Í Óðamansgarði, fyrsta færeyska óperan, var frumsýnd í Þórshöfn haustið 2006 og verður sett upp í nýrri sviðsetningu á Listahátíð í Reykjavík í samvinnu Þjóðleikhússins og Tjóðpallsins í Færeyjum, 22. og 23. maí kl. 20.
Verkið er eftir hið þekkta, færeyska tónskáld Sunleif Rasmussen, sem hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002. Óperan byggir á samnefndri smásögu Williams Heinesen úr smásagnasafninu Fjandinn hleypur í Gamalíel, sem Þorgeir Þorgeirson þýddi, og er íslenskt heiti sögunnar Garðurinn brjálæðingsins. Dánial Hoydal gerði líbrettóið.
Íslenskir og færeyskir listamenn taka þátt í sýningunni.
Söngvararnir eru þrír, allir íslenskir, Eyjólfur Eyjólfsson, tenór, Þóra Einarsdóttir, sópran og Bjarni Thor Kristinsson, bassi.
Tveir færeyskir leikarar flytja texta sem birtur verður á íslensku á skjá, þau Gunnvá Zachariasen og Hans Tórgarð.
Einnig koma tveir íslenskir dansarar fram í sýningunni, þau Frank Fannar Pedersen og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir.
Til gamans má geta þess að leikmyndahönnuður sýningarinnar er Elisa Heinesen, barnabarn Williams Heinesen.
Leikstjóri Ria Tórgarð, hljómsveitarstjóri Bernharður Wilkinson og danshöfundur Lára Stefánsdóttir. Tónlistarhópurinn Aldubáran, skipaður færeyskum og íslenskum tónlistarmönnum.
Miðasala hjá Þjóðleikhúsinu á leikhusid.is, midi.is eða í síma 551 1200
Hugmyndin að óperunni kviknaði árið 2001 þegar meðlimir tónlistarhópsins Aldubáran skoruðu á Sunleif Rasmussen að skrifa óperu. Hann tók áskoruninni og fékk Dánial Hoydal til þess að skrifa líbrettó. Ljóð- og myndræn saga Heinesen reyndist tilvalið efni í óperu. Sagan á sér hvorki tíma né rúm, heldur hverfist um brjálæðinginn ógurlega sem er einbúi. Helstu sögupersónurnar eru Marselius og Stella; par á unglingsaldri sem veltir því stöðugt fyrir sér hver sé saga brjálæðingsins. Býr hann yfir yfirnáttúrulegum mætti? Er hann yfirleitt til? Kjarninn í þessum spurningum, og svörunum við þeim, fær unga fólkið til þess að skoða sig sjálf og samband sitt í nýju ljósi.
Í sögunni fáum að fylgjast með frjóum huga unga parsins og þroska þeirra; hvernig þau horfast í augu við leyndardóma lífsins og ástina á sama tíma og þau feta sig eftir drungalegum og um leið heillandi garði brjálæðingsins.
Aldubáran skipa: Andrea Heindriksdóttir, flauta, Eydís Franzdóttir, óbó, Àrmann Helgason, klarinett, Christina Andersen, básúna, Stefán Jón Bernharðsson, franskt horn, Johan Hentze, trompet, Andras Olsen, básúna, Òlavur Jakobsen , gítar, Jóhannes Andreasen hljóðgervill (Hljómborð), Matias Siebeck, gítar, Sámal Petersen, fiðla, Jón Festirstein, fiðla, Angelika Nielsen lágfiðla, Tóri Restorff Jacobsen, selló, Agnar Lamhauge, kontrabassi.
Sýningin er tæpir 2 tímar án hlés.