Fimmtudaginn 7. október kl. 12 heldur Hulda Björk Garðarsdóttir tónleika í Hafnarborg ásamt Antoníu Hevesí. Ókeypis er á tónleikana og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Hulda Björk Garðarsdóttir sópran lauk einsöngvaraprófi Dip RAM frá The Royal Academy of Music í London árið 1998 eftir að hafa stundað nám við Hochschule der Künste í Berlín, Söngskólann í Reykjavík og við Tónlistarskóla Eyjafjarðar.
Hulda var í hópi fyrstu fastráðinna söngvara hjá Íslensku Óperunni árið 2003 og hefur verið þar tíður gestur síðan. Helstu hlutverk hennar á óperusviðinu eru m.a Governess í Tökin hert eftir Britten, Anne Trulove í Flagari í Framsókn eftir Stravinsky, Violetta Valery í La Traviata eftir Verdi, Súsanna í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, Micaela í Carmen eftir Bizet og Joanna í Sweeney Todd eftir Sondheim.
Hulda Björk hefur komið fram á fjölda tónleika utan og hér heima. Hún hefur sungið á ýmsum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveitinni Ísafold og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Þá hefur hún komið fram með helstu kórum landsins í verkum eins og Messías eftir Händel, Petite Solennelle eftir Rossini, Mozart Requiem og Brahms Requiem.
Þá hefur Hulda sungið inná geislaplöturnar Íslands minni – ljóð Jónasar Hallgrímssonar við lög Atla Heimis ásamt Fífilbrekkuhópnum, Elijah – eftir Mendelssohn með Kristni Sigmundssyni og Óperukórnum, Vorperla – ásamt Daníel Þorsteinssyni píanóleikara lög Garðars Karlssonar, Svanasöngur á heiði – ásamt Jónasi Ingimundarsyni með lögum Sigvalda Kaldalóns.