Hlín í African Sanctus í Grafarvogskirkju sunn. 15. maí kl. 20

 Sunnudaginn 15. maí kl 20 mun Kór Grafarvogskirkju standa fyrir flutningi á tónverkinu African Santus. Einsöngvari er Hlín Pétursdóttir.

Verkið er eftir breska tónskáldið og tónfræðinginn David Fanshaw. Stjórnandi tónleikanna er Hákon Leifsson, organismi Grafarvogskirkju.

 Verkið var samið árið 1972 við helstu liði hinnar klassísku messu kristinnar kirkju, þ.e. Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Benedictus, Pater Noster og Agnus Dei.

Á árunum 1969 til 1973 ferðaðist David Fanshaw til ýmissa landa í Norður Afríku. Með táknrænum hætti ferðaðist hann  milli Egyptalands, Rúanda, Úganda, Súdan og Kenía. Ferð hans formaði því kross ef litið var á hana með myndrænum hætti á landakorti. Á ferð sinni safnaði hann upptökum á segulband með helgisöngvum ýmissa trúarleiðtoga og trúarsamfélaga þessara landa. Þetta eru seiðmenn, múslimar, og upptökurnar eru teknar meðal annars við hjónavígslu og einnig við morgunbæn í turni múslima í Kaíró. David Fanshaw hefur tileinkað hvern þátt hinnar klassísku messu hverjum þessarra trúarleiðtoga og segulbandsupptöku þeirra.

David Fanshaw nær að flétta saman þessa fjarlægu heima með mjög smekkvísum hætti. Þannig verður til mjög skemmtilegt samspil á milli upptekinna hljóða og tóna úr Afríku og frumsaminnar tónlistar sem hér er flutt af fimm manna hljómsveit og  einsöngvaranum Hlín Pétursdóttur, sópran. Tónlistin er áhrifarík og sannarlega við allra hæfi þar sem David blandar saman ýmsum stíltegunum, þ.á.m . poppi og endurreisnartónlist.