Ítalskar og franskar söngperlur á hádegistónleikum í Hafnarborg
þriðjudaginn 2. október
Egill Árni Pálsson tenór hefur tíunda starfsár tónleikaraðarinnar.
Egill Árni verður gestur á fyrstu hádegistónleikum vetrarins í Hafnarborg. Á tónleikunum flytur Egill Árni ítalskar og franskar söngperlur, meðal annars Quanto e bella úr Ástardrykknum eftir Donizetti, Pourquoi me reveiller úr Wetrher eftir Massenet og Blómaaríuna úr Carmen eftir Bizet. Þetta er tíunda starfsár hádegistónleikaraðar Hafnarborgar en tónleikarnir hafa frá upphafi notið mikilla vinsælda og verið ákaflega vel sóttir.
Egill Árni lauk 8. stigi frá Söngskólanum í Reykjavík þar sem kennari hans var Ólöf Kolbrún Harðardóttir.
Á sama tíma lauk hann einnig 4 ára námi frá David Jones Voice Studio í New York, þar sem hann lagði stund á raddþjálfun og kennslu í söng. Egill hefur verið búsettur í Þýskalandi síðan 2008 og stundað nám hjá einkakennurum samhliða því að starfa á vettvangi óperunnar. Egill hefur sungið víða og má þar helst nefna við Neuköllnar Óperuna í Berlín, Óperuhúsið í Braunschweig, Kammeróperuna í Schloss
Rheinsberg, Schloss Laubach Óperuna, K.W. Gedächtniskirkjuna, Hanns Eisler tónlistarháskólann og nú síðast við Gerhardt Hauptmann Óperuhúsið í Görlitz þar sem Egill hefur verið fastráðin til ársins 2012. Egill hefur unnið til margra verðlauna í stórum keppnum í Þýskalandi. Í kjölfarið hafa honum boðist ýmis verkefni eins og að syngja Das Lied von der Erde eftir Mahler á tvennum tónleikum í maí 2011 og taka þátt í Classic Open Air útitónleikahátíðinni í Berlín sumarið 2012.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru haldnir fysta þriðjudag í mánuði. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.