Jólasálmar í Seltjarnarneskirkju fimmt. 30. des. kl. 20

 Bragi Jónsson, bassi, Elfa Dröfn Stefánsdóttir, mezzósópran, Halldór Unnar Ómarsson, tenór, Ragnheiður Lilja Óladóttir, sópran og
Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, sópran, flytja sálma og þekkt jólalög við píanóleik Ingileifar Bryndísar Þórsdóttur, og flautuleik Bjargar Brjánsdóttur, fimmtudaginn 30. desember kl. 20 í Seltjarnarneskirkju.

Á efnisskránni eru m.a. verk eftir Sigvalda Kaldalóns, Adolphe Adam, Max Reger, César Franck, Mozart o.fl.

Aðgangur ókeypis, kakó, konfekt og piparkökur í eftirrétt 🙂 og allir velkomnir!

Jonas Kaufmann í Hörpu 21. maí kl. 17

Jonas Kaufmann syngur á Listahátíð með Sinfóníuhljómsveit Íslands í stóra sal Hörpu 21. maí kl. 17, svo lygilegt sem það er. Miðasala á tónleikana hefst í febrúar. Þessi skæra stjarna óperuheimsins hefur hlotið einróma lof fyrir flutning sinn í öllum helstu óperuhúsum heims. Kaufmann er fæddur í München í Þýskalandi árið 1969 og hóf feril sinn hjá Staatstheater Saarbrucken árið 1994 (getiði hver er þar núna? ÓKS). Síðan hefur hann sungið m.a. við Metropolitan-óperuna, Parísaróperuna, og við tónlistarhátíðirnar í Bayreuth og Salzburg. Nýverið hlaut hann mikið lof gagnrýnenda fyrir túlkun sína á Don José í Carmen og Cavaradossi í Toscu Puccinis í Covent Garden. Kaufmann er nú á hátindi ferils síns og er uppselt á tónleika hans og óperuuppfærslur með löngum fyrirvara. Hann hefur auk þess sungið inn á fjölda hljómdiska með óperuaríum og ljóðasöng, sem hafa verið tilnefndir til Gramophone- og BBC-tónlistarverðlaunanna.   
 
Rétt fyrir komu Kaufmanns á Listahátíð í vor kemur hann fram ásamt stjörnuliði stórsöngvara í Metropolitan-óperunni, í uppfærslu Roberts Lepage á öðrum hluta Niflungahrings Wagners, Valkyrjunum. Þar syngur hann meðal annars með gestum sem Íslendingum eru að góðu kunnir frá fyrri Listahátíðum: Bryn Terfel og Deborah Voigt, undir stjórn James Levine.
 
Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hörpu.

Pourquoi me réveiller úr Carmen er gott dæmi um hvers lags afburða söngvari Kaufmann er, röddin dökk svo að stundum minnir á barítón, en hæðin tindrandi og björt eins og trompett.

Fréttin á heimasíðu Listahátíðar
 
 

Anna Jóns í Skúlatúni 2 fös. 17. des. kl. 12.15

 Jólahádegistónleikar Önnu Jónsdóttur sópran og Sophie Schoonjans hörpuleikara verða haldnir föstudaginn 17. desember klukkan 12:15, að Skúlatúni 2, 6 hæð.

Anna og Sophie hafa starfað saman undafarinn áratug, en á þeim tíma  hafa þær á hverju ári sett saman aðventu- og jóladagskrá til flutnings.  Á tónleikunum flytja þær uppáhaldsjólalögin sín í fjölbreyttri dagskrá sem hefur að geyma aðventu- og jólalög og aðra andlega tónlist.

Dagskráin er hæfilega löng til að hlýða á í hádeginu og  hentar vel til að slaka á í amstri dagsins.

Aðgangseyrir er 1000 kr.