Ingveldur Ýr ásamt Garðari Thór í ÍÓ fimmt. 21. okt. kl. 20

 Söngleikhúsið Lífsins karnival verður fært á svið í Íslensku óperunni fimmtudagskvöldið 21. október kl. 20. Á tónleikunum mun söngkonan Ingveldur Ýr ásamt sérlegum gesti, Garðari Thór Cortes tenórsöngvara, flytja lög af nýútkomnum geisladiski Ingveldar Ýrar, Portrett, auk þess sem óvæntir leynigestir munu líta inn. Á diskinum er að finna þversnið af fjölbreyttum ferli Ingveldar Ýrar, þar sem heyra má söngleikjatónlist og dægurlög í bland við óperuaríur og klassísk sönglög í útsetningum Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. Flutt verða ýmis lög úr smiðju Kurt Weill, Leonard Bernstein, Andrew Lloyd Webber, Giuseppe Verdi og Francis Poulenc, Jóns Ásgeirssonar og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, svo dæmi séu nefnd, og mun Garðar Thór m.a. flytja lög úr Vesalingunum, Óperudraugnum og hinum nýfrumflutta söngleik Webbers, Love never dies. Hljóðfæraleikur er í höndum Antoníu Hevesi auk þess sem notast er við hljóðfæraleik af diskinum sjálfum, sem var í höndum Caput-hópsins.

Hér er um að ræða sannkallað söngleikhús þar sem leikhúsi og söng er tvinnað saman í skemmtilegri sýningu, sem leikstýrt er af Ágústu Skúladóttur.

Allar nánari upplýsingar, auk mynda, veitir Ingveldur Ýr í síma 898 0108.