getur ýtt undir sjálfstraust og virðingu fyrir manni sjálfum sem síðan styrkir ónæmiskerfið og þar með heilsu fólks.[107]
Hugleiðsla
Æfingar Sverris eru af svipuðum toga og æfingar Sólrúnar. Hugleiðsla er aðferðin sem hann notar til að halda andlegu jafnvægi fyrir stóra viðburði og enda þótt kristallar komi ekki við sögu hafa hans aðferðir sama tilgang. Hann hugleiðir að öllu jöfnu en gerir það reglubundnar þegar líður að mikilvægri sýningu, en hugleiðslu að hætti Zen-Búddista hefur Sverrir stundað lengi. Einn viðmælenda Alver og Selberg leggur einmitt stund á Zen-hugleiðslu í þeim tilgangi að dýpka undirmeðvitundina og koma ró á hugsunina. Þessi viðmælandi þeirra hreinsar einnig líkamann með því að fasta en það er tengt Zen-hugleiðslu og jóga sem hann leggur einnig stund á.[108] Hvort sem fólk þjáist af sjúkdómum eða er að reyna að halda jafnvægi eins og söngvarar, er Zen-hugleiðslan aðferð sem hentar sumum. Á sýningar- eða tónleikadegi sest Sverrir nokkrum sinnum niður og hugleiðir í stutta stund og segir svo frá:
Ekki endilega löng hugleiðsla, ég kannski sest nokkrum sinnum niður og leyfi, eiginlega vinn í því að tengja saman öndun og að sleppa hugsunum sem að eru neikvæðar sem keyra stöðugt inná að segja manni að þetta geti aldrei gengið upp sko. Að leyfa þeim, sjá þær sko, leyfa þeim að fara og þetta er mjög einföld hugleiðsluaðferð, maður er ekki að reyna að tæma hugann, það er ekki þannig heldur leyfa hugsununum bara að fara í gegn en festa sig ekki við þær sko.[109]
Annað mikilvægt atriði í rútínu Sverris er að stoppa en Alexander-tæknin leggur áherslu á að við lærum að stoppa. Eitt af lykilorðum Alexander-tækni er: „Við fáum engu breytt nema með því að stoppa.“ Þessi stopp felast til dæmis í því að hika, anda og þar með stoppa áður en við til dæmis svörum í símann, eða áður en við ræsum bílinn. Um leið og stoppað er á hugur og líkami að slaka á og það er samkvæmt Alexander-tækni nauðsynlegt í önnum dagsins. Þá lagði Alexander einnig áherslu á hið svokallaða „hvíslaða A“ sem er gert samtímis stoppi. Í raun má líta á hvíslaða-A-ið sem raddæfingu sem stuðlar að því að kjálkinn verður laus og tilfinningin í líkama og sál afslöppuð auk þess sem raddböndin fá raka. Sverrir hefur náð að þjálfa sig í að stoppa og segir að þetta sé orðinn eðlilegur hluti af hans hegðun sem fer einnig með honum upp á svið þannig að í erfiðum aðstæðum nær hann samt að slaka með því að stoppa.[110]
Hreyfing og rólegheit
Þó svo að Hulda Björk grípi til hugleiðslu og hafi kristalla og steina nærri sér er það ekki hluti af hennar daglega lífi. Það eru hins vegar hreyfing og heilsusamlegt mataræði og telur Hulda þetta vera lykilinn að andlegu jafnvægi sínu. Í rannsókn Alvers og Selberg er einmitt fjallað um að til þess að jafnvægi náist á milli líkama og sálar þurfi að fyrirbyggja og vinna í heilsunni á öllum sviðum en það sé gert með heilsufæði, inntöku steinefna og vítamína og andlegum æfingum.[111] Jafnvægi óperusöngvara tengist því alltaf að röddin sé í lagi. Til þess að svo sé þarf slímhúðin að vera í jafnvægi, bakflæði haldið niðri (ef söngvarinn þjáist af því) og almennt líkamlegt heilbrigði að vera til staðar. Hins vegar þarf svo andleg líðan söngvara að vera í jafnvægi en það getur raskast við veikindi, neikvæða strauma eða ef söngvarinn er óöruggur með sig af einhverjum ástæðum. Viðmælendur mínir segja að jákvæðni og andlegt jafnvægi komi því til leiðar að heilsa þeirra sé yfirleitt góð, bakflæði haldist í skefjum, jafnvægi sé á slímhúð og að allt ónæmiskerfið verði virkara.[112] Hins vegar segir Hulda að einnig sé hægt að líta svo á að hún nái andlegu jafnvægi ef henni líður vel líkamlega og fær næga hreyfingu, svefn og hvíld.[113]
En þó að Hulda sé meðvituð um hve nauðsynleg hreyfing og mataræði eru fyrir hana hefur hún á tímabilum hætt að hreyfa sig reglubundið og veit að í kjölfarið kemst óregla á svefninn og um leið er röddin ekki í góðu lagi. Þegar röddin er ekki í lagi er stutt í að atvinnusöngvari verði þungur á brún. Með líkamsrækt af einhverju tagi segist Hulda fyrirbyggja að hún „hrynji“, eins og hún tekur sjálf til orða.[114] Hún segir í þessu samhengi:
Ég hef oft hugsað það, ég hef ekki oft sagt það, en það að ég skuli hafa lent í þessu fagi bjargi lífi mínu af því ég sinni líkamanum og sálinni, ég verð að gera það.[115]
Í rannsókn Sandgren kom fram að söngvarar reyna að hafa ákveðna reglu á sýningardögum þar sem þeir passa upp á mataræði, hreyfingu og hvíld og að vera ekki í margmenni.[116] Þetta er einmitt það sem flestir viðmælendur mínir hafa lagt áherslu á varðandi hegðun á mikilvægum degi. Þá eru allir viðmælendur mínir sammála um að nauðsynlegt sé að hvíla röddina á sýningardegi en fara yfir hlutverkið í huganum, sjá fyrir sér stöður á sviðinu og undirbúa sig þannig í hljóði svo röddin fái hvíld. Jafnvægi verður þó að vera á milli hvíldar og rólegheita og svo hins að líkaminn vakni og sé orðinn fær um að takast á við sviðsvinnu þegar að sýningu kemur. Til þess að vekja líkamann notar Ágúst til dæmis teygjuæfingar fyrir sýningar en æfingarnar hefur hann meðal annars lært í jóga.[117] Mikilvægt virðist vera fyrir söngvara að vekja líkamann á rólegan máta fyrir sýningar en hlaup og lyftingar eru þjálfun sem enginn mælir með fyrir mikilvæga sýningu eða tónleika.[118] Að fara fótgangandi á sýningar, gera teygjur og jógaæfingar virðist tilvalin hreyfing.[119] Bonnie O’Connor segir frá aðferðum þeirra sem leggja stund á nýaldar-heilun. Þeir telja að til að ná jafnvægi á líkama og sál og hafa þrek til að takast á við verkefni dagsins séu einmitt jóga, teygjuæfingar, djúp öndun og líkamsstöður tilvaldar æfingar.[120] Mjög einföld leið til að hita líkamann upp er að ganga á áfangastað. Gunnar gengur jafnvel í rúman hálftíma á sýningar og notar tímann til að fara yfir hlutverkið sitt en um leið hitnar líkaminn og fyrir vikið þarf minna að hita röddina upp. [121] Ágúst segir svona frá ferð sinni í óperu eða á tónleikastað:
Ég ferðast með strætó úr Hafnarfirði til að fara á sýningu. Ég labba fyrst í tíu mínútur og sit svo í strætó og fer yfir hlutverkið. Með því að labba er ég að koma líkamanum í gang en að aka er streituvaldandi. Ég reyni að vera líkamlega virkur og forðast stress á sýningardögum. [122]
Stuttu fyrir frumsýningu loka margir söngvarar sig af. Þeir fara ekki í stórmarkaði eða þar sem mannmergð er og sumir ganga svo langt að þegja á frumsýningardegi. Eitt af ráðum Carusos var einmitt að þegja og vera ekki innan um fólk á sýningardegi.[123] Þetta er ef til vill svolítið gamaldags ráðlegging og flestir ganga ekki svo langt að eyða sýningardegi í þögn nema þeir hafi strítt við veikindi eða ofþreytu. Söngvarar reyna þó að spara rödd sína á sýningardögum. Sverrir er einn af þeim og segir svo frá:
Ég minni röddina á að syngja vel, þannig að hún einhvernveginn sé í fókus allan tímann. Og þetta hefur aukist hjá mér alveg rosalega, oft gerir þetta mér meira gagn heldur en að vera að hamast í röddinni.[124]
Enda þótt söngvarar reyni að spara söngröddina á sýningardegi þá kjósa fæstir að þegja alveg. Enda, eins og Hulda komst að orði, þá er mjög „frústrerandi að þurfa að steinþegja“.[125] Sænsku viðmælendur Sandgren sögðu að með því að forðast margmenni væru þeir að koma í veg fyrir að þeir misbeittu talröddinni en það getur haft neikvæð áhrif á söngröddina.[126]
Viðmælendur mínir tala í meginatriðum um það sama, en það er að sofa fram eftir á frumsýningardegi og gæta þess að hafa helst ekkert fyrir stafni fram að frumsýningu. Þeir vakna í rólegheitum, fá sér vel að borða, fara yfir texta, stöður og tónlist í huganum. Einnig leggjast þeir í bað eða fara í langa sturtu, íhuga eða biðja og vekja svo upp líkamann með léttum æfingum eða göngu.
Bænir og þakklæti
Ekki þurfa allir á íhugun og andlegum æfingum að halda til að ná andlegu jafnvægi. Sú leið sem Ingveldur Ýr fer er að biðja áður en hún fer á svið og hún er þá að biðja um vernd og styrk. Þakklæti og jákvæð hugsun er einnig nauðsynleg að hennar mati. En til þess að forðast neikvæðnina sem oft er allt í kring, segir Ingveldur að það eina sem dugi sé hreinlega að forðast neikvætt umhverfi eða fólk. Hún segir:
Almenn jákvæðni finnst mér skipta máli. Að halda jafnvægi og ljósinu þá þarf maður að vera þakklátur, að byrja daginn á að þakka fyrir. Maður getur alltaf fundið eitthvað sem er að, en maður þarf að vera þakklátur og standa með sjálfum sér samt sem áður.[127]
Ingveldur notar sannarlega aðrar aðferðir til viðbótar við bænina. Hún stundar líkamsrækt og notar jurtir og aðrar hjálækningar til að halda jafnvægi á líkamlegri heilsu og stuðla þar með að góðri raddheilsu og þess vegna getur bænin hjálpað henni. Hún segir:
Ég held þetta sé spurning um reynslu, að maður viti að maður getur þetta, byggi á reynslunni og treysti, treysti sjálfri mér og trúi að allt verði í lagi. Þess vegna bið ég áður en ég fer á svið, þá er ég að biðja um vernd.[128]
Gunnar tekur í sama streng og segist hafa lært að senda jákvæða strauma frá sér því þá fái hann eitthvað jákvætt til baka. Fyrir honum er þakklætið einnig mikilvægt, þakklætið fyrir það góða í einkalífinu og þakklætið fyrir að fá að takast á við krefjandi hlutverk. Hann segir svona frá breyttu hugarfari:
Með jákvæðum hugsunarhætti komst ég í gegnum erfiðleika því ég sannfærði sjálfan mig um að ég gæti þetta. Ég finn þó oft til óöryggis og þarf að vinna mig upp til að trúa á mig og treysta að allt verði í lagi.[129]
Ein þeirra sem leituðu í trúna var langamma mín. Hún var vön að biðja Guð um að gefa sér styrk til að breyta því sem hún gæti breytt og til að sætta sig við það sem hún gæti ekki breytt. Þetta er hin svokallaða AA-bæn.[130] Óperusöngvari einn skrifaði einmitt þessa sömu bæn til Guðs á Facebook-síðu sína um daginn en þessi söngvari hefur átt í samstarfserfiðleikum við hljómsveitarstjóra. Ég efast ekki um að söngvarinn hafi virkilega verið að biðja Guð um þennan styrk þó að einhverjum kunni að virðast skrýtið að biðja á Facebook. O’Connor segir einmitt frá því að eyðnismitaðir noti þessa sömu bæn til að biðja um styrk til að samþykkja stöðu sína með reisn.[131] Óperusöngvari sem verður til dæmis að klæðast ljótum búningi eða syngja aríu í tempói sem honum ekki líkar verður að hafa vit á því að sumum hlutum fær maður ekki breytt og verður einmitt að sætta sig við stöðu sína og gera það besta úr henni. Bjarni Thor segir að stundum verði söngvarar að muna að þeir eru ráðnir til að syngja ákveðið hlutverk og leikstjórinn til að leikstýra og jafnvel þótt söngvarinn sé ekki sáttur verði bara að hafa það.[132]
Traustið er söngvurum mikilvægt. Það er mikils virði að treysta því að allt verði í lagi og að reynslan og kunnáttan skili því að maður verði sjálfum sér til sóma. Enn á ný blandast saman andleg líðan og líkamleg en eins og áður hefur komið fram missir söngvari sem á í erfiðleikum með röddina fljótt sjálfstraustið. Ef sjálfstraustið fer forgörðum er hins vegar erfitt að treysta og trúa.
Ótti
Þegar söngvari sannfærir sjálfan sig um að allt verði í lagi er hann á einhvern hátt að meðhöndla ótta. Óperusöngvari hefur margt að óttast. Man ég textann? Kem ég inn á réttum stöðum? Tekst mér að vera „í karakter“ allan tímann? Er röddin í nógu góðu formi? Hef ég orku til að takast á við óvæntar uppákomur á sviðinu? Skyldi mér mistakast og ætli áhorfendum líki við mig? Þar fyrir utan eru allir hræddir við óttann því óttinn fylgir okkur öllum og við erum hrædd um að óttinn taki völdin af okkur. Sverrir talar á áhugaverðan hátt um óttann:
Það er svo mikilvægt einhvern veginn bara að, ekki endilega ná tökum á óttanum, það er frekar að geta verið með honum þannig að maður þarf ekki að berjast á móti honum því þá er maður bara kominn í vandræði. Að geta einhvern veginn tekið við honum og áttað sig á því að hann er þarna bara og þýðir ekkert að ýta honum frá, hann verður þarna og ég held bara að óttinn við það að gleyma texta, muna ekki lagið eða … en það er samt já, það er samt eitthvað spennandi við það að geta tekist á við það og þegar á hólminn er komið að gefa þannig eftir að maður geti farið inn í það sem maður hefur verið að undirbúa.[133]
Eins og Sandgren bendir á þá virkar einmitt mótsagnakennt að óperusöngvarar skuli óttast það sem þeir kunna best, það er að syngja og leika á sviði. Það er þó hugsanlegt að óttinn stafi af því að söngvarar geri miklar kröfur til sín og óttist því að gera mistök. Sandgren bendir einnig á að ótti sé andlegt ástand sem dragi úr mætti söngvara og geti birst rétt fyrir sýningu eða á meðan á henni stendur. Hún segir að ef söngvari ráði ekki við óttann geti það orðið til þess að hann hætti jafnvel að geta starfað sem söngvari.[134] Niðurstöður úr rannsókn Sandgren sýndu að sviðsótti tengist röddinni og andlegu jafnvægi söngvarans en er ekki beint ótti við að standa á sviði.[135] Eitt af því sem söngvarar hafa áhyggjur af er að vegna kvefs eða annarra líkamlegra kvilla geti þeir ekki gert sitt besta. Án söngvara er auðvitað engin óperusýning og því hvílir gífurleg ábyrgð á óperusöngvurum og ekki óeðlilegt að þessari ábyrgð fylgi streita.[136]
Þýsku sálfræðingarnir Susanne Gorges, Georg W. Alpers og Paul Pauli rannsökuðu tengsl sviðsótta og félagsfælni. Þau komust að því að þeir sem teljast vera haldnir sviðsótta eru oft hræddir við neikvæð viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda en eru ekki félagsfælnir að öðru leyti. Einnig bentu niðurstöðurnar til þess að þeir sem þjáðust af sviðsótta væru þeir sömu og væru haldnir fullkomnunaráráttu.[137] Á sviði eru söngvarar meðvitaðir um að þeir eru berskjaldaðir og dæmdir af áhorfendum sem láta það í ljós hvort þeim líkar söngurinn eða ekki, segir Sandgren í doktorsritgerð sinni.[138] Eins og Sólrún bendir á, þá þarf söngvari sem stígur á svið þrátt fyrir allt á ákveðinni taugaspennu að halda. Hann þarf hins vegar að kunna að beisla spennuna eða óttann og nýta hann sér í vil. Þannig þarf óttinn að umbreytast í nokkurs konar tilhlökkun eða spennu sem söngvarinn hefur samt vald á.[139] Til að hafa þess konar vald þarf söngvarinn að vita að hann geti treyst æðri máttarvöldum, sjálfum sér, söngtækninni og öllum fyrirbyggjandi aðferðunum sem hann hefur notað. Þannig tengist valdið yfir óttanum og raddheilsan órjúfanlegum böndum en sá sem ekki getur treyst rödd sinni á það á hættu að missa tökin og þá tekur óttinn völdin.[140]
Viðmælendur mínir, til dæmis Ingveldur Ýr, virðast vinna gegn óttanum með líkamsrækt, íhugun, bænum og andlegum æfingum.[141] Sandgren komst hins vegar að því í sinni rannsókn að hennar viðmælendur, sænskir óperusöngvarar, huguðu fyrst og fremst að líkamlegri heilsu. Viðmælendur hennar virtust telja að með því að halda líkamlegri heilsu í jafnvægi gætu þeir forðast ótta við mistök, raddleysi eða að áhorfendum líkaði ekki söngur þeirra.[142] Viðmælendur mínir virðast hins vegar tengja raddheilsu við jafnvægi á líkama og sál og virðast þannig ná að umbreyta óttanum á jákvæðan hátt. Hugsanlegt er að vegna persónulegra tengsla við viðmælendur mína hafi þeir verið opnari um andleg málefni en viðmælendur Sandgren. Úrtak Sandgren var stærra og auk viðtala sendi hún út spurningalista[143] en ópersónulegri rannsóknaraðferð og stærra úrtak gæti valdið því að sænsku söngvararnir minnast ekki á að þeir noti hugarorku eða andlegar æfingar.
Það var Sólrún sem komst svo skemmtilega að orði þegar hún sagði að flestar manneskjur væru með óttann í farteskinu en hún væri sannfærð um að óttinn væri dýrmætur. Hún segir: „Ef við hugsum um óttann sem bundna orku sem þú nærð að nýta er óttinn fjársjóður.“[144]
Hún hafði lent í radderfiðleikum vegna ofnæmis sem hún hafði fyrir ákveðinni tegund farða. Þessar efasemdir um að röddin yrði í lagi, enda þótt lausn hefði fundist og annars konar farði væri notaður, varð til þess að óttinn magnaðist. Það sem bjargaði Sólrúnu voru orð vinar hennar sem hafði sagt henni frá aðferðum til að breyta óttanum í jákvæða orku.[145] Sólrún bætir einni óttasögu við:
Ég fer inn í þennan ótta. Ég læt hann gjörsamlega ná valdi á mér, heltaka mig. Þegar ég kem svo út á sviðið þá er þetta orðin svo mikil orka að ég skein alveg bara á sýningunni. Og þetta var svo mikil sönnun fyrir mér, hvað maður getur transpónerað orkunni. [146]
Gunnar segir að óttinn sé tilfinning sem við höfum öll kynnst og þurfum að læra að lifa með. Þeir sem þurfi að tala, spila eða syngja opinberlega finni sumir fyrir því að óttinn taki völdin og þá geti viðkomandi ekki sýnt hvað í honum býr. Eftir situr aðeins gremja og reiði. Ef sá hinn sami reynir ekki að læra af reynslunni er viðbúið að óttinn verði enn sterkari næst þegar stigið er á svið.[147] Dylan Savage píanóleikari og greinahöfundur hefur skrifað um aðferð sem þróuð var til að hjálpa tónlistarmönnum að takast á við óttann. Aðferðin byggist á því að tónlistarmaðurinn lærir að komast í ákveðið hugarástand til að nýta óttann sér í vil. Þetta hugarástand hafa ýmsir afreksíþróttamenn þróað með sér. Upphafsmaður aðferðarinnar, Don Greene íþróttasálfræðingur, var sannfærður um að sama aðferð gæti reynst tónlistarmönnum vel. Í greininni er haft eftir Greene að hann sé þess fullviss að ástæða þess að tónlistarmenn endist í sínu erfiða starfi sé sú að þeir læri að komast í hugarástand sem breytir ótta í jákvæða orku.[148] Viðmælendur mínir sem hafa náð að umbreyta óttanum og nota hann sér í vil vita hvað átt er við. Eins og Sólrún segir þá er orkan sem söngvarinn býr yfir þegar óttinn verður að jákvæðri orku svo mögnuð að viðkomandi er óstöðvandi.[149]
Ef við ákveðum að óttinn sé fjársjóður get ég ímyndað mér að við höfum náð ansi góðu valdi á einhverjum þeirra andlegu aðferða sem ég hef fjallað um hér að framan. Ef óttinn er vinur okkar sem hjálpar okkur gegnum erfiðar sýningar þá hljóta traustið og trúin sannarlega að vera til staðar.
Samantekt
Ótti við raddleysi, neikvæða gagnrýni og óvæntar uppákomur er tilfinning sem óperusöngvarar verða að læra að lifa með. Þegar fólk hefur söngnám hugsar það yfirleitt aðeins um að læra að syngja en margir halda að góð söngrödd sé allt sem óperusöngvari þurfi. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að söngvarar læri að hafa stjórn á þeim þáttum sem geta komið röddinni í ójafnvægi. Oft virðist óljóst hvort andlegt ójafnvægi kom á undan eða í kjölfarið á líkamlegum kvillum, svo sem kvefi, bakflæðiskasti eða þurri slímhúð. Andlegt ójafnvægi getur orðið til þess að einhver þessara líkamlegu kvilla láti á sér kræla en að sama skapi getur slæmt kvef orðið til þess að söngvari kemst í andlegt ójafnvægi. Það er alveg sama hvernig á málið er litið, ef rödd óperusöngvara er óstarfhæf þarf hann að kunna að beita ráðum sem virka þannig að röddin verði aftur eins og best verður á kosið. Allar þær andlegu aðferðir sem ég hef fjallað um hér að framan eru til þess fallnar að stuðla að andlegu jafnvægi söngvarans sem síðan hefur áhrif á líkamlega líðan hans en ekki síst hljóðfærið hans, röddina. Ef til vill miðla söngvarar síður fróðleik um aðferðir sínar til að halda andlegu jafnvægi en aðferðirnar sem þeir beita gegn líkamlegum kvillum. Þó má gera ráð fyrir að með aukinni umræðu um andleg málefni í fjölmiðlum og þeim fjölda sjálfshjálparbóka sem á boðstólum eru opnist þessi umræða enn frekar meðal óperusöngvara. Fræðimenn virðast að minnsta kosti áhugasamir um orsakir ótta meðal söngvara og hvernig megi læra að lifa með óttanum, því eins og Sólrún benti á þá getur óttinn verið fjársjóður.
Starfsgreinahefðir óperusöngvara
Nú hef ég fjallað ítarlega um þær aðferðir sem viðmælendur mínir sögðu mér frá í viðtölum í október og nóvember 2009. Söngvararnir nota hjálækningar til að halda andlegri og líkamlegri heilsu í jafnvægi en það telja þeir nauðsynlegt til að viðhalda góðri raddheilsu. Fyrir hinn almenna lesanda eru sumar þessara aðferða ef til vill ólíkar þeim óhefðbundnu lækningaaðferðum sem margir nota í daglegu lífi en aðrar eru vel þekktar. Hjá söngvara er það röddin sem verður fyrst og fremst að vera í jafnvægi en til að það takist þarf líkamleg og andleg heilsa einnig að vera í jafnvægi. Þannig tengist öll líðan söngvarans hljóðfærinu hans, röddinni. Streita og ótti hefur til dæmis þurrkandi áhrif á slímhúðina sem veldur því að röddin verður ekki jafn tær og geta hæstu tónar raddsviðsins þá jafnvel horfið.[150] Ef röddin svíkur söngvarann eykst streitan og óttinn svo að ónæmiskerfið verður veikara og þá er meiri hætta á kvefi eða öðrum líkamlegum kvillum sem geta komið söngvaranum í óstarfhæft ástand.[151] Það er því ekki að undra að söngvarar reyni að halda jafnvægi með andlegum og líkamlegum æfingum, mataræði og óhefðbundnum aðferðum sem stuðla að góðri almennri heilsu.
Í þessum kafla ritgerðarinnar ætla ég að sýna fram á að um starfsgreinahefðir sé að ræða þegar söngvarar nota hjálækningar og segja öðrum frá aðferðum sínum. Ég bendi einnig á að með starfsgreinahefðum séu óperusöngvarar að skilgreina sig sem hóp.
Hefðir
Hjálækningar söngvara og frásagnir þeirra af aðferðum svo og reynslusagnir söngvara ganga munnlega innan hópsins. Þessar aðferðir og ýmislegt í tengslum við þær er algengt umræðuefni meðal óperusöngvara og þess vegna er um starfsgreinahefð að ræða. Í bókinni Folkloristics: An Introduction kynna þeir Robert Georges og Michael Owen Jones hinar ýmsu tegundir þjóðfræðaefnis og skilgreina meðal annars starfsgreinahefð. Þar segir að hefðir sem ákveðinn starfsgreinahópur hafi en tilheyri ekki öðrum starfsgreinum geti talist starfsgreinahefð.[152]
Eins og viðmælendur mínir sögðu mér hafa þeir lært aðferðir sínar hjá samstarfsfólki, vinum og söngkennurum. Ef söngvari er að berjast við einhvers konar kvilla eru kollegarnir ósparir á ráð og þannig safnast reynsla hópsins saman. Robert McCarl, sem fjallar um starfsgreinahefðir í fjórða kafla bókarinnar Folk Groups and Folklore Genres, segir að frásagnir og reynslusagnir (e. personal experience narrative) fólks gefi öðrum innan hópsins færi á að bera saman sína reynslu og reynslu annarra.[153] Ungur, óreyndur söngvari sem til dæmis heyrir reyndan söngvara segja frá reynslu sinni af ótta fræðist um aðferðir til að lifa með þessum fylgifiski sviðslistamanna. Gunnar sagði mér svona frá sinni upplifun af ótta:
Þú lætur óttann ekki ná tökum, þú notar óttann til að ná takmarkinu, óttinn er hvatning til að ná settu marki og hann er eldur sem kveikir í öllu. Óttinn er kveikja að því að ég hugsa: ég get þetta, ég ætla að sýna mér og öllum að ég get þetta. Segi það upphátt við mig, ég get þetta, ég get þetta, ég er frábær! Þannig sendi ég út skilaboð að ég geti þetta og verði frábær. Óttinn við að mistakast veldur því að ég held áfram að vinna. Óttinn er mjög sterkt afl en þú verður samt að vera algjörlega óttalaus á sviðinu, þú ert ekki hræddur á sviðinu. Hann er bara heima á meðan þú ferð á svið og þú finnur bara smá seyðing í maganum. Öll hlutverkin sem þú ert að gera þurfa að vera vinir þínir og óttinn líka. [154]
Þessi frásögn Gunnars gæti opnað augu unga söngvarans fyrir því að óttinn hverfur ekki með tímanum heldur verður söngvarinn að læra að lifa með honum. Söngvari sem hins vegar býr yfir reynslu og hlustar á slíka sögu gæti svarað með eigin reynslusögn og borið þannig sína reynslu saman við reynslu Gunnars. Ein ástæða þess að söngvarar deila reynslusögnum gæti verið uppsöfnuð spenna en samkvæmt Timothy Tangherlini losnar um spennu þegar fólk segir öðrum frá reynslu sinni. Þessa spennu sem tengist starfinu getur viðkomandi ekki losnað við nema með því að segja öðrum innan hópsins frá.[155] Enda þótt Tangherlini fjalli um sjúkraflutningamenn og starfsgreinahefðir þeirra í bók sinni, Talking Trauma: Paramedics and their Stories, og sjúkraflutningamenn verði án efa oft fyrir erfiðri reynslu í starfi, þá á þessi spennulosunarkenning hans ekki síður við óperusöngvara. Óperusöngvarar verða oft fyrir reynslu sem þeir tala ekki um í fjölskylduboðum vegna þess að reynslan tengist starfinu sem er ólíkt starfi flestra. Ein sögn Sólrúnar sem getið var um í síðasta kafla er gott dæmi um reynslusögn sem henni fannst nauðsynlegt að deila með vini innan atvinnugeirans:
Ég lenti einu sinni í því að ég var að syngja í Turandot, hana Liu. Þetta var hræðileg uppfærsla. Í fyrsta lagi lágum við á gólfinu með andlitið niður að rykugu sviðinu meira og minna í gegnum alla sýninguna og fengum ekki að fara út, það er ekki tilviljun að söngvarar þurfa að fara út af sviðinu og fá vatn að drekka. Svo vorum við með hvítt meik og ég var með svo mikið ofnæmi fyrir þessu meiki og vissi það ekki, svo í hvert skipti þá hvarf röddin mín. Þannig að þegar ég er að fara að syngja aríuna mína, þá er engin rödd. Þetta veldur því að þú missir fótanna, þú veist ekki, hva er ég svona léleg eða get ég ekki sungið þetta eða? Það fara svona allskonar analíseringar af stað af því að ég var til dæmis ekki búin að átta mig á þessu meiki… Svo fer ég aftur að syngja Liu og ég fæ þær [sminkurnar] til að breyta meikinu og þá segja þær mér að sú sem söng Turandot hafi líka verið með ofnæmi fyrir þessu meiki.[156]
Söngvari sem heyrir þessa frásögn Sólrúnar fær að vita að leikhúsfarði getur orsakað ofnæmi sem veldur því að röddin hverfur. Þannig hefur reynslusögn upplýsingagildi en getur einnig orðið til þess að annar söngvari segir reynslusögn um raddmissi sem getur virkað spennulosandi fyrir viðkomandi en fræðandi fyrir þá sem á hlýða. Enda þótt upplifun óperusöngvara tengist ekki slysum og alvarlegum veikindum eins og hjá sjúkraflutningamönnum, þá er ekki síður nauðsynlegt fyrir söngvara að segja frá reynslu sinni. Þessi reynslusögn Sólrúnar fjallar um mjög alvarlegt mál fyrir söngvara, nefnilega þegar röddin svíkur og efasemdir og ótti læðast að honum. Reynsla söngvara hefur með þeirra ástríðu, sönginn, að gera og því skyldi engan furða þótt þeir losi um spennu með því að segja frá þessari reynslu í sínum hópi. Það er hins vegar ljóst að frásögn af raddleysi og ótta ætti ekki upp á pallborðið hjá öðrum en þeim sem skilja þá angist sem raddleysi veldur. Hún fangar auðveldlega áhuga annarra söngvara yfir málsverði eftir sýningu en síður áhuga vandamanna í jólaboðum.
Flestir söngvarar nota í meginatriðum sömu eða svipaðar aðferðir. Hjálækningar stuðla allar að líkamlegu og andlegu jafnvægi sem þarf að vera til staðar svo röddin fái sín notið. Þó svo að sumar þessara aðferða séu öðrum hópum fólks kunnugar, svo sem hvítlauks- og sólhattsnotkun, þá má samt sem áður líta á þessar aðferðir sem starfsgreinahefð og ekki síður hvernig aðferðunum er miðlað. Það ber þó að hafa í huga að enda þótt flestir viðmælendur mínir noti hjálækningar og umgangist aðra söngvara sem gera slíkt hið sama, þá má alltaf finna undantekningar. Hugsanlegt er til dæmis að raddbönd bassasöngvara séu ekki jafn viðkvæm og hljóðfæri hærri radda svo sem sóprana og tenóra. Að minnsta kosti virðast hjálækningar ekki stundaðar í sama mæli af dekkri röddum.[157]
Rannsóknir á starfsgreinahefðum hafa verið eitt af viðfangsefnum þjóðfræðinga í gegnum tíðina. McCarl hefur til dæmis skoðað starfsgreinahefðir út frá sérstöku orðfæri sem ákveðnar stéttir nota og eru ekki hluti af venjulegu talmáli fólks. Læknar, hjúkrunarfólk og iðnaðarmenn nota til dæmis orð og orðasambönd sem fólk utan þeirra stétta skilur ekki endilega eða notar í það minnsta ekki. Besta dæmið um þetta meðal söngvara er þegar söngvarar segja toj,toj,toj hver við annan fyrir sýningar. Þar sem allar óskir um velgengni eru bannaðar í leikhúsi, samkvæmt gamalli hjátrú, er þetta sagt í staðinn og því meint sem ósk um velgengni.[158] Þá falla siðir ákveðinna starfsstétta varðandi fataval, svo sem hinir svokölluðu flugfreyjuskór, vel að skilgreiningu á starfsgreinahefðum. Flestir hafa svo heyrt brandara um heimsku tenóra og víóluleikara en brandarar eru einn flokkur starfsgreinahefða svo og vinnustaðahrekkir.[159] Þó svo að hrekkir séu ekki áberandi meðal óperusöngvara þá eru um það dæmi að á sýningum eigi sér stað eitthvert sprell. Gunnar sagði mér til dæmis eina sögu af hrekk á óperusviði:
Þegar ég var í söngnámi var ég einn vetur meðlimur í Þjóðleikhúskórnum og tók þátt í sýningu á Grímudansleiknum. Þetta var fyrir eitthvað tuttugu og fjórum árum síðan. Á síðustu sýningu var hefð fyrir því að kórinn gerði eitthvað smá grín og upp kom sú hugmynd að hrella nú Kristján Jóhannsson sem hafði oft snúið sér að kórnum með rassinn út í sal og grett sig, rekið út úr sér tunguna framan í kórinn og fleira til að stríða þeim. Okkur í kórnum fannst því kjörið að stríða honum aðeins. Í einni senu átti bróðir minn sem söng lítið hlutverk dómara, að afhenda honum bréf um norn sem hann vildi láta dæma óvíga en Kristján, sem söng kónginn, tók ákærunni með hálfkæringi og hló að uppástungum dómarans. Á þessari síðustu sýningu höfðum við hins vegar sett svæsna klámmynd inn í bréfið og þegar dómarinn söng textann sinn, að hún væri hræðileg norn og að hún væri handbendi djöfulsins engdist auðvitað Kristján sundur og saman af hlátri … en að sjálfsögðu var enginn skaði af þessu, hann átti jú að taka þessu létt og fékk meira að segja hól frá Sveini Einars, leikstjóra á eftir, sem hafði fylgst með úti í sal án þess að hafa hugmynd um ástæðuna fyrir þessum sérstaka léttleika Kristjáns.[160]
Svona hrekkir eru yfirleitt gerðir á lokasýningu og þá mega söngvarar búast við óvæntum uppákomum.[161]
Ákveðnar aðferðir sem ætlaðar eru til að ná frama í starfi geta einnig verið dæmi um starfsgreinahefðir. Nærtækasta dæmið eru aðferðir sem óperusöngvarar beita áður en þeir stíga á svið, svo sem bænir og jógaæfingar, en þessum aðferðum er beitt til að hámarksárangur náist.[162] Starfsgreinahefðir óperusöngvara tengjast þó enn fremur þeim aðferðum sem þeir beita til að halda jafnvægi og svo frásögnum söngvaranna af þessum aðferðum og hvernig þær hafa bjargað þeim úr klóm ótta, kvefs eða bakflæðis. Þessar aðferðir stuðla svo að einhverju leyti að frama þeirra í starfi.
Þjóðfræðingar sem rannsaka starfsgreinahefðir telja best að vera á vettvangi til að fylgjast með.[163] Dæmi um þetta er þegar nýgræðingar eru sendir eftir plankastrekkjara eða þegar söngvarar sem syngja í jarðarför segja brandara rétt fyrir söng á næsta sálmi.[164] Ég hef sannarlega verið stödd á æfingum þar sem söngvarar skiptast á ráðum og reynslusögnum og því kannski ómeðvitað verið að rannsaka starfsgreinahefðir óperusöngvara í áratugi. Starfsgreinahefðir söngvara einkennast annars vegar af því sem þeir gera til að halda jafnvægi og hins vegar hvernig þeir segja frá þessu. Ráðleggingum þeirra fylgja yfirleitt persónulegar reynslusagnir eða sögur sem þeir hafa heyrt aðra söngvara segja af sjálfum sér eða öðrum.[165] Ekki er þó eingöngu um munnlega hefð að ræða því með sívaxandi netnotkun hefur þjóðfræðaefni fengið nýjan vettvang. Þjóðfræðaefni sem miðlað er um þennan nýja miðil kallar Robert Glenn Howard e-lore í stað folklore. Þessi nýi miðill þjóðfræðaefnis fæst þó að miklu leyti við það sama og munnlega hefðin og miðlar til dæmis bröndurum, reynslusögnum og flökkusögnum. Helsti munurinn á „e-lore“ og „folklore“ er sá að efninu er miðlað í gegnum netið en ekki augliti til auglitis eins og venjan er með þjóðfræðaefni.[166]
Á netsamskiptasíðunni Facebook má oftar en ekki sjá umræður um hinar ýmsu aðferðir hjálækninga. Söngvarar sem hafa áhyggjur af heilsunni vita að með því að tilkynna það á Facebook fá þeir ógrynnin öll af ráðum. Kollegarnir sem flestir hafa verið í sömu sporum senda þá annaðhvort ráðleggingar eða loforð um að senda viðkomandi góða andlega strauma. Hópurinn veit auðvitað að söngvarar sem eiga við vandamál að stríða, sem gæti komið niður á röddinni, þurfa á góðum ráðum og andlegum stuðningi að halda.
Þann 13. desember skrifaði vinur okkar Gunnars, Peteris Eglitis,[167] eftirfarandi á Facebooksíðu sína: „[168]Seriously??Geez … That sucks! You can do it!!!“[169] Og þá skrifaði Gunnar: „I think he´s ordering Bronchitus to stay down with his powerful strength of mind … successfully of course!!!!“[170] Vinur okkar hafði verið að berjast við bronkítis en ætlaði að syngja hlutverk Jochanaan, í óperunni Salome eftir Strauss, þetta sama kvöld. Hann hefur væntanlega losað spennu með þessari tilkynningu á Facebook enda örugguglega með áhyggjur af frammistöðu sinni. Vinir hans, Gunnar og fleiri, hvöttu hann áfram með þeim orðum að hann gæti þetta með sinni sterku hugarorku. Svar barst svo síðar um kvöldið frá Peteris: „good boy good boy … one of the best performances yet!“.[171] Peteris fékk í gegnum Facebook stuðning frá vinum sínum og kollegum og þetta er gott dæmi um hvatningarorð vegna veikinda eða ótta sem ganga á milli söngvara á þessum nýja þjóðfræðamiðli.
Hópurinn skilgreindur
Hjálækningar og frásagnir af raddleysi, ótta og erfiðleikum í starfi eru oft umfjöllunarefni í hópi söngvara. Reynslusagnirnar sem ég fékk að heyra hjá viðmælendum mínum höfðu greinilega verið sagðar áður, enda slípaðar og oft á tíðum með spennandi og meitlaða uppbyggingu. Reynslusagnir söngvara fjalla um eitthvað sem þeim stafar ógn af og tengist röddinni. Raddleysissögur og frásagnir af því hvernig söngvararnir sigruðust á ótta, bakflæði, ofnæmi og ofþreytu eru þeirra sögur. Ógn annarra hópa tengist yfirleitt ekki raddvanda heldur annars konar ógnvöldum. Tangherlini fjallar til dæmis um sagnahefðir á meðal Dana í grein sinni „From Trolls to Turks“. Þar kemur meðal annars fram að áður fyrr fjölluðu sagnir í Danmörku um ógn sem fólk taldi stafa af tröllum og yfirnáttúrulegum verum. Þessar verur voru ekki hluti af hópnum heldur „hinir“. Í dag eru þessir „hinir“ í sögnum gjarnan útlendingar, geðsjúkir eða eiturlyfjasjúklingar eða þeir sem okkur stafar ógn af á einhvern hátt.[172] Hlutverk starfsgreinahefða er einmitt að einhverju leyti að greina okkur frá hinum og skilgreina þannig hópinn. Með ákveðnu umræðuefni og frásögnum eru óperusöngvarar að aðgreina sig, jafnvel á sínum eigin vinnustað. Hljóðfæraleikarar eða skrifstofufólk óperuhúsa eru vissulega samstarfsfólk óperusöngvara en tilheyra engu að síður ekki þeirra þrönga hópi. Reynslusagnir og ráðleggingar svo og hjálækningar eru meðal annars það sem aðgreinir hóp óperusöngvara frá öðrum hópum. Reynslusagnirnar eru ekki síst leið til að miðla mikilvægri þekkingu, um meðhöndlun ofnæmis, kvefs, ótta eða bakflæðis, á milli aðila innan hópsins. Þannig verða reynslusagnirnar og ráðleggingarnar til þess að söngvarar læra nýjar aðferðir og verða víðsýnni. Ef Gunnar hefði til dæmis ekki tjáð sig um bakflæðisvandamál sitt hefði hann ekki heyrt af því hve jákvæð áhrif regnálmur hefur á bakflæði svo og slímhúðina en Gunnar hefur sagt mörgum söngvurum frá frábærum áhrifum regnálms.
Samantekt
Flestir kannast við einhverjar starfsgreinahefðir af sínum vinnustað. Öll tilheyrum við fleiri en einum hópi sem afmarkar sig frá öðrum með ákveðnum talsmáta, bröndurum, fatnaði eða háttalagi. Hver fjölskylda hefur sínar sameiginlegu minningar, sögur og orðalag og þannig myndar hver fjölskylda hóp. Fjölskyldumeðlimir geta svo tilheyrt öðrum hópum hvort sem er á vinnustöðum, í skólum eða vinahópum. Óperusöngvarar mynda þess konar hóp, hóp sem ræðir saman um ýmislegt sem tengist söng. Stór hópur söngvara stundar svo ýmiss konar hjálækningar. Þeir sem það gera gefa öðrum gjarnan góð ráð og segja reynslusögur af sjálfum sér og öðrum. Þetta eru starfsgreinahefðir þessa tiltekna hóps óperusöngvara og með þessum hefðum er hópurinn afmarkaður. Reynslusagnir og ráðleggingar söngvara valda því að sífellt fleiri virðast nýta sér hjálækningar, að minnsta kosti meðfram hefðbundnum lækningum. Reynslusagnirnar virka svo einnig spennulosandi fyrir þá sem þær segja og verða til þess að aðrir segja sína sögu. Þannig styrkist hópurinn en vandamálin, líkamlegir og andlegir kvillar sem hafa áhrif á röddina, eru sameiginleg vandamál hópsins. Söngvarar finna að með því að segja öðrum sögu sína og heyra reynslusagnir annarra geta þeir borið sjálfa sig saman við aðra í hópnum. Þannig getur aðilum innan hópsins orðið ljóst að þeir eru ekki þeir einu sem eiga við vandamál að stríða ef þurrt er í veðri eða biðja til Guðs áður en þeir stíga á svið. Af reynslusögnum annarra má læra að meðhöndla þá kvilla sem kunna að hrjá söngvara og þannig berast mikilvægar upplýsingar um aðferðir hjálækninga innan hópsins. Stutt orðsending á Facebook getur svo orðið til þess að söngvari fréttir af nýjum aðferðum sem hann jafnvel prófar. Markmið reynslusagna og ráðlegginga sem söngvarar gefa öðrum er alltaf að reyna að finna jafnvægið milli líkamlegrar og andlegrar heilsu svo að röddin fái að blómstra og þar með söngvarinn.
Lokaorð
Gunnari hef ég fylgt í gegnum tuttugu ára starfsferil hans sem lýrískur tenór. Ég fylgdist með hans fyrstu skrefum á óperusviði hér á Íslandi svo og erlendis og hef farið í gegnum tímabil velgengni sem og vonbrigða með honum. Ég veit því af eigin raun hve lítið má út af bregða til að fótunum sé kippt undan söngvara. Ég veit hversu hvetjandi söngtími hjá góðum kennara getur verið og hve niðurdrepandi kvef á röngum tíma hins vegar er. Ég veit hve hvetjandi það er að syngja undir stjórn frábærra stjórnenda og hve niðurdrepandi það er að vinna með stjórnendum sem ekki búa yfir náðargáfu á tónlistarsviðinu. Ég hef áttað mig á því í gegnum Gunnar hve slæm áhrif fúkkalyf hafa á líkamann og að betra sé að finna aðrar leiðir til að halda heilsunni í jafnvægi og ég hef komist að því hve neikvæð áhrif bakflæði hefur á röddina. Þá hef ég verið viðstödd þegar fagnaðarópum í Ríkisóperunni í Berlín ætlaði aldrei að linna eftir gullfallegan söng Gunnars, á frumsýningu á Don Giovanni, en líka þegar lýríska röddin sveik Gunnar og hann varð að læra að syngja að nýju. Það sem hefur komið honum í gegnum erfið tímabil eru að stórum hluta hjálækningar og andlegur kraftur. Hvítlaukur og hómópatískir dropar, tedrykkja og saltvatn hafa gefið von um að jafnvægi haldist á líkamlegri heilsu. Jákvæð hugsun, þakklæti og löngun til að standa aftur uppi sem sigurvegari hafa komið honum af stað aftur, í þetta sinn sem hetjutenór. Með jafnvægi á líkamlegri heilsu og andlegri hefur Gunnari ekki verið neitt að vanbúnaði til að takast á við nýja rödd, ný hlutverk og nýjar áskoranir.
Löngunin til að standa á sviði og syngja veldur því að viðmælendur mínir hafa lært að nota óhefðbundnar lækningaaðferðir. Löngunin er svo sterk að þó svo að þau viti öll hve slæm áhrif fúkkalyf og sterar hafa á þau þá hafa þau gripið til þessara lyfja ef allt um þrýtur. Með reynslunni hafa viðmælendur mínir lært hvernig koma má í veg fyrir líkamlega kvilla sem valda því að þeir geta ekki sungið og um leið forðast fúkkalyf og stera. Samskipti milli söngvara gera það að verkum að þeir víkka sjóndeildarhringinn og prófa aðferðir sem geta hugsanlega breytt heilsufari þeirra til frambúðar. Skolun með saltvatni er til að mynda orðin ákaflega vinsælt fyrirbæri meðal söngvara en viðmælendur mínir hafa frétt af ágæti Neti-pot í gegnum kollega sína og vini. Hulda Björk sagði Gunnari frá regnálmi gegn einkennum bakflæðis og Gunnar hefur ekki verið án þessarar frábæru jurtablöndu síðan. Hvítlauksgeira í nef notaði Demetz þegar hann söng á Ítalíu og sömu aðferð notar Gunnar í dag þegar mikið liggur við. Þannig ganga ráðleggingar milli söngvara. Krassandi sögur af raddleysi og hvernig söngvaranum tókst samt að syngja eru reynslusagnir þeirra. Reynslusagnir sem þessar eru ekki sagðar nema innan söngvarahóps. Fjölskylduboð og saumaklúbbar eru ekki vettvangur reynslusagna óperusöngvara, enda ólíklegt að nokkur mundi skilja þær, þar sem vandamál tengd röddinni eru ekki áberandi meðal annarra stétta en söngvara og leikara. Þegar söngvari segir öðrum söngvurum frá reynslu sinni er hann að vissu leyti að losa um spennu en hræðslan við óvæntar uppákomur svo sem kvef, bakflæðiskast eða ótta fylgir söngvurum alltaf. Um leið og söngvarinn losar spennu er hann að miðla fróðleik til annarra söngvara. Þá eru reynslusagnirnar liður í að söngvarar samsami sig hópnum og skynji að áhyggjur og vandamál söngvara eru öll af sama toga, eða tengd röddinni.
Viðmælendur mínir tilheyra hópi sem á sér óvini. Óvinirnir eru ekki tröll og huldufólk, skuggalegir náungar eða geimverur. Óvinirnir eru kvef og bakflæði, þurr slímhúð og ótti. Í stað þess að ráðast á óvinina með fúkkalyfjum og sterum nota þeir mildari aðferðir við að ná jafnvægi á líkama sínum, sálu og rödd. Náttúrulyf, jurtir, mataræði, saltvatn, jóga, íhugun, bænir og andlegar æfingar eru aðferðir viðmælenda minna. Allt eru þetta óhefðbundnar lækningaaðferðir en eins og áður hefur komið fram nota söngvarar einnig hefðbundnar aðferðir ef þurfa þykir.
Enda þótt reynslusagnir söngvara séu ólíkar reynslusögnum annarra hópa eru þær aðferðir sem söngvarar nota til að ná jafnvægi á líkamlegri og andlegri heilsu oft á tíðum ekki ólíkar aðferðum fólks almennt. Að gorgla saltvatni er til dæmis gamalt húsráð og hvítlauk, sólhatt og engiferrót nota flestir gegn kvefi. Andlegu aðferðirnar, svo sem hugleiðsla, bænir og andlegar æfingar eru einnig algengar meðal fólks úr öllum starfsgreinum. Þegar söngvari beitir þessum aðferðum er þeim hins vegar ætlað að styrkja líkamlegt og andlegt jafnvægi sem síðan stuðlar að raddlegu heilbrigði. Saltvatnið er notað til að styrkja slímhúðina en veik slímhúð veikir röddina. Kvef hefur einnig slæm áhrif á röddina og því nota söngvarar sólhatt, engifer og alls kyns dropa til að stöðva eða koma í veg fyrir kvef. Regnálmur og breyttar matar- og drykkjarvenjur hafa góð áhrif gegn bakflæði. Ótti, streita og þreyta hafa hins vegar þau áhrif að ónæmiskerfið veikist og þar með hættan á þessum líkamlegu kvillum sem hafa áhrif á röddina. Þess vegna eru aðferðir sem hjálpa söngvurum að lifa með ótta og umbreyta honum í jákvæða orku nauðsynlegar. Þá eru jógaæfingar og íhugun heppileg aðferð til að ná tökum á streitu og enn fremur svefn og hvíld til að vinna megi gegn þreytu eftir æfingatímabil eða ferðalög.
Það sem verður fyrst og fremst að vera í lagi hjá söngvara er röddin. Þegar söngvari vaknar að morgni sýningardags hummar hann gjarnan eða syngur nokkra tóna. Söngvarinn gerir svo allt eftir kúnstarinnar reglum þann daginn svo jafnvægi megi haldast á röddinni en með því forðast hann áhyggjur af frammistöðu sinni. Ef líkamleg heilsa er góð, kvef ekki til staðar, slímhúðin í jafnvægi og bakflæði haldið í skefjum veit söngvarinn að hann mun geta sungið vel. Til að fullvissa sig um að svo verði hvílir hann sig á sýningardegi, borðar ákveðnar fæðutegundir en sleppir öðrum og drekkur vatn og te í réttu magni. Á þess konar degi er gott að vera söngvari. Þegar hins vegar þurrkur í veðri veldur því að slímhúðin er þurrari en æskilegt getur talist, örlítið kvef lætur á sér kræla eða tafir á flugsamgöngum valda því að söngvarinn verður að fljúga á sýningardegi, þarf hann að grípa til aðgerða. Söngvari þarf að sofa vel þegar líkamlegir kvillar hrjá hann og röddina og nota auk þess öll þau hjálækningaráð sem ég hef fjallað um í kaflanum um líkamlega heilsu og röddina. Söngvarinn þarf einnig að huga að andlegu jafnvægi sínu undir slíkum kringumstæðum, ekki síst þegar þreyta og streita hrjáir hann. Andlegu jafnvægi má ná með hugleiðslu, verndandi æfingum, bænum og jákvæðri hugsun og þessar aðferðir er hægt að stunda hvar sem er, jafnvel í flugvél. Af viðmælendum mínum að dæma virðast flestir passa upp á að andlegt jafnvægi haldist vegna þess að ójafnvægi á því sviði getur haft áhrif á röddina. Þannig má vera ljóst að viðmælendur mínir tengja raddheilsu sína við líkamlega og andlega heilsu.
Söngvarar nota í raun sömu aðferðir við að fást við ótta og líkamlega og andlega kvilla. Með því að fyrirbyggja líkamlega kvilla með hjálækningum af ýmsum toga eru þeir að koma í veg fyrir ótta við kvef, bakflæði eða aðra kvilla. Með því að halda andlegu jafnvægi og temja sér aðferðir til þess eru þeir um leið að takast á við ótta. Óttinn hverfur ekki, hann er undirliggjandi og lætur á sér kræla ef eitthvað fer úrskeiðis. Þegar það gerist þarf söngvarinn að geta treyst öllum þeim aðferðum sem hann beitir til að halda jafnvægi en þannig getur hann jafnframt treyst því að hann geti þrátt fyrir allt sungið.
Nú þegar ég hef velt fyrir mér bakflæði, slímhúðarþurrki og ótta hef ég áttað mig á því að ég þjáist af bakflæði, slímhúð mín er oft þurr og því hnerra ég þegar þurrt er í veðri. Óttinn við að þessi ritgerð verði ekki nógu góð hefur einnig verið til staðar. Þó hef ég eins og óperusöngvari náð að bægja óttanum frá mér, ég hef talið mér trú um að ég geti þetta eins og aðrir og auk þess veit ég að ég hef unnið vel. Ég hef einnig áttað mig á því hvaða fæðutegundir mér ber að forðast vegna bakflæðis og á jólagjafalista mínum var Neti-pot, en með daglegri nefskolun er ég sannfærð um að slímhúðin mín verður jafn heilbrigð og slímhúð Sólrúnar. Hægt væri að halda því fram að söngvarar gætu orðið taugaveiklaðir og fái jafnvel líkamlega kvilla ef þeir vita af öllum þeim vandamálum sem geta haft áhrif á röddina. Hins vegar er röddin einfaldlega svo viðkvæmt hljóðfæri og starfið svo krefjandi að ólíklegt er að söngvarar finni ekki stundum fyrir einhverjum veikleikum sem gera þá hrædda um að frammistaða þeirra verði ekki nógu góð. Af þessari ástæðu eru reynslusagnir og ráðleggingar samsöngvara hreinasti fjársjóður en af þeim má læra að koma í veg fyrir og meðhöndla líkamlega jafnt og andlega kvilla og þar með vernda röddina.
Á meðan ég hef setið við ritgerðarskrifin hef ég haft nýjan geisladisk Ceciliu Bartoli í tækinu. Á diskinum, sem heitir Sacrificium, syngur Bartoli tónlist sem geldingar sungu áður fyrr. Viðmælendur mínir sækjast eftir fallegri og tærri rödd og nota þess vegna óhefðbundnar lækningaaðferðir. Það var þessi sama ástríða, falleg og tær rödd, sem var ástæða þess að drengjum var fórnað fyrir sönggyðjuna. Geldingin gerði það að verkum að hljómur radda þeirra varð einstakur þegar vel tókst til. Aðferðir óperusöngvara sem stuðla að því að röddin verði tær og falleg hafa sama takmark, að þjóna sönggyðjunni og halda söngröddinni eins tærri og fallegri og mögulegt er.
Heimildaskrá
Viðtöl
Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í vörslu höfundar.
Viðtal við Bjarna Thor Kristinsson, 28. október 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í vörslu höfundar.
Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í þremur hlutum, a, b og c, í vörslu höfundar.
Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 29. desember 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í vörslu höfundar.
Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í tveimur hlutum, a og b, í vörslu höfundar.
Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í vörslu höfundar.
Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í tveimur hlutum, a og b, í vörslu höfundar.
Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, Ólöf Breiðfjörð. Viðtal í vörslu höfundar.
Útgefnar heimildir
Alver, Bente Gullveig og Selberg, Torunn. Det er mer mellom himmel og jord: Folks forståelse av virkeligheten ut fra forestillinger om sykdom og behandling. Bergen: Etno-Folkloristik Institutt-Universitetet i Bergen, 1990.
Cammarota, G; Masala, G. og fleiri. Reflux Symptoms in Professional Opera Choristers. Gastroenterology, 2007; 132. 890-898.
Georges, Robert A. og Jones, Michael Owens. Folkloristics: An Introduction. Bloomington og Indianapolis: Indiana University Press, 1995.
Gorges, Susanne, Alpers, Georg W. og Pauli, Paul. Musical Performance Anxiety as a Form of Social Anxiety?. International Symposium on Performance Science, 2007.
Howard, Robert Glenn. Electronic Hybritity: The Persistent Processes of the Vernacular Web. Journal of American Folklore 121, 2008. 192-218.
LaPine, Peter R. The Relationship between the Physical Aspects of Voice Production and Optimal Vocal Health. Music Educators Journal, 2008. 24-29.
Ley, Robert G og Freeman, Richard J. Imagery, Cerebral Laterality, and the Healing Process. Í Imagination and Healing: Imagery and Human Development Series. Sheikh, Anees A. (ritstj.). Farmingdale, N.Y.: Baywood Publishing Company, 1984. 51-63.
McCarl, Robert. Occupational Folklore. Í Folk Groups and Folklore Genres: An Introduction. Oring, Elliott (ritstj.). Logan, Utah: Utah State University Press, 1986. 71-89.
O’Connor, Bonnie Blair. Healing Traditions: Alternative Medicine and the Health Professions. University of Pennsylvania Press: Philadelphia, 1995.
O’Connor, Bonnie Blair og Hufford, David J. Understanding Folk Medicine. Í Healing Logics: Culture and Medicine in Modern Health Belief Systems. Brady, Erica (ritstj.). Logan, Utah: Utah State University Press, 2001. 13-33.
Sandgren, Maria. Becoming and Being an Opera Singer: Health, Personality, and Skills. Doktorsritgerð í sálfræði við Stokkhólmsháskóla, 2005.
Sandgren, Maria. Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers. Í riti Escom-ráðstefnu. Louhivuori, Eerola ofl. (ritstj.). Jyväskylä, Finnland, 2009. 468-473.
Savage, Dylan. The Answer to Performance Anxiety: Don Greene. The American Music Teacher, 58, 2009. 26-29.
Tangherlini, Timothy R. From Trolls to Turks: Continuity and Change in Danish Legend Tradition. Scandinavian Studies 67, 1995. 32-61.
Tangherlini, Timothy R. Talking Trauma: Paramedics and their Stories. Jackson: University Press of Mississippi, 1998. 215.
Welham, Nathan V. og Maclagan, Margaret A. Vocal Fatigue: Current Knowledge and Future Directions. Journal of Voice; 17, 2003. 21-30.
Williams, N.R. Occupational Groups at Risk of Voice Disorder: A Review of the Literature. Occupational Medicine, 2003; 53. 456-460.
Netheimildir
Facebook-síða Peteris Eglitis. Síðast skoðað 11. janúar 2010.
Til gamans um blóðgjöf: http://www.angelfire.com/ca/instituteofscience/hemo.html.
Síðast skoðað 27. desember 2009.
Um GSE: http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=639.
Síðast skoðað 28. desember 2009.
Um hjálækningar gegn kvefi: http://www.naturheilbund.de/images/projekte/kinder/6.pdf.
Síðast skoðað 27. desember 2009.
Um hlanddrykkju: http://www.skepdic.com/urine.html. Síðast skoðað 29. desember 2009.
Um hvítlauk og engifer: http://archives.chennaionline.com/food/healthandnutrition/ginger.asp.
Síðast skoðað 7. janúar 2010.
Um Japanisches Heilpflanzenöl: http://de.wikipedia.org/wiki/Japanisches_Heilpflanzen%C3%B6l.
Síðast skoðað 7. janúar 2010.
Um regnálm: http://www.umm.edu/altmed/articles/slippery-elm-000274.htm.
Síðast skoðað 27. desember 2009.
Um sólhatt: http://www.umm.edu/altmed/articles/echinacea-000239.htm.
Síðast skoðað 27. desember 2009.
Pomfret, Emma. The Stressed-out Opera Singers: The Pressure on Opera Singers to Become Brands Risks Creating an Industry of Pill-Popping Stressballs, 2009. http://entertainment.timesonline.co.uk/tol/arts_and_entertainment/stage/opera/article3127330.ece. Síðast skoðað 28. desember 2009.
Æðruleysisbænin: http://www.al-anon.is/alanon/slagordin/aedruleysisbaenin/.
Síðast skoðað 11. janúar 2010.
Þakkir
Leiðbeinenda mínum, Valdimari Tr. Hafstein, þakka ég hvatningu, góðar leiðbeiningar og yfirlestur en ekki síst að hafa stungið að mér þeirri hugmynd að rannsaka hjálækningar óperusöngvara.
Viðmælendum mínum, Sverri Guðjónssyni, Huldu Björk Garðarsdóttur, Sólrúnu Bragadóttur, Gunnari Guðbjörnssyni, Ingveldi Ýr Jónsdóttur, Bjarna Thor Kristinssyni og Ágústi Ólafssyni þakka ég opinská viðtöl og að gefa mér af tíma sínum en einnig að leyfa mér að nafngreina sig í ritgerðinni.
Rögnu Gestsdóttur þakka ég samfylgdina og stuðninginn. Það var ánægjulegt og spennulosandi að geta rætt við Rögnu um áhyggjur og gleði í gegnum rannsóknar- og ritunarferlið.
Foreldrum mínum þakka ég hjálpsemina og stuðninginn, sérstaklega þegar Gunnar var fjarverandi.
Sonum mínum, Ragnari Núma, Jökli Sindra og Ívari Glóa, þakka ég tillitssemi og skilning. Ragnari fyrir lánið á herberginu sínu, Jökli fyrir að vera duglegur að æfa sig sjálfur á fiðluna og Glóa fyrir dugnað við húsverkin.
Gunnari, manninum mínum, þakka ég fyrir stuðninginn, yfirlestur og þolinmæði gagnvart mér. Ekki síst að hann skyldi sjá um heimilishaldið í desember, baka smákökur og elda góðan mat þegar ég mest þurfti á því að halda.
Sigrúnu Árnadóttur þakka ég innilega prófarkalesturinn og góðar ábendingar.
[1] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 4a.
[2] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 469.
[3] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 5b.
[4] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1a.
[5] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 468.
[6] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur 7. október 2009, 3a.
[7] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[8] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 10.
[9] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1a.
[10] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 2.
[11] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxitey Among Opera Singers, 468.
[12] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 2.
[13] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1a.
[14] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[15] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 8b.
[16] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1a.
[17] LaPine, The Relationship between the Physical Aspects of Voice Production and Optimal Vocal Health, 27.
[18] Sjá meira á: http://en.wikipedia.org/wiki/Neti_pot
[19] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 2.
[20] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 4a.
[21] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 2.
[22] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 4a.
[23] Sjá á: http://www.naturheilbund.de/images/projekte/kinder/6.pdf
[24] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 3.
[25] LaPine, The Relationship between the Physical Aspects of Voice Production and Optima Vocal Health, 27.
[26] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 1b.
[27] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 7b.
[28] LaPine, The Relationship between the Physical Aspects of Voice Production and Optima Vocal Health, 27.
[29] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 3b.
[30] Ley og Freeman, Imagery, Cerebral Laterality, and the Healing Process, 51.
[31] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 470.
[32] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 11.
[33] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 5a.
[34] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 5a.
[35] O’Connor, Healing Traditions, 126.
[36] Vincenzo Maria Demetz söngkennari og söngvari frá Suður-Tírol (1912-2006).
[37] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[38] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[39] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 1 og Sólrúnu Bragadóttur 21. október 2009, 1b.
[40] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[41] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[42] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 10.
[43] Um engifer og hvítlauk: http://archives.chennaionline.com/food/healthandnutrition/ginger.asp
[44] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 13 og Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 3b.
[45] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 1.
[46] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 5.
[47] Alkemist, te framleitt af Sverri Guðjónssyni.
[48] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 3a.
[49] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 10.
[50] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 14.
[51] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 5.
[52] Um sólhatt: http://www.umm.edu/altmed/articles/echinacea-000239.htm
[53] O’Connor, Healing Traditions,125.
[54] Viðtal við Bjarna Thor Kristinsson, 28. október 2009, 1.
[55] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1a.
[56] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 12.
[57] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 12.
[58] Um Japanisches Heilpflanzenöl: http://de.wikipedia.org/wiki/Japanisches_Heilpflanzen%C3%B6l
[59] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2a.
[60] O’Connor og Hufford, Understanding Folk Medicine, 26.
[61] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 4.
[62] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 4.
[63] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 5.
[64] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 1b.
[65] Caruso, How to Sing, 19.
[66] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 5.
[67] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 3a.
[68] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 4b og um GSE: http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=639.
[69] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 12. nóvember 2009, 1.
[70] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 5b.
[71] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 2.
[72] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 12.
[73] O’Connor, Healing Traditions,42.
[74] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 8b.
[75] LaPine, The Relationship between the Physical Aspects of Voice Production and Optimal Vocal Health, 27.
[76] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2b.
[77] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1b
og til gamans um eigin-blóðgjöf : http://www.angelfire.com/ca/instituteofscience/hemo.html.
[78] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1b og til gamans um hlanddrykkju: http://www.skepdic.com/urine.html.
[79] Einar Thoroddsen er háls, nef- og eyrnalæknir sem hefur sérhæft sig í meðhöndlun á óperusöngvurum.
[80] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 6b.
[81] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 3b.
[82] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 5b.
[83] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 7a.
[84] The Stressed-out Opera Singer:
http://entertainment.timesonline.co.uk/tol/arts_and_entertainment/stage/opera/article3127330.ece
[85] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 2.
[86] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 12. nóvember 2009, 2.
[87] Cammarota, Masala ofl. Reflux Symptoms in Professional Opera Choristers, 890-7.
[88] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 1.
[89] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 3.
[90] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 12. nóvember 2009, 1 og meira um regnálm: http://www.umm.edu/altmed/articles/slippery-elm-000274.htm.
[91] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 3.
[92] Welham og Maclagan, Vocal Fatigue: Current Knowledge and Future Directions, 28.
[93] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 4a.
[94] Sandgren, Becoming and being an Opera Singer, 44-5.
[95] Hufford og O’Connor, Understanding Folk Medicine, 19. Á frummáli: ”Most folk healing systems assume a complex interconnectedness of body, mind, and spirit“.
[96] Alver og Selberg, Det er mer mellom himmel og jord, 356
[97] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 3a.
[98] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety among Opera Singers, 469.
[99] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 6a.
[100] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 3a.
[101] O’Connor, Healing Traditions, 133.
[102] O’Connor, Healing Traditions, 136.
[103] Sandgren, Becoming and Being an Opera Singer, 34.
[104] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 5a.
[105] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 5a.
[106] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 5a.
[107] O’Connor, Healing Traditions, 138.
[108] Alver og Selberg, Det er mer mellom himmel og jord, 355.
[109] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 8.
[110] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 8.
[111] Alver og Selberg, Det er mer melleom himmel og jord, 91-2.
[112] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 4a.
[113] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 2a.
[114] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 2a.
[115] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 2a.
[116] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 468.
[117] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 2.
[118] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 2.
[119] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 2.
[120] O’Connor, Healing Traditions,134.
[121] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 4c.
[122] Viðtal við Ágúst Ólafsson, 26. nóvember 2009, 3.
[123] Caruso, How to Sing, 49.
[124] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 7.
[125] Viðtal við Huldu Björk Garðarsdóttur, 7. október 2009, 9b.
[126] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 478.
[127] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 4.
[128] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 4.
[129] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 4a.
[130] Sjá æðruleysisbæn á: www.al-alnon.is
[131] O’Connor, Healing Traditions, 139.
[132] Viðtal við Bjarna Thor Kristinsson, 27. október 2009, 4.
[133] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 8.
[134] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 468.
[135] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 472.
[136] Sandgren, Becoming and Being an Opera Singer, 66.
[137] Gorges, Alpers ofl, Musical performance anxiety as a form of social anxiety?, 67-71.
[138] Sandgren, Becoming and Being an Opera Singer, 66.
[139] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 7a.
[140] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 3.
[141] Viðtal við Ingveldi Ýr Jónsdóttur, 10. nóvember 2009, 3.
[142] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 469.
[143] Sandgren, Health Anxiety Instead of Performance Anxiety Among Opera Singers, 471-2.
[144] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 7a.
[145] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 8a.
[146] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 8a.
[147] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 4a.
[148] Savage, The Answer to Performance Anxiety, 26.
[149] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 8a.
[150] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 1b.
[151] Viðtal við Sverri Guðjónsson, 1. október 2009, 5.
[152] Georges og Jones, Folkloristics: An Introduction, 171.
[153] McCarl, Occupational Folklore, 81.
[154] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 5b.
[155] Tangherlini, Talking Trauma, 215.
[156] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 8a.
[157] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 3c.
[158] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 2c.
[159] McCarl, Occupational Folklore, 71.
[160] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 29. desember 2009, 1.
[161] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 29. desember 2009, 1.
[162] Viðtal við Sólrúnu Bragadóttur, 21. október 2009, 8a.
[163] McCarl, Occupational Folklore, 72-3.
[164] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1c.
[165] Viðtal við Gunnar Guðbjörnsson, 5. nóvember 2009, 1c.
[166] Howard, Electronic Hybritity, 193.
[167] Peteris Eglitis er söngvari frá Lettlandi sem starfar með Gunnari í óperunni í Freiburg.
[168] Af Facebook-síðu Peteris Eglitis, íslensk þýðing: „Jochanaan kl. 19.30. Bronkítis! Niður, niður strákur, sestu, vertu kyrr og ekki hreyfa þig.“
[169] Af Facebook-síðu Peteris Eglitis, íslensk þýðing: „Í alvöru, jiii, það er ömurlegt, þú getur þetta!!!“
[170] Af Facebook-síðu Peteris Eglitis, íslensk þýðing: „Ég held hann sé að segja Bronkítus að halda sér niðri með hans sterka hugarafli … með góðum árangri auðvitað!!!“
[171] Af Facebook-síðu Peteris Eglitis, íslensk þýðing: „Góður strákur, góður strákur. Ein af bestu sýningunum til þessa!“
[172] Tangherlini, From Trolls to Turks, 32.