Eyvi og Anna Guðný með Dichterliebe á Gljúfrasteini 16. ág. kl. 16

  

Sunnudaginn 16. ágúst kl. 16 munu Eyjólfur Eyjólfsson tenór og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari flytja ljóðabálkinn Dichterliebe / Ástir skáldsins op. 48 eftir Robert Schumann og Heinrich Heine á stofutónleikum að Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 500 krónur og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Hér að neðan er slóð þar sem hægt er að nálgast nánari upplýsingar um tónleikana:

Gljúfrasteinn

EYJÓLFUR EYJÓLFSSON lauk burtfararprófi í flautuleik og söng frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar vorið 2002. Hann lauk meistaragráðu (MMus) og Postgraduate Diploma frá Guilhdall School of Music and Drama í London sumarið 2005.

Eyjólfur hefur sungið með nafntoguðum hljómsveitum og píanóleikurum hér heima og erlendis, t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Konunglegu sinfóníuhljómsveitinni í Sevilla þar sem hann söng tenórhlutverkið í óratoríunni Messías eftir Händel í Maestranza óperuhúsinu. Þá flutti hann ljóðaflokkinn Malarastúlkuna fögru eftir Schubert á tónlistarhátínni Islande-Provence í Esparron de Verdon ásamt píanóleikaranum Dalton Baldwin og ljóðatónleika í Tónleikasal Gnessin Tónlistarakademíunnar í Moskvu þar sem Eugene Asti var meðleikari hans.

Eyjólfur hefur tekið virkan þátt í flutningi kirkjutónlistar bæði sem kór- og einsöngvari. Hann hefur komið fram á Sumartónleikum í Skálholti og Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju þar sem hann hefur meðal annarra hlutverka sungið Guðspjallamanninn í Jólaóratoríu J.S. Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Meðal þeirra hljómdiska sem Eyjólfur hefur sungið inn á má nefna Íslands minni sem hefur að geyma lög Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar í flutningi Fífilbrekkuhópsins sem gefinn var út í tilefni 200 ára afmælis þjóðskáldsins. Á síðasta ári kom út hljómdiskurinn Aldarblik í tilefni aldarafmælis Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem Eyjólfur flytur ásamt öðru hafnfirsku tónlistarfólki íslenskar einsöngsperlur.

 

ANNA GUÐNÝ GUÐMUNDSDÓTTIR er fædd í Reykjavík. Hún brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979 og stundaði Post Graduate-nám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum með sérstaka áherslu á kammertónlist og meðleik með söng. Helstu kennarar hennar voru Stefán Edelstein í Barnamúsíkskólanum; Hermína S. Kristjánsson, Jón Nordal og Margrét Eiríksdóttir í Tónlistarskólanum í Reykjavík og James Gibb og Gordon Back í Guildhall School of Music and Drama. Hún hefur starfað á Íslandi í yfir aldarfjórðung við margvísleg störf píanistans, aðallega í samleik ýmiss konar en einnig í einleikshlutverki.  Anna Guðný hefur verið píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur um langt árabil.  Hún hefur leikið inn á um þrjátíu geisladiska og plötur í samvinnu við ýmsa listamenn. Samstarf hennar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur sópransöngkonu, hefur staðið síðan á námsárunum í Lundúnum. Hún hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík og leikur reglulega innan raðar Tíbrár-tónleikanna í Salnum í Kópavogi.

Anna var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002. Hún kenndi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til 2005, en það haust var hún ráðin píanóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 sem flytjandi ársins og aftur árið 2009, en þá hlaut hún verðlaunin fyrir flutning sinn á verkinu "Tuttugu tillit til Jesúbarnsins" eftir Olivier Messiaen í september 2008. Geisladiskur með verðlaunaflutningi Önnu á Tuttugu tillitum til Jesúbarnsins er nýkominn út og hlaut hann fimm stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins.