Conservatorium van Amsterdam – Hrafnhildur Árnadóttir

Hrafnhildur Árnadóttir segir okkur frá námi sínu í Conservatorium van Amsterdam:

„Ég  sótti um í konservatoríinu eftir að hafa lokið burtfararprófi (ABRSM diploma) frá Söngskólanum í Reykjavík, vorið 2009. Haustið 2009 hóf ég svo nám á fyrsta ári af fjórum í bachelor námi.

Umsóknarfresturinn rennur yfirleitt út 15. mars og inntökuprófin eru í byrjun júní.
Fyrir inntökupróf í bachelor námið á að undirbúa tvö lög og tvær aríur utan að, á mismunandi tungumálum og frá mismunandi tímabilum. Svo er fólk yfirleitt látið syngja tvö eða þrjú lög. (sjá nákvæmar uppl. á heimasíðu skólans).

Mér skilst að  söngkennararnir séu tregir til að taka fólk inn á 2., 3., eða 4. ár í bachelor náminu. Það er þá helst ef umsækjendur hafa lært annars staðar í Hollandi í svipuðu námsprógrammi. Annars er einnig möguleiki að komast að í undirbúningsnám í eitt eða tvö ár á undan bachelor. Sjálf veit ég lítið um hvernig það virkar að komast beint inn í mastersnám en mér þykir mjög líklegt þá þurfi maður að vera með bachelor próf fyrir.

Eins og stendur eru þrír söngkennarar í fullri stöðu við skólann og því komast ekki mjög margir inn á hverju ári. Sjálf læri ég hjá Valerie Guillorit og er mjög ánægð og hef einnig heyrt jákvæða hluti um Sösju Hunnego og Pierre Mak.
Allar upplýsingar um inntökuskilyrði og gögn sem þarf að senda með umsókn á að vera hægt að finna á heimasíðunni: http://www.english.conservatoriumvanamsterdam.nl/en/practical-matters/application-and-admission/
http://www.conservatoriumvanamsterdam.nl

Tekið er fram að maður þurfi að sýna fram á enskukunnáttu með því að senda niðurstöður úr TOEFL prófi (eða öðru sambærilegu). En ég er nokkuð viss um að starfsfólkið í skólanum þekki það af reynslu að Íslendingar tali yfirleitt góða ensku. Ég get ekki lofað því að maður sé öruggur með að sleppa þessu prófi – en ég sleppti því og lenti ekki í neinum vandræðum.
Svo talar allt starfsfólkið góða ensku og hægt er að setja sig í samband við það í gegnum tölvupóst eða síma ef spurningar vakna.
Kennararnir geta flestir vel kennt á ensku – og þar sem mikið erum alþjóðlega nemendur er skipt í hollenska og „enska“ hópa í aukagreinakennslunni.

Auk söngtíma og meðleikstíma er margt annað á stundatöflu söngnemenda:
Öndunartímar, mime (physical acting), leiklist, bekkjartími með eigin kennara, feldenkreis, alexandertækni, ítölskutímar, þýskutímar, tónheyrn, nótnalestur, píanótímar, lífsleikni, samsöngsþjálfun, hljómfræði og greining, kórtímar með kórstjóranemum. Eins og er er engin óperuvinna á bachelor stiginu fyrr en á þriðja ári – nema fólk taki upp á því sjálft að æfa dúetta, tríó eða slíkt til að syngja á nemendatónleikum t.d. Það er semsagt mikill tími sem fer í skólasókn – í fyrra og núna í ár er ég í tímum á hverjum degi.

Nemendatónleikarnir eru haldnir u.þ.b. einu sinni í mánuði, nemendur allra kennaranna í einu skrá sig á lista fyrir tónleika í hvert sinn ef þeir vilja syngja. Frammistaða á þessum tónleikum er hluti af heildar-ársmati kennaranna.

Á hverju vori er smá söngpróf þar sem söngkennararnir dæma sjálfir. Syngja þarf 2-4 lög og maður þarf að ná þessu prófi til að komast upp á næsta ár.

Annað í boði fyrir söngvara (sem hafa tíma þrátt fyrir allt þetta prógramm) eru masterklassar haldnir af utanaðkomandi kennurum, kammermúsík (ýmist í gegnum kammermúsík-kúrs fyrir nema á 2. ári og seinna eða einkaverkefni) og kórproject; ýmist stór verkefni sem eru í gangi í sérstökum verkefnavikum sem eru einu sinni á hvorri önn, eða verkefni sem skipulögð af nemendum, t.d. í lokaprófum eða sérverkefnum kórstjórnarnema. Að auki er hægt að setja sjálfur saman prógramm og sækja um að halda hádegistónleika í skólanum (frítt) eða stundum koma með styttra prógramm til að halda á blönduðum tónleikum sem maður sækir líka um.

Það er hægt að koma ansi miklu í verk ef maður hefur nægan tíma og orku í þetta allt saman – mikið af metnaðarfullum samnemendum og mjög mikið af góðum tónleikum innan skólans.

Utan skólans er svo auðvitað margt að gerast í tónlistarlífinu. Stúdentar (eða ungt fólk innan við 27 ára aldur) fá miða í Concertgebouw og óperuna á 10€.

Skólinn er í stórri og nýrri byggingu í miðbæ borgarinnar. Aðstaða er mjög góð og byggingin flott, frábært útsýni af 9. hæð! Allar deildir konservatorísins eru í þessu sama húsi sem gerir skólaandann enn frísklegri. Klassísk, popp og djass og allir eru vinir. Nema poppdeildin virkar svolítið töff klíka.

Um þessar mundir erum við 9 Íslendingar í skólanum (í jazz og klassík), og við Björk Níelsdóttir erum tvær í söngdeildinni. Að auki eru margir Íslendingar í námi og vinnu í Amsterdam og nágrenni.

Að lokum verð ég að minnast á borgina sjálfa. Amsterdam er einstaklega sjarmerandi borg, með síki og brýr, hugguleg hverfi og bátastemmningu, öll skökku húsin og öll hjólin. Hér er reyndar dýrt að lifa og mjög erfitt að finna almennilegt leiguhúsnæði. Þó er húsnæði í boði á vegum skólans en maður þarf að skrá sig á lista og bíða þolinmóður eftir slíku. Í nágrenni borgarinnar eru margir yndislegir bæir og fallegir staðir að koma á og að ekki sé minnst á hvað það er t.d. stutt að fara til Parísar, Berlínar og London.“

Hrafnhildur Árnadóttir hrafnhildura@yahoo.com