Gissur Páll með Óp-hópnum í ÍÓ þri. 18. maí kl. 12.15

 Sjöundu og síðustu hádegistónleikar Óp-hópsins í Íslensku óperunni í vetur verða þriðjudaginn 18. maí kl. 12.15. Fram koma meðlimir hópsins ásamt Antoníu Hevesí píanóleikara og er Gissur Pálli Gissurarson tenórsöngvari sérstakur gestur á tónleikunum.

Efnisskráin er að þessu sinni alíslensk og eru á efnisskránni aríur, sönglög og samsöngvar úr íslenskum óperum og söngleikjum eftir Jón Ásgeirsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Þórunni Guðmundsdóttur, Gunnar Reyni Sveinsson, Tryggva Baldvinsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson og Gunnar Kristmannsson.

Miðaverð er aðeins 1.000 kr. og taka tónleikarnir um 40 mínútur í flutningi. Gestir geta keypt samlokur, sælgæti og drykki í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana.

 

Þá flytur Óp-hópurinn  úrval atriða úr dagskrá vetrarins á Óperukvöldi á Björtum dögum í Hafnarborg föstudaginn 4. júní kl. 20. Aðgangseyrir 2500 kr.

Guðrún Jóhanna í Gerðubergi sunn. 16. maí kl. 14

 Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir flytur ljóð úr bókinni Grannmeti og átvextir eftir Þórarin Eldjárn við lög Hauks Tómassonar ásamt Caput hópnum sunnudaginn 16. maí kl. 14 í Gerðubergi. Aðrir flytjendur eru: Kolbeinn Bjarnason á flautu, Eiríkur Örn Pálsson á trompet, Zbigniew Dubik á fiðlu, Siguður Halldórsson á selló og Snorri Sigfús Birgisson á píanó. Stjórnandi er Guðni Franzson.

Upptaka á ljóðunum var gerð í Salnum í Kópavogi árið 2009 og er stefnt að því að diskurinn komi út á næstu dögum. Aðgangur á tónleikana er ókeypis.