Síðustu hádegistónleikar vetrarins í Íslensku óperunni verða þriðjudaginn 19. apríl kl. 12.15. Að þessu sinni er gestasöngvari á tónleikunum Maríus Sverrisson, sem gert hefur garðinn frægan bæði hérlendis og í Þýskalandi. Auk hans kom fram á tónleikunum Bragi Jónsson, Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Erla Björg Káradóttir, Hlynur Andri Elsuson, Hörn Hrafnsdóttir, Jóhanna Héðinsdóttir og Natalía Druzin Halldórsdóttir ásamt Antoníu Hevesí píanóleikara. Á efnisskránni eru aríur og samsöngvar m.a. úr Aidu, Spaðadrottningunni, Don Pasquale, Don Giovanni, My Fair Lady og Óperudraugnum. Sviðsetningu annast Bjarni Thor Kristinsson, bassasöngvari, sem spreytir sig í fyrsta sinn á sviðsetningu í Íslensku óperunni, en hann hefur sungið í mörgum af þekktustu óperuhúsum Evrópu á undanförnum árum.
Aðgangseyrir á tónleikana er aðeins 1.500 kr. Gestir geta keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana.
Continue reading „Ungir einsöngvarar í ÍÓ þri. 19. apríl kl. 12.15“