Á síðustu tónleikum hádegistónleikaraðar Hafnarborgar, fimmtudaginn 7. maí kl. 12, syngur Bragi Bergþórsson, tenórsöngvari, ásamt Antoniu Hevesi píanóleikara en þetta er í annað sinn sem hann syngur á hádegistónleikum með Antoniu. Þau ætla að flytja tónlist eftir Schubert og ítalskar aríur undir yfirskriftinni Tenórinn og tilfinningarnar.
Bragi Bergþórsson er fæddur árið 1981 í Reykjavík og er búinn að vera í tæp tvö ár í barneignarleyfi. Hann hefur verið duglegur að ferðast um landið farið í tónleikaferðalag um Austurland og tekið þátt í tónleikauppfærslum í Íslensku Óperunni. Hann hyggst flytjast til Þýskalands ásamt fjölskyldu sinni til að einbeita sér að söngferlinum.
Bragi hóf ungur tónlistarnám á fiðlu og píanó en söng í fyrsta skipti á sviði í barnakór í óperunni Othello í Íslensku Óperunni árið 1992. Hann söng einnig með Hamrahlíðarkórunum en sneri sér að söngnámi árið 2002 í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Dr. Þórunni Guðmundsdóttur. Árið 2004 hélt hann til Lundúna þar sem hann stundaði nám við Guildhall School of Music & Drama hjá Rudolf Piernay. Þar lauk hann Mastersgráðu árið 2005 og Óperudeild skólans sumarið 2007. Hann hefur komið fram í ýmsum óperuuppfærslum, ss. frumflutningi á Gretti, óperu Þorkels Sigurbjörnssonar, á Íslandi, Þýskalandi og Kanada, hlutverk Flamand í Capriccio (Strauss), Basilio og Don Curzio í Brúðkaupi Fígarós (Mozart), Tinca í Il Tabarro (Puccini), Dansameistarinn í Ariadne auf Naxos (Strauss) og nú síðast sem Gastone í La Traviata (Verdi) hjá Íslensku Óperunni. Bragi hefur einnig sungið nokkuð á tónleikum bæði hér heima og erlendis.