„Hjá Händel í Brook stræti“ er yfirskrift tónleika kammerhópsins Nordic Affect innan Tíbrár tónleikaraðarinnar í Salnum þriðjudaginn 2. febrúar kl. 20. Á tónleikunum verður tónleikagestum boðið á ímyndaða tónleika að heimili Händels í Brook stræti í London en tónskáldið bjó þar frá árinu 1723 allt fram til dauðadags. Hann æfði iðulega með söngvurum sínum í tónlistarherbergi heimilisins en einnig bauð hann góðvinum sínum til tónleika þar. Á efnisskrá eru verk eftir meistarann sjálfan ásamt tónsmíðum eftir samtímamenn hans og keppinauta, þá De Fesch, Roseingrave, Stanley og Arne. Flytjendur Nordic Affect að þessu sinni eru Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, Hanna Loftsdóttir, sellóleikari og Guðrún Óskarsdóttir, semballeikari og söngvari á tónleikunum er Marta Guðrún Halldórsdóttir, sópransöngkona.