Elífur og Úlfhildur, gamanópera eftir Jón Ásgeirsson verður flutt á vortónleikum Karlakórsins Fóstbræðra
í Langholtskirkju
þriðjudaginn 27. mars kl. 20
föstudaginn 30. mars kl. 20
laugardaginn 31. mars kl. 15
Einnig verða tónleikar í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði fimmtudaginn 29. mars kl. 20.
Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur hlutverk Úlfhildar, en Þorsteinn Guðnason kórfélagi syngur tenórhlutverkið, hlutverk prestsins. Hlutverk Elífs er þögult og hlutverk vinnukonu, sem Úlfhildur sendi að sækja prest, er lítið.
Jón lauk við Elíf og Úlfhildi árið 1999 en textann, sem er gamankvæði frá 18. öld, fann hann í bók Ólafs Davíðssonar og Jónas Árnasonar Íslenskum gátum og skemmtunum.
Elífur er gamall karl
siglir hann suður með sandi.
Heima situr Úlfhildur
og hún kann að rjóða randir.
Hún kann að rjóða rönd
og sjálf ber hún sín ástarbönd
meðan ekki er bóndinn heima.
Úlfhildur sendir eftir prestinum og ætlar að fá hann upp í til sín. Hann þiggur hjá henni mat og vín en þorir svo ekki neitt. Þegar hún er orðin hálfbrjáluð af reiði af að basla við hann kemur Elífur bóndi heim. Þá snýr hún við blaðinu og segir að presturinn hafi ásótt sig alla nóttina en hún varist hetjulega og af miklum krafti. Karlinn tekur sig til og lemur prestinn.