Hlín og Hrefna í Salnum lau. 28. apríl kl. 16

  Hlín Pétursdóttir sópran og Hrefna Eggertsdóttir píanóleikari halda tónleika í Salnum í Kópavogi laugardaginn 28. apríl kl. 16.  Á efnisskrá eru lög eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Sigurð Þórðarson, Árna Björnsson, Sigvalda Kaldalóns, Karl O Runólfsson, Richard Strauss, Wolfgang Rihm, Gabriel Fauré og Maurice Ravel.
Miðaverð 2.000 Kaupa miða 


UM TÓNLEIKANA: „Það er hálfgerð fjársjóðsleit að setja saman svona efnisskrá. Í samstarfi okkar Hrefnu hefur hún bent mér á margar perlur og þó eru það alltaf íslensku lögin sem koma mér mest á óvart, kannski vegna þess að ég held ég þekki þau svo vel, svo sýna þau mér eitthvað allt annað en ég bjóst við. Ný tónlist er mér afar hugleikin og mig hefur lengi langað að flytja verk Hjálmars. Wolfgang Rihm er eitt mikilvægasta óperutónskáld þjóðverja á seinni tímum og gaman að sjá hvernig hann fæst við smærra form í ljóðalögum sínum. Hin erlendu tónskáldin eru í mínum augum meistarar, (hver á sinn hátt/á sínu sviði,) sem alltaf má reiða sig á. Þeir mála í ólíkum litum og snerta okkur á mismunandi hátt, og virðast frekar taka fram fína penslinn en þann breiða og það er ljúft að láta sig falla í þeirra lita- og tónahaf.”

Hlín Pétursdóttir sópransöngkona ólst upp í Stokkseyrarhreppi og hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun í Tónlistarskóla Árnessýslu. Hún söng í Hamrahlíðarkórnum um árabil, stundaði söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Sieglinde Kahmann auk þess að sækja námskeið hjá Ileönu Cotrubas og Geoffrey Parsons. Að loknu einsöngvaraprófi fór hún til framhaldsnáms við Óperudeild Tónlistarháskólans í Hamborg. Hún söng sem gestur við óperuhúsin í Bern og Stuttgart 1994-1995 og lauk prófi sumarið 1995. Hún var fastráðin við Pfalztheater í Kaiserslautern í tvö ár, þá tók við samningur við Gärtnerplatztheater í München. Alls bjó Hlín í Þýskalandi um tólf ára skeið og kom fram í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Frakklandi. Hún hefur sungið sem gestur m.a. í Bremen, Kiel, Frankfurt, Bonn, Nürnberg, Augsburg, Ulm, Karlsruhe og Wiesbaden. Í Íslensku óperunni hefur hún sungið hlutverk Músettu í La Bohème og Clorindu í Öskubusku. Meðal annarra hlutverka hennar eru Adele í Leðurblökunni, Valencienne í Kátu ekkjunni, Zerlina í Don Giovanni, Blonde í Brottnáminu, Despina í Così fan tutte, 1. dama og Papagena í Töfraflautunni, Ólympía í Ævintýrum Hoffmanns, Frasquita í Carmen og Sophie í Rósariddaranum. Þá hefur Hlín tekið þátt í flutningi flestra stærri verka kirkjubókmenntanna auk þess að halda ljóðakvöld og syngja nútímatónlist.

Hrefna Eggertsdóttir píanóleikari nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan píanókennaraprófi vorið 1975 og einleikaraprófi á píanó ári síðar. Framhaldsnám í píanóleik stundaði hún við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Hrefna starfar nú sem kennari og píanóleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík