Jonas Kaufmann í Hörpu 21. maí kl. 17

Jonas Kaufmann syngur á Listahátíð með Sinfóníuhljómsveit Íslands í stóra sal Hörpu 21. maí kl. 17, svo lygilegt sem það er. Miðasala á tónleikana hefst í febrúar. Þessi skæra stjarna óperuheimsins hefur hlotið einróma lof fyrir flutning sinn í öllum helstu óperuhúsum heims. Kaufmann er fæddur í München í Þýskalandi árið 1969 og hóf feril sinn hjá Staatstheater Saarbrucken árið 1994 (getiði hver er þar núna? ÓKS). Síðan hefur hann sungið m.a. við Metropolitan-óperuna, Parísaróperuna, og við tónlistarhátíðirnar í Bayreuth og Salzburg. Nýverið hlaut hann mikið lof gagnrýnenda fyrir túlkun sína á Don José í Carmen og Cavaradossi í Toscu Puccinis í Covent Garden. Kaufmann er nú á hátindi ferils síns og er uppselt á tónleika hans og óperuuppfærslur með löngum fyrirvara. Hann hefur auk þess sungið inn á fjölda hljómdiska með óperuaríum og ljóðasöng, sem hafa verið tilnefndir til Gramophone- og BBC-tónlistarverðlaunanna.   
 
Rétt fyrir komu Kaufmanns á Listahátíð í vor kemur hann fram ásamt stjörnuliði stórsöngvara í Metropolitan-óperunni, í uppfærslu Roberts Lepage á öðrum hluta Niflungahrings Wagners, Valkyrjunum. Þar syngur hann meðal annars með gestum sem Íslendingum eru að góðu kunnir frá fyrri Listahátíðum: Bryn Terfel og Deborah Voigt, undir stjórn James Levine.
 
Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hörpu.

Pourquoi me réveiller úr Carmen er gott dæmi um hvers lags afburða söngvari Kaufmann er, röddin dökk svo að stundum minnir á barítón, en hæðin tindrandi og björt eins og trompett.

Fréttin á heimasíðu Listahátíðar