Ítölsk stemning er í fyrirrúmi á Sinfóníutónleikunum í Háskólabíói föstudagskvöldið 22. maí kl. 19.30. Fjöldi tónskálda hefur leitað innblásturs í fagurri og sólríkri náttúru Ítalíu, m.a. Respighi sem lýsti Gosbrunnum Rómaborgar í stórfenglegu hljómsveitarverki, og Edward Elgar sem samdi In the South í vetrarleyfi á suður-Ítalíu.
Auk þess verða flutt tvö mögnuð söngverk sem tengast fornum rómverskum sögnum. Teseus átti tvær ástkonur, Aríönnu og Phaedru. Hina fyrri skildi hann eftir á eyðieyju, en sú síðari varð ástfangin af syni Teseusar og byrlaði sér eitur í örvæntingu sinni. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópransöngkona mun syngja kantöturnar Arianna a Naxos eftir Haydn og Phaedra eftir Britten, sem eru mögnuð tónverk.
Stjórnandi er Rumon Gamba og eru þetta síðustu tónleikarnir sem hann stjórnar á þessu starfsári.
Miðasala á www.midi.is, www.sinfonia.is, og í síma 545 2500.