Sunnudaginn 20. febrúar kl. 20 flytur Gradualekór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar Krýningarmessuna KV 317 eftir Wolfgang Amadeus Mozart í nýrri útsetningu kórstjórans fyrir stúlknakór. Fimmtán manna hljómsveit leikur með. Konsertmeistari er Ísak Ríkharðsson
Einsöngvararnir eru allir utan einn fyrrverandi „Grallarar“ og í söngnámi á framhaldsstigum.
Kristín Einarsdóttir Mäntylä sópran, Arnheiður Eiríksdóttir alt, Eggert Reginn Kjartansson tenór og Andri Björn Róbertsson bassi
Á efnisskránni eru einnig önnur verk m.a. Ave Maria eftir Eyþór Stefánsson og Stabat mater eftir Pergolesi en bæði verkin eru í nýrri hljómsveitarútsetningu kórstjórans. Einnig þrjú lög úr myndinni Les Choristes eftir Bruno Coulais.
Aðgangseyrir kr. 2.500 / 2.000
Grunnskólanemar: kr. 1000
Mozart var 23 ára er hann sneri aftur til Salzburg eftir 18 mánaða dvöl í París og Mannheim. Hann fékk stöðu hirðorganista og tónskálds við dómkirkjuna í Salzburg. Hann lauk messunni 23. mars 1779 og var hún að öllum líkindum frumflutt á páskadag 4. apríl. Krýningarmessan öðlaðist strax mikla vinsældir og hafa þær haldist fram á þennan dag. Engin af sautján messum hans er jafn oft flutt.
Krýningarmessan var flutt af Kór Langholtskirkju og einsöngvurum við vígslu Langholtskirkju 16. september 1984. Hér er hún flutt í nýrri útsetningu kórstjórans fyrir stúlknakór en ekki er vitað til þess að það hafi verið gert áður.