Hver er þátttaka söngnemandans í tónlistarlífinu?

Á spjallfundinn mættu um 8 manns að þessu sinni úr rokinu sem feykti mönnum á KEX föstudaginn var.

Alltaf skapast jafn fjörug umræða og yndælt var að hitta kollegana.

 

Umræðuefnið var um það hvernig mætti virkja nemendur betur til þess að vera virkir tónlistarnjótendur.

Hver er þátttaka nemandans í tónlistarlífinu?

Hér er úrdráttur úr því helsta sem kom fram:

Það er því miður of algengt að söngnemendur séu tregir til að mæta á tónlistarviðburði og ótrúlegt að vita til þess að til séu nemendur á framhaldsstigi sem hafi aldrei farið á óperuuppfærslu eða söngtónleika, hvað þá á hljóðfæratónleika eða Sinfóníuna og þekki jafnvel ekki til starfandi söngvara hérlendis og á alþjóðavettvangi.

Það má auðvitað skrifa þetta á margt; mikla samkeppni um tíma fólks, áhugaleysi, netið og ofmötun þess, en einnig þennan nútíma “sjúkdóm” að vilja fá hlutina til sín án þess að hafa fyrir því.

Einnig má ekki gleyma þeirri staðreynd að fjöldi fólks lærir söng án þess að hafa áhuga á því að leggja hann fyrir sig, ólíkt t.d. leiklistarnemum sem eru valdir úr stórum hópi umsækjenda og hreinlega ætlast til þess að fá að starfa við greinina.

Fordómar, sérstaklega ungra nemenda gagnvart óperuforminu og klassík almennt eru því miður ríkjandi og það vekur áhyggjur okkar sem kennum yngri kynslóðinni, þó er margt sem hefur í seinni tíð orðið til þess að binda stíltegundir saman og nútímavæða klassíkina.

Besta dæmið ákkúrat núna er eflaust vinsældir Ragnheiðar í ÍÓ, þar sem Gunnar Þórðarson, frekar þekktur af mörgum sem poppari kemur með dásamlegt nýtt verk í óperubókmenntir Íslands. Um að gera að nýta þann meðbyr sem fæst með slíkum sigri. Einnig hjálpa viðburðir eins og Skálmöld með Sinfó til þess að brjóta ísinn fyrir marga að mæta á klassíska tónleika. Við verðum jú að byggja upp framtíðaráheyrendur.

Margar skemmtilegar hugmyndir og aðferðir kollega okkar komu fram á fundinum til þess að virkja nemendur í tónleikasókn og almennum áhuga á starfandi söngvurum.

 

  • Skylda mætti nemendur til þess að mæta sem hluta af iðn-einkunn. í dag er nægilega mikið í boði til þess að nemandinn geti valið úr viðburðum sem eru ókeypis eða með miklum námsmannaafslætti.

  • Kennarar úti á landi hafa efnt til menningarferða til Reykjavíkur, í Hörpu þar sem nemendur hlustuðu á tónleika með Sinfó.

  • Einn kennari býður nemendum sínum heim til þess að koma með eitt nafn söngvara, koma með sýnishorn og tala um hann. Þetta er partý og allsendis launalaust fyrir kennarann, en vekur upp skemmtilega umræðu og allt önnur viðbrögð en að láta mata sig af upplýsingum og skoðunum.

  • Fara með nemendum á tónleika sem hluta af námi eða námskeiði.

  • Láta nemandann fara á tónleika og skrifa umsögn um söngvarann.

  • Hvað finnst þér? Hvað vilt þú? – er oft spurning sem vekur nemandann af værum svefni ofmötunar og “gerðu eitthvað við mig” aðferðum. Oft vantar sjálfstæða hugsun sem vegur á móti ofmötun og “copy-paste” hugarfari nemenda. Nemendur (og við!) eru gjarnan ofmötuð í dag. Hann kemur í tímann eins og um nudd eða meðferð væri að ræða og vill láta gera eitthvað við sig í stað þess að vinna vinnuna sjálfur.

  • Nota þekktar melódíur sem hafa t.d. verið notaðar í auglýsingum til þess að brjóta niður fordóma, sérstaklega gagnvart óperu.

  • Benda á söngkonur eins og t.d. Beyoncé og sýna hvernig þær nota margt sem er augljóslega lært frá klassík; strófur, slaufur, “runs” o.sfrv. og brúa þar bilið milli stílanna og auka skilning.

  • Yngri kynslóðin hlustar orðið lítið á útvarp eða les blöð. Oft er spurning hvort þau viti hreinlega um það sem er í gangi, annað en það sem kemur fram á samfélagsmiðlum og á netinu.

 

Einnig vaknaði umræða um tengingu nemandans á hærri stigum við stóru stofnanirnar eins og til dæmis Óperuna og hvernig hægt væri að vinna og kynna nemanda betur starfsvettvanginn.

Í ljósi þess að FÍS tekur þátt í málþingi um framtíð óperuflutnings á Íslandi á laugardaginn 29. mars n.k. var gaman að hafa þann pól í umræðunni:

 

  • Í raun er menntaskylda Íslensku óperunnar að sýna fleiri óperur en topp 10. Eru möguleikar að sýna fleiri óperur sem leiklestur; kynningar; óperur í tónleikaformi oþh.? Vera með fleiri eins manns óperur?

  • Væri hægt að bjóða nemendum á efri stigum söngnemenda, heimsókn í óperuna? Starfskynningu í óperuna, t.d. á generalprufu eða á síðustu metrum æfingaferlis?

  • Auka mætti samvinnu söngnema og tónlistarskóla við flutning á kantötum, oratoríur og kammertónlist.

  • Sameina mætti óperudeildir skólanna. Væri ekki betra ef þeir skólar sem halda úti óperuuppfærslum sameinuðu krafta sína og héldu úti sameiginlegri óperudeild/stúdíói án þess að fara út í endilega fulla kostnaðarsama óperustúdóstarfsemi. Það virðast of margir hver í sínu horni að gera þó kostnaðarsama hluti sem mætti hagræða.

F. hönd stjórnar FÍS,