Dúlcinerurnar í Langholtskirkju sunn. 17. okt. kl. 20

 Dúlcineurnar þær Guðrún Ingimarsdóttir, sópran, Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó og Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðla koma fram tónleikum Listafélags Langholtskirkju, sunnudagskvöldið 17. október kl. 20. Á efnisskránni eru verk þar sem þær koma fram allar saman eða tvær og tvær. Aría úr Brúðkaupskantötu eftir Bach, sónata fyrir fiðlu og píanó eftir Handel, svíta fyrir söngrödd og fiðlu eftir Villa Lobos, konsertaríur eftir Mozart og Melody op. 42 eftir Tsjækofskí eru meðal verkanna. Listakonurnar hafa um árabil verið í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna og hafa starfað saman við ýmis tækifæri.

Verð til listafélaga er kr. 2000, almennt verð kr. 2.500

Ingveldur Ýr ásamt Garðari Thór í ÍÓ fimmt. 21. okt. kl. 20

 Söngleikhúsið Lífsins karnival verður fært á svið í Íslensku óperunni fimmtudagskvöldið 21. október kl. 20. Á tónleikunum mun söngkonan Ingveldur Ýr ásamt sérlegum gesti, Garðari Thór Cortes tenórsöngvara, flytja lög af nýútkomnum geisladiski Ingveldar Ýrar, Portrett, auk þess sem óvæntir leynigestir munu líta inn. Á diskinum er að finna þversnið af fjölbreyttum ferli Ingveldar Ýrar, þar sem heyra má söngleikjatónlist og dægurlög í bland við óperuaríur og klassísk sönglög í útsetningum Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. Flutt verða ýmis lög úr smiðju Kurt Weill, Leonard Bernstein, Andrew Lloyd Webber, Giuseppe Verdi og Francis Poulenc, Jóns Ásgeirssonar og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, svo dæmi séu nefnd, og mun Garðar Thór m.a. flytja lög úr Vesalingunum, Óperudraugnum og hinum nýfrumflutta söngleik Webbers, Love never dies. Hljóðfæraleikur er í höndum Antoníu Hevesi auk þess sem notast er við hljóðfæraleik af diskinum sjálfum, sem var í höndum Caput-hópsins.

Hér er um að ræða sannkallað söngleikhús þar sem leikhúsi og söng er tvinnað saman í skemmtilegri sýningu, sem leikstýrt er af Ágústu Skúladóttur.

Allar nánari upplýsingar, auk mynda, veitir Ingveldur Ýr í síma 898 0108.

Gunnar, Ólafur Kjartan og Jónas í Salnum fös. 15. okt. kl. 20

 Föstudaginn 15. október kl. 20 halda Gunnar Guðbjörnsson, Ólafur Kjartan Sigurðarson og Jónas Ingimundarson tónleika í Salnum með lögum Árna Thorsteinsonar. en þann dag verða 140 ár liðin frá fæðingu tónskáldsins. Á efnisskrá verða lög eins og Rósin, Enn ertu fögur sem forðum, Nótt, Fífilbrekka gróin grund, Þess bera menn sár, Vorgyðjan kemur og Þar sem háir hólar. Nýlega hafa fundist ÁÐUR ÓÞEKKT lög eftir Árna og verða þau frumflutt á tónleikunum.