Kristín R. og Hólmfríður í Söngsk. SSD 14. nóv. kl. 17

Sunnudagi nn 14.nóvember kl.17 verða haldnir tónleikar í sal Söngskóla Sigurðar Demetz, Skógarhlíð 10 (við hlið Krabbameinsfélagsins), 2. hæð, með yfirskriftinni "Just Julian III" þar sem flutt verða tónverk eftir Julian Hewlett, sem hefur búið og starfað á Íslandi sl. 22 ár, þ.á.m. ljóðaflokkur, sönglög og dúettar. Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir og Hólmfríður Jóhannesdóttir verða einsöngvarar.


Julian Michael Hewlett tónskáld/píanóleikari
lauk námi í tónlist og bókmenntum frá University of Kent í Centerbury á Englandi 1988.
 Aðalnámsgreinar hans voru tónsköpun og píanóleikur.

Julian flutti til Íslands sama ár og hóf kennslu við tónlistarskólann á Skagaströnd og á Blönduósi og síðar á Egilsstöðum. Hann starfaði einnig sem  organisti og stjórnandi ýmissa kóra bæði kirkjukóra og samkóra.

Í dag stjórnar hann þremur kórum:  Kvennakór Kópavogs, Karlakór Kópavogs og Barnakórnum Englaröddum. Hann hefur starfað sem tónlistarkennari, organisti, stjórnandi og meðleikari í Reykjavík. Sl. 11 ár hefur hann starfað sem undirleikari hjá Óperukórnum í Reykjavík.

Meðfram þessu öllu hefur Julian starfað sem tónskáld og gefið út bækur með eigin vekum, þar með orgelverk, píanóverk, kóraverk og hljómsveitarverk. Flutt hafa verið ýmis verk eftir hann t.d.Jólakantatan "Sjá himins opnast hlið" og 4 orgelsvítur.Tónlist hans hefur verið flutt í Kanada, Englandi og Íslandi. Julian spilar á ýmis hljóðfæri auk píanósins, s.s. orgel, fiðlu, selló og fl.
—————————————–

 Julian er fæddur í Kent á Englandi 1967. Hann hóf píanónám hjá móður sinni 3.ára og fór að semja tónlist mjög snemma. Hann lærði á fiðlu, orgel, selló og söng, og tók upp ýmis önnur hljóðfæri við komu sína til Íslands 1988.

 Julian útskrifaðist árið 1988 frá University of Kent með bókmenntanám og tónlist sem aðalnámsgrein, og lagði áherslu á tónsmíðar og "creative writing" (skapandi ritun), en samdi einnig fjölda laga og ljóða á þessum tíma.

Við komu sína til Skagastrandar 1988 fór hann að vinna sem ensku og tónlistarkennari, organisti, kórstjóri og undirleikari og hélt áfram að semja.

Árið 1994 fluttist hann til Egilsstaða og til Reykjavíkur árið 2000.
Hann hefur dvalið og starfað hér á landi í rúmlega 22 ár og starfað við tónlist allan þann tíma.

Sitthvað um verk hans:
Söngleikurinn Hósíanna var saminn árið 1995 fyrir Lærisveinakór Egilstaðakirkju þar sem hann starfaði sem organisti.
Verkið var frumflutt á Hvítasunnu í Egilsstaðakirkju. Viku seinna var verkið endurflutt á Seyðisfjarðarkirkju.
Söngleikurinn fjallar um spá, fæðingu, líf, dauða og endurreisn Jesú Krists.

Flautusónatan er samin í september 1990. Verkið er í þremur köflum: fyrsti langi kaflinn er þema og tilbrigði með mismunandi stíla allt frá klassískum til siðrómantískra.  Annar kaflinn er vögguljóð sem lýsir grátandi ungabarni að nóttu og árangurslítilli tilraun foreldris  til að svæfa það. En barnið sofnar loks. Þriðji kaflinn er í stíl skoskra dansa.
Verkið var frumflutt í Fríkirkjunni á Just Julian II tónleikum haustiið 2008.

Ljóðaflokkurinn „East and West“  samdi hann í okt-nóv 2006. Undirleikurinn í miðlaginu var reyndar saminn fyrir 10 árum og var upphaflega píanóverk. Verkið samanstendur af þremur lögum eins og er, en áætlunin er að semja 2 lög í viðbót. Natalía Chow þýddi kínversk ljóð yfir á ensku og eru þau öll um heimþrá. Natalía frumflutti lögin á tónleikunum sínum í Salnum febrúar 2007.

Euphóníumverkið er  sónata samin fyrir 3 málmblásturshljóðfæri í þrem þáttum .

„Móðurmálið“ var upphaflega jólalag, samið nóvember 1992 og er fyrsta lagið í sálmabókinni "Fagnar þú, sál mín". Karlakór Kópavogs frumflutti lagið sem er við texta Jóhannes úr Kötlum.

„Draumalandið“ er sönglag sem samið er í  september 1999 fyrir karlakór sem Julian stofnaði á Egilsstöðum. Kórinn frumflutti lagið vorið 2000. Lagið er skrifað fyrir karlakór með einsöng fyrir sópran, en síðan umskrifaði hann lagið fyrir blandaðan kór og flutti Samkór Kópavogs það vorið 2001.

„Óskar“lag“ samdi hann í nóvember 2007. Lagið var frumflutt desember 2007 af þeim þremur á jólatónleikum Kvennakórs og Karlakórs Kópavogs.

Ljóðaflokkurinn „Myndir“  samanstendur af 6 ljóðum Guðna Más Henningssonar úr ljóðabókinni „Ljóð handa“ og var samið árið 2005 fyrir sópran og píanó. Ljóðin eru í frjálsu formi og tónlistin endurspeglar það. Lögin eru tæknilega krefjandi með erfiðum tónbilum og takti.

Sonatina for 2 flutes er í raun og veru 3 rytmísk études (æfingar).

Sönglagið” I said a prayer”  er samið við ljóð eftir Söruh Grant í nóvember 2007.

“Ó Jesú barn” er dúett fyrir sópran, mezzósópran og píanó samið 2007 og var lagið frumflutt á jólatónleikum fyrir af tveim klassískum söngkonum sama árið í Reykjavík .

“Saman við stöndum” var samið samkvæmt beiðni Kvennakórs Kópavogs í tilefni af 5 ára afmæli kórsins 2007 við texta Jófríðar Guðmundsdóttur og frumflutti kórinn það á vortónleikunum sínum mars 2007.

“Move on” er sönglag við ljóð úr ljóðabók eftir Brendu Wilkinson sem lifði, starfaði og dó á Íslandi. Lagið er samið fyrir bassasöngvara, kór, píanó og horn, og tileinkaði  Julian Ian Wilkinson (eiginmanni Brendu) vini sínum, sem hann  frumflutti á Just Julian 1 tónleikum í mars 2006.

“Góða tungl” er samið í september 2001 fyrir Samkór Kópavogs sem hann stjórnaði á árunum 2000-2005 og frumflutti kórinn það vorið 2002. Lagið hafa Kvennakór Kópavogs og Karlakór Kópavogs flutt nokkrum sinnum þegar kórarnir héldu sameiginlega tónleika og er í miklu uppáhaldi hjá mörgum kórfélögum.

„Kæri Kópavogur“ var samið 2004 fyrir Samkór Kópavogs.
Árið 2004 varð Kópavogsbær 40 ára, og var lagið samið í því tilefni.

„O Father, all creating” er sálmur saminn árið 2003 við texta eftir John Ellerton . Kvennkór Kópavogs, Karlakór Kópavogs, Samkór Kópavogs, Xu Wen sópransöngkona og Natalía Chow frumfluttu lagið.